Verðlaunaafhending meistaratitla akstursíþrótta 2020

23.11.2020

Verðlaunaafhending meistaratitla akstursíþrótta fór fram í fundarsal ÍSÍ 21. nóvember 2020.

Tilkynntir voru íslandsmeistarar í öllum greinum akstursíþrótta.

Eftir tilnefningar frá keppnisráðum einstakra greina og netkosningu kaus Formannafundur AKÍS eina konu og einn karl sem Akstursíþróttamenn ársins.

 

 

Akstursíþróttakona ársins 2020– Heiða Karen Fylkisdóttir - AÍH

Akstursíþróttamaður ársins 2020 – Vikar Sigurjónsson - AÍH

Þessi tvö eru tilnefnd af AKÍS til kjörs íþróttamanns ársins 2020.

 

Íslandsmeistarar 2020

Flokkur Nafn Félag
Drift - Götubílaflokkur Michal Kujoth AÍH
Drift - Minni götubílar Emil Örn Kristjánsson AÍH
Drift - Opinn flokkur Jón Þór Hermannsson AÍH
Rally – Aðstoðarökumenn AB Varahlutaflokkurinn Egill Andri Tryggvason BÍKR
Rally – Aðstoðarökumenn flokkur A Erika Eva Arnarsdóttir AÍH
Rally – Aðstoðarökumenn flokkur B Ísak Guðjónsson BÍKR
Rally – Aðstoðarökumenn jeppar Magnús Þórðarson BÍKR
Rally – Aðstoðarökumenn heildin Ísak Guðjónsson BÍKR
Rally – Ökumenn AB Varahlutaflokkurinn Ívar Örn Smárason BÍKR
Rally – Ökumenn flokkur A Daníel Sigurðarsson AÍH
Rally – Ökumenn flokkur B Gunnar Karl Jóhannesson BÍKR
Rally – Ökumenn jeppar Guðmundur Snorri Sigurðsson AÍH
Rally – Ökumenn heildin Gunnar Karl Jóhannesson BÍKR
Nákvæmnisakstur rafbíla - Ökumenn Jóhann Egilsson KK
Nákvæmnisakstur rafbíla - Aðstoðarökumenn Pétur Wilhelm Jóhannsson KK
Rallycross – Unglingaflokkur Óliver Örn Jónasson AÍH
Rallycross – Standard 1000cc flokkur Alexander Már Steinarsson AÍH
Rallycross – 1400 flokkur Arnar Már Árnason AÍH
Rallycross – 2000 flokkur Vikar Karl Sigurjónsson AÍH
Rallycross – 4X4 Non Turbo Ólafur Tryggvason AÍH
Rallycross – Opinn flokkur Atli Jamil Ásgeirsson AÍH
Kvartmíla - OF Valur Jóhann Vífilsson KK
Kvartmíla - SS Kristján Þorbjörn Bóasson KK
Kvartmíla - ST Victor Hjörvarsson KK
Kvartmíla - TS Hafsteinn Valgarðsson KK
Sandspyrna – Jeppar Grétar Már Óskarsson TKS
Sandspyrna – Útbúnir jeppar Stefán Kristjánsson KK
Sandspyrna – Opinn flokkur Valur Jóhann Vífilsson KK
Sandspyrna – Sérsmíðuð ökutæki Gauti Möller BA
Hermikappakstur Aron Óskarsson KK
Kappakstur - Formula 1000 Jóhann Egilsson KK
Torfæra – Sérútbúnir Ingólfur Guðvarðarson TKS
Torfæra – Götubílar Steingrímur Bjarnason TKS

 

Heiða Karen Fylkisdóttir - Akstursíþróttamaður ársins 2020 - Konur

Heiða Karen Fylkisdóttir er 18 ára keppandi frá Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar. Heiða Karen er alin upp í kring um akstursíþróttir og á ekki langt að sækja áhugann þar sem móðurafi hennar var einn af stofnendum Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur (BÍKR) og faðir hennar Fylkir A. Jónsson er formaður Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar (AÍH) og fyrrum Íslandsmeistari í rallý og rallýcrossi.

