Akstursíþróttaklúbburinn Start á Egilsstöðum hélt 3. umferð Íslandsmótsins í Torfæru á Egilsstöðum um helgina. Um 1000 manns voru á svæðinu meðan keppnin var í gangi og mikið var um tilþrif.
Mættir voru 16 keppendur í 3 flokkum.
Í sérútbúna flokknum sigraði Snorri Þór Árnason á Kórdrengnum eftir öruggan og flottan akstur alla keppnina. Snorri hefur tekið góða forystu í Íslandsmótinu eftir þessa umferð en hann hefur sigrað í 2 keppnum og lent einu sinni í öðru sæti.
Helgi Garðarsson á Spiderman lenti í öðru sæti í keppninni eftir tilþrifamikinn akstur, Helgi var að keppa í sinni fyrstu keppni en hann hefur verið aðstoðarmaður lengi hjá mörgum bílum á norðurlandi. Helgi hlaut einnig tilþrifaveðlaunin í þessum flokki.
Heimamaðurinn Kristmundur Dagsson á Tímaur endaði svo í þriðja sæti en hann velti m.a. tvisvar sinnum þennan dag en var einn af fáum sem kláraði erfiða fimmtu braut.
Í sérútbúna götubílaflokknum var það Bjarki Reynisson á Dýrinu sem sigraði, Bjarki tók mikla veltu í fjórðu braut en stóð engu að síður uppi sem siguvegari.
Jón Vilberg Gunnarsson á Snáðanum endaði í öðru sæti í keppninni en hlaut tilþrifaveðlunin í flokknum.
Aron Ingi Svansson á Zombie endaði í þriðja sæti en aðeins þrír keppendur voru í þessum flokki.
Í götubílaflokknum sigraði Ívar Guðmundsson á Kölska en hann hefur sigrað í öllum þremur mótunum til þessa og hefur góða forystu í baráttunni um Íslandsmeistaratitillinn.
Eðvald Orri Guðmundsson á Pjakknum lendi síðan í öðru sæti, Eðvald velti m.a. einu sinni og lenti í smá vandræðum í brautum þegar öxull brotnaði.
Steingrímur Bjarnason á Strumpnum lendi svo í þriðja sæti í keppninni en Steingrímur hlaut tilþrifaveðlaunin í þessum flokki.
Næsta torfærukeppni fer fram á Blönduósi 11.júlí en það verður Torfæruklúbbur Suðurlands sem mun halda þá keppni.