Úrslit: Rally Reykjavík

2.9.2014

Rallý Reykjavík, alþjóðlega rallið, fór fram dagana 28. til 30. ágúst. 18 áhafnir hófu keppni en 14 skiluðu sér í endamark.

Daníel og Ásta á GlaðheimaleiðinniSystkynin Daníel og Ásta Sigurðarbörn settu tóninn strax á fyrstu leið sem lá um Hvaleyrarvatn, stutt leið en systkynin settu langbesta tímann og tóku forustu sem þau létu aldrei af hendi. Ólánið hefur elt þau í sumar, þetta er fyrsta keppnin sem þau ljúka en það hefur alltaf legið í loftinu að þau myndu klára í efsta sæti þegar bíllinn dygði í endamark.

Tveir Íslandsmeistarar urðu til.

Í öðru sæti, eftir mjög góðan og öruggan akstur urðu þeir Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson. Þeir eru nýliðar í toppbaráttunni en hafa svo sannarlega komið á óvart og slegið í gegn. Annað sætið dugði þeim til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Þó bíllinn hafi verið mikið öflugri en sá sem þeir óku áður varð það aldrei til þess að þeir keyrðu framúr sér og gerðu mistök. Þess má geta að Baldur hefur keppt þónokkur ár í ralli en ólíkt öllum öðrum keppendum hefur hann aldrei fallið úr keppni, það eitt og sér er mikið afrek og segir mikið um Baldur, hvernig hann undirbýr sig og hagar sínum akstri. Þess má geta að Baldur er hálfsextugur en ljóst að þessi orkubolti á langan tíma eftur undir stýri á rallýbíl.

Baldur Arnar Hlöðversson og Guðni Freyr Ómarsson tryggðu sér Íslandsmeistaratitil í flokki aflminni bíla, svokallaðu "Non turbo" flokkur. Þeir óku af öryggi og þegar keppinautunum fækkaði einum af öðrum var ljóst að þeir þyrftu einungis að klára til að hampa titli sem þeir og gerðu.

Í þriðja sæti í keppninni urðu Sigurður Bragi Guðmundsson og Björgvin Benediktsson. Þeirra keppni hófst í raun hálfum mánuði fyrr þegar ljóst var að Sigurð vantaði aðstoðarökumann þar sem Ísak Guðjónsson komst ekki í þessa keppni. Þetta var eitt en það þurfti líka að laga bílinn sem var alls ekki í keppnishæfu ástandi og sá maður sem hafði haldið bílnum gangandi fyrir Sigurð var óvinnufær eftir óhapp á mótorhjóli. nú voru góð ráð dýr og nærtækast að sleppa þessari keppni. En til allrar hamingju mistókst uppeldi Sigurðar á þann hátt að honum er það ekki í blóð borið að játa sig sigraðann. Því var spýtt í lófa, bílnum "reddað einhvernveginn" og Björgvin fenginn sem aðstoðarökumaður. Sigurður, sem hefur húmorinn alveg á réttum stað, hefur oft talað um að það sé ekkert gagn af sér þegar kemur að því að huga að bílnum, ekki einu sinni til að skipta um dekk. Þetta kom berlega í ljós á síðustu sérleiðinni þegar þeir félagar sprengdu dekk og þurftu að skipta á miðri sérleið. Björgvin fór úr, tók dekk og verkfæri úr skottinu, fór að losa sprungna dekkið og tjakka bílinn upp og bað Sigurð að aðstoða þó hann segðist gagnslaus. Allt kom fyrir ekki og þegar Björgvin var búinn að skrúfa sprungna dekkið undan fór hann að leita að varadekkinu sem Sigurður var búinn að ganga samviskulega frá í skottið aftur. Það vill til að sumir hafa góðan húmor fyrir sjáfum sér og þess vegna fáum við að frétta af svona atvikum.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Íslandsmeistarar síðasta árs, þeir Henning Ólafsoon og Árni Gunnlaugsson höfnuðu í fjórða sæti. Þeirra keppni var ekki áfallalaus og enn eru álitamál sem dómnefnd þarf að kljást við. Þeir, eins og margir aðrir, fóru aðra leið en keppnisstjórn hafði lagt upp með. Án þess að rekja það atvik hér er fréttaritara ljóst að þetta getur breytt stöðunni í keppninni og erfitt að átta sig á hvaða staða sé líkleg en best er að bíða eftir niðurstöðu dómnefndar.

Maður keppninnar.