Heiða Karen hóf keppni í unglingaflokki í rallýcrossi 15 ára gömul, árið 2018. Árið 2020 færði hún sig um set í 1000 cc flokkinn og lýkur Íslandsmeistaramótinu þar í 10. sæti eftir hressilegra baráttu í sumar við marga frábæra ökumenn.

Í sumar tók Heiða Karen einnig þátt í Íslandsmeistaramótinu í rallý sem aðstoðarökumaður föður síns og var það hennar fyrsta keppnisreynsla í rallý. Skemmst er frá því að segja að þó faðir hennar hafi áður hampað Íslandsmeistaratitli tókst honum nú með Heiðu Karen sem aðstoðarökumann, að vinna fyrstu keppni sína, eftir glæsilegan árangur í síðustu keppni ársins, við einstaklega krefjandi og erfiðar aðstæður. Eru þau þar með búin að skrá nöfn sín á blöð íslenskrar akstursíþróttasögu sem fyrstu feðgin til að landa sigri í rallýkeppni hérlendis.

Heiða Karen lauk keppni á Íslandsmeistaramótinu í fimmta sæti í heildina af 33 keppendum en hún gerir margt fleira en að sitja um borð. Hún er liðtæk við að vinna í keppnistækjunum milli keppna, m.a. sprautaði hún rallýcrossbílinn sinn sjálf. Þá er hún öflugur talsmaður akstursíþrótta með þátttöku í kynningum, á samfélagsmiðlum, hlaðvarpi og víðar. Heiða Karen þekkir íþróttalífið úr fleiri áttum eftir áralanga þátttöku í dansíþróttum, m.a. á vettvangi landsliðsins í samkvæmisdönsum. Hún gerir ríkar kröfur til sín og hefur keppnisskap og metnað til að gera sífellt betur. Hún er glaðlynd, jákvæð og alltaf tilbúin að leggja gott til. Heiða Karen er afar efnilegur keppandi, góð fyrirmynd og á svo sannarlega heima í hópi kvenna sem hljóta tilnefningu sem akstursíþróttakona ársins 2020.

 

 

Vikar Sigurjónsson - Akstursíþróttamaður ársins 2020 - Karlar

Vikar Karl Sigurjónsson keppir undir merkjum Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar (AÍH) og tekur virkan þátt í starfsemi þess félags, sem og akstursíþróttastarfi á Suðurnesjum þar sem hann er búsettur. Vikar landaði bikar- og Íslandsmeistaratitli í 2000 flokki í rallýcrossi eftir harða keppni í sumar. Hann tók einnig þátt í tveimur rallýkeppnum.

Vikar er eigandi og framkvæmdastjóri heilsu- og líkamsræktarstöðvarinnar Lífsstíls í Reykjanesbæ og stundar líkamsrækt og íþróttir af kappi. Í akstursíþróttum sem annars staðar er árangur nátengdur líkamlegu og andlegu atgervi þar sem gott þrek og úthald gegna lykilhlutverki.
Sem keppandi og félagi hefur Vikar vakið sérstaka athygli fyrir jákvæða framkomu og gott viðmót. Hann er gleðigjafi, hugmyndaríkur og málefnalegur í umræðum. Þegar hann kom að fræðslu á unglinganámskeiði í akstursíþróttum sl. vetur lagði hann m.a. ríka áherslu á vináttu og liðsheild sem lýsir viðhorfum hans vel.

Vikar hefur haldið úti, ásamt liðsfélögum sínum, fjörlegri umfjöllun á samfélagsmiðlum í því skyni að vekja áhuga og athygli á liði sínu og akstursíþróttum í heild.

Með jákvæðri framgöngu, glaðværð og hreysti er Vikar Sigurjónsson öðru íþróttafólki góð hvatning og fyrirmynd og vel að því kominn að hljóta tilnefningu sem akstursíþróttamaður ársins 2020.