Tryggingar í akstursíþróttum

20.12.2017

Tryggingar í akstursíþróttum hafa hægt og sígandi verið að færast til betri vegar með aukinni vernd áhorfenda, starfsmanna og keppenda.

Í byrjun keppnistímabilsins árið 2017 átti AKÍS í viðræðum við hérlend tryggingarfélög vegna trygginga óskráðra keppnistækja. Niðurstaða þessara viðræðna var að Sjóvá eitt tryggingarfélaga ákvað að bjóða hlutlæga tryggingu án sakar fyrir þessi keppnistæki. Önnur tryggingarfélög buðu áfram frjálsa ábyrgartryggingu, þar sem sönnun á sök er krafist áður en til útgreiðslu bóta kemur.

Með þessari tryggingu frá Sjóvá kemur betri vernd fyrir þriðja aðila sem verður fyrir tjóni af völdum keppnistækis, þar sem ekki þarf að sanna að keppandi hafi sýnt vítavert gáleysi.

Slysatryggingu ökumanns eða ökumanna þarf ávallt að semja um og kaupa sérstaklega fyrir óskráð keppnistæki.

Í viðræðunum við tryggingarfélögin kom í ljós að þau telja öll að slysatrygging ökumanna sé í gildi þegar gefinn er út tryggingarviðauki fyrir skráð ökutæki. Betra er þó að hafa það staðfest og best að það komi fram í tryggingarviðaukanum.

Í ár hafa staðið yfir viðræður við Samgöngustofu um tryggingarmál og hvernig þeim væri best háttað i framtíðinni. Bæði er um að ræða breytingar til skemmri tíma og einnig hugleiðingar um hvaða áhrif ný umferðarlög hafi á þær tryggingar. Einnig verður litið til nágrannalanda okkar og athugað hvernig tryggingarmálum í akstursíþróttum er háttað þar. Þessar viðræður munu halda áfram strax í byrjun janúar.