Yfirlýsing vegna aksturs utanvega í Rally Reykjavík 2017 austan Heklu

18.10.2017

Akstursíþróttasamband Ísland (AKÍS) og aðildarfélög þess hafa með sér umhverfisstefnu þar sem markmiðið er að gera umhverfisáhrif akstursíþrótta minni og skapa þar sem það er hægt jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag við keppnishald, æfingar og aðra viðburði.

Í Fréttablaðinu í dag 18. október 2017 er grein um slæma umgengni vegna keppninnar Rally Reykjavík sem haldin var af Bifreiðaíþróttaklúbbi Reykjavíkur (BÍKR) og fór meðal annars fram á leiðum í nágrenni við Heklu.

Keppnishald í rally er í föstum skorðum og er haldið í góðri samvinnu við lögreglu og sveitarstjórnir á hverju svæði ásamt veghöldurum viðkomandi leiða. Meðan keppni fer fram er vegum lokað fyrir annarri umferð. Þetta er gert með gulum öryggisborðum ásamt því að starfsmenn gæta helstu vegamóta. Í dag er ekki er notuð málning til að merkja upphaf og endi sérleiða heldur er notast við GPS hnit. Sérstakir undanfarar aka á undan keppendum og sjá til þess að leiðin sé greið. Eftirfarar koma síðan á eftir keppendum og taka meðal annars niður öryggisborða og láta vita ef eitthvað þarf að laga eftir keppni.

Þegar keppt er í rally er ávallt einhver hætta á að laust efni í yfirborði vega færist til, eða vegur grafist í beygjum.  Vegna þessa hefur AKÍS sótt um að fá árlega úthlutað upphæð úr samgönguáætlun til viðhalds vega sem notaðir eru sem íþróttasvæði (íþróttavega).  Þetta er til samræmis við það sem gert er með reiðvegi.  Vonast AKÍS til þess að í næstu fjárlögum verði þessi liður inni.

Keppendur geta, eins og aðrir vegfarendur, misst stjórn á keppnistækinu þannig að það lendi utan vegar. Það er þó ekki algengt, því slíkt tefur keppandann og getur skemmt keppnistækið. Eftir keppni sjá keppnishaldarar og keppendur um að laga til skemmdir á náttúru og gróðri eftir því sem hægt er og vitað er um.

Stjórn BÍKR hafði fengið upplýsingar um þessar kvartanir og óskað eftir nánari staðsetningu og jafnvel myndum, svo bregðast mætti skjótt við, en þau svör hafa ekki borist enn.

Samkvæmt upplýsingum sem AKÍS hefur aflað sér frá heimamönnum, þá er nú kringum 40cm jafnfallinn snjór á svæðinu og því lítt hægt að gera.  AKÍS þykir miður að ekki hafi tekist að gera nauðsynlegar lagfæringar fyrir vetur og treystir því að BÍKR muni ganga í þá vinnu um leið og veður og færð leyfa.

Þar sem keppnistímabilinu 2017 er lokið mun Stjórn AKÍS skoða í vetur hvernig bæta megi umhverfisstefnu og keppnisreglur sambandsins til að hindra að sambærileg atvik gerist í framtíðinni.

 

Frekari upplýsingar

Umhverfisstefna AKÍS

Frétt á visir.is