Rally Reykjavík var haldið um helgina sem leið. Ellefu áhafnir hófu leik á Ólafsvík á föstudagsmorgni. Aðstæður voru mjög krefjandi en þoka var mikil og henni fylgdi einnig rigning.
Í AB-Varahlutaflokk var Daníel Jökull Valdimarsson, 14 ára aðstoðarökumaður, á sínu fyrsta keppnistímabili í rally. Hann hefur tekið þátt í öllum rallkeppnum sumarsins.
Svo fór að Daníel og ökumaður bílsins Valdimar Jón Sveinsson, faðir Daníels, lönduðu sigri í Rally Reykjavík og því er Daníel Íslandsmeistari í flokki aðstoðarökumanna AB-Varahlutaflokks.
Til þess að gera þann áfanga enn merkilegri er Daníel yngsti Íslandsmeistari í sögu Rallykeppna á Íslandi.
Einnig hlaut Daníel heiðursverðlaun Alþjóðarallsins þar sem hann var valinn maður mótins.
Daníel hefur verið iðinn í mótorsporti í sumar en hann keppir einnig í flokki unglinga í Rallykrossi þar sem hann er í toppbaráttu um Íslandsmeistaratitilinn, en hann situr í 3.sæti fyrir lokakeppni Íslandsmótsins.
Samkvæmt Valdimar, föður Daníels, hefur Daníel alla tíð haft mikinn áhuga á motorsporti enda ekki langt að sækja áhugan og metnaðinn. Daníel hefur lagt gríðarlega mikið á sig til að ná á þann stað sem hann er á í dag og stefnir enn lengra og sýnir það í verki. Þeir sem hafa séð metnaðinn í nótugerð og upplestri nóta á sérleiðum geta vottað fyrir það að þar er öllu til tjaldað og hvergi slakað á kröfum. Daníel stundar m.a. rally, rallycross, motorcross, go-kart og vélsleða. Motorsportið á hug hans allan.
Daníel Jökull á svo sannarlega bjarta framtíð fyrir sér í motorsporti og hlakkar okkur mikið til að fylgjast með honum á komandi árum.