Rallý viðurkennd íþrótt um allan heim

18.7.2013

Þessi grein um Rallý birtist á Feykir.is:

Rallý viðurkennd íþrótt um allan heim

Mynd: facebook.com/gudnygudmars

Mynd: facebook.com/gudnygudmars

Á sumrin er tímabil hinna ýmsu íþróttagreina. Heilu fjölskyldurnar taka fram takkaskóna ásamt hjólum, sundfötum og gönguskóm. Fjölskyldan mín er engin undantekning, takkaskórnir eru klárir og vel notaðir, hjólin komin í mikla notkun en í stað gönguskónna er rykið pússað af hjálmum og eldvörðum göllum. Það nefnilega kominn rallýfiðringur í fjölskylduna!

Þó rallý sé stundað af nokkuð stórum hópi fólks hér á landi, bæði konum og körlum, eru margir sem vita ekki hvað rallý er. Borið hefur á bæði vanþekkingu og þröngsýni gagnvart þessarri íþrótt en í þessum pistli er ætlunin að útskýra aðeins hvað rallý er.

1. Er rallý bara hópur fólks að keyra hratt?

Rallý er viðurkennd íþrótt um allan heim. Keppt er í mörgum löndum auk Íslands, frægasta rallý-keppnin er Dakar-rallið en það hefur verið haldið 34 sinnum. Í ár voru eknir 8.500 km í 14 löndum og voru 448 þátttakendur.

Rallýkeppnir hérlendis eru haldnar undir merkjum Aksturíþróttasamband Íslands (AKÍS) en það er sérsambandi innan ÍSÍ á sama máta og fótbolti, golf, hestaíþróttir, körfubolti og fleiri greinar. Framkvæmd rallýs er ekki einföld frekar en önnur íþróttamót. Að baki hverrar keppni liggur margra mánaða undirbúningsvinna og skipulagning. Einnig þarf marga aðila til starfa við framkvæmd keppni svo sem tímaverði, gæslu, undan- og eftirfara, lækni/hjúkrunarfræðing og fleira. Er sú vinna eingöngu unnin í sjálfboðaliðsvinnu meðlima akstursíþróttafélaganna.

Haldnar eru árleg mótaröð þar sem keppt er um íslandsmeistaratitla í mismunandi flokkum eftir tegund og útbúnaði bíla.

2. Eru einhverjar reglur til um rallý?

Já, mjög strangar reglur eru varðandi allt keppnishald og öryggi keppenda. Eru þær reglur útgefnar af FIA, Alþjóðaaksturíþróttasambandinu. Einnig eru reglur hérlendis settar af yfirvöldum ásamt AKÍS varðandi keppnisskipulag. Enginn keppandi né bifreið fær rásleyfi nema uppfylla ÖLL skilyrði ofangreindra aðila, eins veitir sýslumaður ekki leyfi fyrir keppni nema öll grunnatriði séu í lagi.

3. Hvernig fer rallý fram?

Akstur í rallý skiptist upp í „ferjuleiðir“ og „sérleiðir“. Á ferjuleiðunum eru keppnisbílarnir í almennri umferð, lúta almennum umferðarreglum og eru á leið milli sérleiða.

Sérleiðum er lokað fyrir almennri umferð tímalega fyrir keppni. Fylgst er með því að enginn sé fyrir keppnisakstri, hvorki bílar, gangandi vegfarendur né búfénaður. Svokallaðir undanfarar á vegum keppnishaldara aka leiðina tvisvar sinnum og verði þeir varir við eitthvað ofangreint hafa þeir möguleika á að fresta ræsingu keppnisbíla meðan leiðin er gerð örugg eða afturkalla ræsingu algerlega. Þegar akstri um sérleið er lokið er leiðin opnuð aftur fyrir almennri umferð. Er lokun á sérleiðum sambærileg banni við notkun almennings á fótboltavelli eða sundlaug meðan á keppni stendur.

