Systurnar Helga Katrín og Elva lifa og hrærast í torfærunni!

20.7.2017

Síðasta umferð íslandsmótsins í torfæru verður haldin næstkomandi sunnudag. Það er Torfæruklúbbur Suðurlands (TKS) sem stendur að keppninni sem fer fram í gryfjum við Fellsenda í Akrafjalli, við Akranes. Margar hendur koma að undirbúningi slíkrar keppni en athygli vekur að TKS er eina aðildarfélag Akstursambands Íslands með konu í formennsku, Helgu Katrínu Stefánsdóttur. Helga Katrín er torfæruáhugamönnum alls ekki ókunn en hún hefur komið að keppnishaldi með einum eða öðrum hætti síðustu 10 árin. Í upphafi var hún hluti af keppnisliði Trölla sem fylgdi tengdaföður hennar en þegar hann hætti keppni og afskiptum af félagsstarfinu bauðst henni þátttaka í stjórn TKS. Þar tók hún sæti árið 2012 en frá árinu 2013 hefur hún verið formaður hans.

Aðspurð segist Helga Katrín hafa gaman að keppnishaldinu og undirbúningi þess en hún hefur einnig tekið þátt í undibúningi keppnisferða erlendis. Helga Katrín einskorðar sig þó ekki eingöngu við TKS heldur hefur hún verið afar liðleg að aðstoða aðra klúbba, m.a. verið undanfari og dómnefndarmaður í rallýkeppnum.

Algengt er að virkir einstaklingar í mótorsporti heilli vini og fjölskyldumeðlimi til þátttöku en Helga Katrín plataði systur sína, Elvu Stefánsdóttur, til að vinna við eina keppni í Vestmannaeyjum fyrir 4 árum síðan. Skemmst er frá því að segja að Elva heillaðist af sportinu og því frábæra fólki sem því tengist. Tók hún sæti í stjórn TKS í um 2 ár en frá árinu 2014 hefur hún verið hluti af keppnisliði Guðbjörns Grímssonar (Bubba) á Kötlu, tók m.a. þátt í undirbúningi á USA-ferð s.l. haust, en önnur slík ferð er nú í undirbúningi. Elva hefur einnig verið liðtækur penni en hún sér um alla fjölmiðlaumfjöllun fyrir Kötlu og heldur úti síðunni foiceland.com

Nú um helgina er þó langþráður draumur Elvu að rætast því eftir mikið suð og sannfærandi tiltal tókst henni að sannfæra Bubba um að hún sé fullfær um að stríða strákunum í brekkunum. Hún mun því keppa á Kötlu, full eftirvæntingar og verður án efa spennandi að fylgjast með henni!