Tryggingar óskráðra keppnistækja

26.4.2017

Stjórn AKÍS hefur undanfarið átt fundi með Samgöngustofu, ráðuneytum og tryggingarfélögum þar sem meðal annars var rætt um tryggingar keppnistækja sem ekki eru skráð hjá Samgöngustofu.

Á þeim fundum hefur verið staðfest að sú frjálsa ábyrgðartrygging sem keppendur hafa verið að kaupa fyrir óskráð keppnistæki uppfyllir skilyrði reglugerðar um akstursíþróttir (Reglugerð 507/2007 ásamt síðari breytingum).

Það er stjórn AKÍS áhyggjuefni hversu mismunandi tryggingavernd þriðja aðila er vegna tjóna sem keppnistæki gætu valdið.  Þar munar miklu hvort þau eru óskráð (keppnistæki í torfæru, rallycross, drift, kvartmílu og gokart) eða skráð (keppnistæki í rally eða götubíll í torfæru).

Stjórn AKÍS hefur ákveðið leita leiða til að tryggingavernd óskráðra keppnistækja verði sem sambærilegust við keppnistæki sem eru skráð hjá Samgöngustofu og hægt er að fá tryggingaviðauka fyrir. Um leið og niðurstaða fæst verður sett frétt á akis.is og Facebook síðu AKÍS.

 

*Óskráð keppnistæki:  Keppnistæki sem Samgöngustofa er ekki með á skrá en AKÍS heldur utan um skráningarnúmer þeirra.

*Skráð keppnistæki:  Keppnistæki á skrá hjá Samgöngustofu og með hefðbundnar númeraplötur.