Á sérleiðunum fer hin eiginlega keppni fram og stendur sá sig best sem fljótastur er frá upphafi að enda viðkomandi leiðar. Samanlagður árangur á öllum sérleiðum í hverri keppni sker úr um sigurvegara. Ökumaðurinn þarf að geta keyrt hratt en örugglega til að skila bæði bíl og áhöfn klakklaust í mark. Til að þetta geti orðið er með í för aðstoðarökumaður. Hann les hvað er framundan, þ.e. leiðbeinir ökumanninum hvernig best er að keyra, hratt/hægt, beygja til hægri/vinstri, hvað sé handan blindhæðar o.s.frv. Samvinna ökumanns og aðstoðarökumanns þarf að vera góð og traust svo árangur náist.

Val á sérleiðum byggist ekki á að keppnisbílarnir komist sem hraðast, þvert á móti er lagt upp úr að leiðir séu krefjandi á bíla og menn þannig að beygjur, hæðir o.þ.h. dragi úr hraða.

Tekið skal skýrt fram að fyrir keppni er fengið leyfi fyrir lokun hverrar sérleiðar hjá Vegagerð, lögreglu og sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags. Er lokunin auglýst samkvæmt reglum með sérstökum skiltum a.m.k. sólarhring fyrir lokun. Starfsmenn á vegum keppnishaldara loka svo leiðum til að tryggja öryggi keppenda og áhorfenda.

4. Hefur rallý einhver áhrif á samfélagið?

Rallý er góð forvörn auk þess að vera íþrótt. Í rallý er eins og áður var sagt takmarkið að keyra hratt en örugglega. Adrenalínsþurfandi einstaklingar geta í þessarri íþrótt fengið útrás fyrir þarfir sína í vel útbúnum bíl, sitjandi inni í viðurkenndu veltibúri, í eldvarnargalla, með viðurkenndan hjálm á höfði og niðurólaðir í a.m.k. fimm punkta öryggisbelti. Þessir einstaklingar þurfa því ekki að fá útrás á vegum úti, sjálfum sér og öðrum vegfarendum til mikillar hættu.

5. Hvað með uppeldislegt gildi?

Börnin eru það mikilvægasta í lífi okkar. Við leggjum heilmikið á okkur til ala þau upp á sem bestan máta, halda þeim nærri okkur í von um að geta forðað þeim frá ýmsum hættum svo sem fíkniefnum og afbrotum. Í rallý getur öll fjölskyldan sameinast og verið virk á marga vegu. Börnin geta tekið þátt sem keppendur frá fimmtán ára aldri sem aðstoðarökumenn en fyrr geta þau tekið þátt t.d. sem hluti af tímavarðarhóp.

Einfaldast er að útskýra þetta út frá minni eigin fjölskyldu en við lifum og hrærumst í rallýheiminum. Börnin okkar fylgja okkur alltaf, hvort sem er við undirbúning á bílnum eða á keppnisdaginn. Sameinast eru um að undirbúa nesti deginum áður, myndavélar teknar til ásamt því að skoða veðurspá og hafa viðeigandi fatnað til. Það okkar hjónanna sem ekki er keppandi tekur ævinlega þátt sem tímavörður en þar er upplagt að börnin fari með bæði til að læra “starfið” jafnt sem að horfa á. Eins höfum við hjónin keppt sama, komu þá amman og afinn með börnin að horfa á. Þegar um lengri keppnir er að ræða eins og í Skagafirði er farið í fjölskylduútilegu, er sú útilega eins sú skemmtilegasta á árinu því þar koma saman flestar virkar rallýfjölskyldur á landinu.

Næstkomandi helgi verður einmitt hið árlega tveggja daga Skagafjarðarrallý. Verður það eflaust spennandi bæði fyrir áhorfendur jafnt sem keppendur og óska ég öllum góðrar skemmtunar.

 

Guðný Guðmarsdóttir

Rallýkona í Borgarnesi

félagi í Bifreiðaíþr.klúbbi Reykjavíkur