Úrslit: Sindratorfæran á Hellu

12.5.2018

Í dag fór fram fyrsta umferð íslandsmótsinns í Torfæru 2018, Sindratorfæran á Hellu. Það var mikið um dýrðir og ekki vantaði uppá sýninguna hjá ökumönnunum. Brautirnar framanaf voru eknar með miklum tilþrifum, stökkum og veltum við mikinn fögnuð þeirra 5000 áhorfenda sem lögðu leið sína á svæðið. Á eftir komu hraðari brautir sem reyndu gríðarlega á bíla og menn sem endaði með fleytingum og mýrarakstri með frábærri skemmtun.

Í fyrsta sæti í götubílum varð loksins Eðvald Orri Guðmundsson á Pjakknum,  hlaut hann veglegan bikar auk 100.000 kr inneignar hjá Sindra.
Í öðru sæti fyrrum íslandsmeistarinn Ívar Guðmundsson á Kölska og í þriðja sæti Haukur Birgisson á Þeytingi. Tilþrifaverðlaunin komu svo í hlut Steingríms Bjarnasonar á Strumpnum, en hann sýndi mikil tilþrif í flestum brautum dagsinns.

Í sérútbúna flokknum var það Þór Þormar Pálsson á Thor sem stóð uppi sem sigurvegari. Má segja að hann hafi komið séð og sigrað, því hann hlaut einnig tilþrifaverðlaun fyrir það þegar hann sló heimsmetið í vatnafleytingum og ók á 102 km/klst á ánni og sló þar með 4 ára gamalt met Guðbjörns Grímssonar á Kötlu Turbo.
Þór var ekki hættur heldur uppskar flest stig eftir daginn og vann þar með Helluna sem er farandbikar af sverustu gerð og heldur honum til eignar í 1 ár. Þór hafði verið í harðri baráttu við Atla Jamil á Thunderbolt en Atli missteig sig örlítið í vatnaakstrinum sem kostaði hann dýrmæt stig.
Í öðru sæti var það svo Ingólfur Guðvarðarson sem loksins tókst að klára allar brautir á Hellu og uppskar eftir því.
Þriðja sætið kom í hlut Geirs Everts Grímssonar sem sýndi flotta takta og kláraði ánna í fyrsta skipti eftir fjölmörg döpur ár þar á undan.
Aukaverðlaun dagsins voru svo veitt Gesti J. Ingólfssyni fyrir að tvíhjóla í ánni en fleyta samt alla leið.
Hreint út sagt frábær keppni hjá Flugbjörgunarsveitinni á Hellu og Akstursíþróttanefnd umf. Heklu þar sem allt gekk upp.
Sjá nánar stöðuna í íslandsmótinu hér.