Í áratugi hefur Gunnlaugur Einar Briem fylgt keppnum með myndavélina að vopni og skilað þúsundum mynda. Hann hafði líka lofað sér að hann myndi sjálfur setjast undir stýri á fertugs afmælinu, og það gerði hann. Björn Ragnarsson fór með hounum og til að byrja með fóru þeir sér hægt, en hraðinn kom með hverjum kílómeter og síðasta beygja á síðustu sérleið verður eflaust nefnd GullaBeygja hér eftir. Gunnlaugur hafði talað um hve leiðinlegt það væri fyrir ljósmyndara að keppendur fóru mjög rólega í síðustu beygjuna, hann sýndi hvernig ætti að taka þessa síðustu beygju svo um munar og fór þversum gegn um hana alla áhorfendum og ljósmyndunum til mikillar hrifningar og uppskar mikið lófaklapp og fagnaðarlæti. Þetta, góð framkoma og flottur akstur gaf Gunnlaugi titilinn "Maður keppninnar" og fékk hann farandbikar sem erlendur keppandi kom með fyrir mjög mörgum árum og hefur bikarinn verið nefndur eftir honum, "Walker" bikarinn.

Kanski er reyndasti maður keppninnar Breskur hermaður?

Breski herinn kom fyrst með keppnislið sitt í Rallý Reykjavík fyrir nítján árum. Alan Paramore hefur keppt fimmtán sinnur í Þessari keppni, Einungis Sigurður Bragi gæti hafa keppt svo oft í þessari keppni. Bresku hermennirnir keppa á kraftlitlum og níðþungum Land Rover bílum en það er hreinasta unun að fylgjast með Paramore, þessi trukkur er eins og sportbíll í höndunum á honum en hann varð fremstur í jeppaflokki og sá eini sem gæti hugsanlega att kappi við bræðurna Heimi Snæ og Halldór Gunnar Jónssyni, en þeir urðu frá að hverfa á leið um Kaldadal á síðasta degi keppninnar þegar millikassi bilaði lítillega og fór reyndar í þúsund mola sem vildu ekki vera nálægt bílnum, millikassinn bókstaflega sprakk.

Áhöfn sem vert að að fylgjast með.

Þór Líni Sævarsson og Sigurjón Þór Þrastarson hafa sýnt að þeir geta keyrt hratt, en þeir hafa líka sýnt að þeir geta farið framúr sér. Síðarnefnda atriðið kostar reynslu, hitt er ekki öllum gefið. Þeirra keppni var ansi litrík, eftir flottan akstur á fyrstu leiðum veltu þeir bílnum á áhorfendaleiðinni í Glaðheimum, það tafði þá nánast ekkert, biðu bara eftir að bílnum væri velt á hjólin, settu í gang og héldur áfram þó bíllinn væri eitthvað laskaður. Líkt og Henning og Árni fóru þeir aðra leið en keppnisstjórn hafði lagt upp með og töpuðu miklum tíma. Þrátt fyrir það ætluðu þeir sér að klára, og helst í verðlaunasæti. En þegar hjólabúnaður gaf sig á Kaldadal á síðasta degi var nánast öll von úti. En eins og sönnum rallýökumönnum sæmir voru þeir ekki á því að gefast upp, þrátt fyrir að tapa tugum mínútna komu þeir bílnum í eitthvað ökuhæft ástand og skiluðu sér í mark, gátu lagað bílinn almennilega þar og kláruðu keppni.

Svo er það Dalabóndinn

Það verður ekki fjallað um Rallý Reykjavík 2014 án þess að minnast á Örn Dala Ingólfsson. Dali, eins og hann er jafnan kallaður, keppir ávalt á Trabant. Trabbinn fer e.t.v ekki hratt yfir, en skilar sér nú oftast í endamark við mikinn fögnuð áhorfenda. Keppendur eru jafnan með skeiðklukkur um hálsinn eða á veltbúrinu, þessu er öðruvísi farið í Trabbanum hjá Dala, þar er dagatal.

Skemmtileg íþrótt.

Þó menn, og konur, berjist af hörku á sérleiðum þá er stutt í vinskapinn um leið og komið er út af leiðunum. Þar höfum við séð keppendur sem eru jafnvel í sekúnduslag hjálpast að við að laga bíla hvors annars. Ekki skemmir fyrir hve skemmtilegan húmor keppendur hafa fyrir sjálfum sér og dæmin hér að ofan bara örfá af ótalmörgum atriðum sem gera rallið að þeirri skemmtun sem það sannarlega er.

Stöðuna í íslandsmeistaramótinu má sjá hér.

ÞB