Öryggismat FÍB og EuroRAP á 4.200 kílómetrum íslenska vegakerfisins var kynnt í morgun. FÍB sér um framkvæmd EuroRap á Íslandi og fengu þeir Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra til að opna fyrir almennan aðgang á netinu að niðurstöðum mælinga og stjörnugjöf EuroRAP.
James Bradford, þróunarstjóri EuroRAP kynnti aðferðafræði mælinganna og fulltrúar FÍB kynntu niðurstöður stjörnugjafarinnar og svörðuðu spurningum, ásamt James Bradford.
Hlutverk EuroRap/FÍB er að framkvæma gæðamat á vegum út frá slysasögu og mati á öryggi veganna samkvæmt samhæfðum aðferðum. EuroRap eru samtök 29 bifreiðaeigendafélaga í jafnmörgum löndum Evrópu, stofnuð árið 1999 að frumkvæði FIA alþjóðasamtaka bifreiðafélaga. Auk FIA eru 14 opinberar stofnanir nokkurra Evrópulanda, t.d sænska Vegagerðin, TRL í Bretlandi og fleiri stuðningsaðilar við EuroRAP.
EuroRAP er systurverkefni EuroNCAP, sem árekstrarprófar bíla og gefur stjörnur miðað við öryggi. Meginmarkmið beggja verkefnanna er að fækka verulega banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni.
Hægt er að skrá sig á vefinn og skoða upplýsingar um stjörnugjöf og tölfræði umferðaröryggis hér:
https://vida.irap.org/en-gb/home
AKÍS fagnar þessu framtaki og vonar að það skili sér í auknu öryggi og fækkun slysa á vegum landsins.