Rally Palli - Woodpecker

4.9.2018

Síðustu dagar hafa verið ævintýralegir í alla staði. Að fá það tækifæri seint á lífsleiðinni að taka þátt í rallýkeppni erlendis er eitthvað sem ég átti ekki von á fyrir ári síðan eða svo. Og bara svo það komi fram enn og aftur, þá voru væntingar okkar um góðan árangur einungis að koma heilir í mark, klára keppni með sóma og hafa gleðina með í för. Og ef við næðum að vera í 50 sæti eða ofar, þá yrði það bónus.

Spennan var gífuleg hjá okkur Jóa síðustu mínúturnar fyrir ræsingu keppnarinnar. Undirbúningur var búinn að vera eins góður og hægt var. Fengum þó ekki að aka leiðarnar áður eins og þekkist hér heima, vorum samt búnir að búa til íslenska leiðarlýsingu eftir nótum sem keppnishaldari skaffaði. Við erum í raun einu aðilarnir í keppninni sem vorum að aka þessar leiðir í fyrsta sinn !

Bíllinn sem við leigðum var afar áræðanlegur, aðeins aflminni en sá sem við ókum hér heima helgina á undan. En með frábæran gírkassa, svokallaðan dog-box, ég þarf þá ekki að kúppla á milli gíra og að auki með launch-control sem hjálpar manni vel af stað á ráslínu. Og að sama skapi, eina áhöfnin sem hafði ekki ekið keppnisbílnum áður, ok ég veit, við erum ekki í lagi... 

Vorum í smá brasi í byrjun, vegalengdateljari bílsins virkaði ekki, hvorki þessi venjulegi sem við þekkjum svo vel í bílum okkar, né þessi rafræni sem er sérstaklega í rallýbílum staðsettur beint fyrir framan aðstoðarökumann. Ég heyri á rödd Jóa, að hann er ekki sáttur við að þessi græja sé ekki virk. Þetta getur komið okkur í vanda, ef virkilega reynir á að rata á milli sérleiðanna.

Fyrsta sérleið var 6 mílur að lengd og við staðráðnir að standa okkur vel, ekið var um Wigmore. Jói er í smá brasi með öryggisbeltin, er við ökum inn í tímavarðstöðina, þau eru aðeins of stutt stillt fyrir hann. Smá stress eins og gengur, en hann náði að smella þeim saman og þau rétt ná yfir Hans búnaðinn, sem er kragi sem heldur í hjálminn og spennist undir belti við axlir.

Bíllinn stekkur af stað, það er mikið grip áfram. Nótur virka vel fyrstu beygjur, bíllinn stýrir vel, svarar öllu því sem ég vill að hann geri fyrir mig. „100 hæð bein, 60 hægri 4-„ les Jói og ég bremsa hressilega eftir hæðina, en ekkert gerist.... það er eins og ég sé á ís ! Hvaða rugl er þetta, það er 25 stiga hiti, auður og þurr vegur, en engar bremsur. „Anskotans, djöfuls...“ segi ég og Jói heyrir... held að það sé í fyrsta sinn á okkar ferli saman er hann heyrir mig segja þessi orð inn í rallýbíl og áttar sig á því að við erum í brasi. Í gegnum huga minn fer sú setning sem ég hef svo oft sagt um rallýmenn, „að það sé svo auðvelt að vera fljótur á sérleiðum, alveg þangað til að maður fer út af“. Og ég er að falla í þessa gryfju.

Við þessar aðstæður er svo sem ekki mikið annað að gera, en að sleppa bremsunni, reka niður um einn eða tvo gíra og standann í beygjuna. Sem var gert. Sluppum með skrekkinn og vorum reyndar með hann alla leiðina. Eftir þessa uppákomu var ekið aðeins hægar, jú það er víst rétt að reyna að klára amk eina sérleið. Töpuðum miklum tíma, bíllinn á eftir tók af okkur 45 sec amk. Þeir aðilar komu svo til okkar og báðu kurteisislega um að fá að ræsa á undan okkur á næstu sérleið, sem var auðsótt.

Rallý er heiðursmannasport og menn gera allt til þess svo keppinautur tefjist ekki vegna hægfara bíls inn á sérleiðum. Þessir áhöfn endaði svo í 7 sæti í lok dags, gott að hafa ekki skemmt fyrir honum með því að vera hægur. Við vorum í 90 sæti eftir fyrstu sérleið. Úff, ekki byrjar það vel lagsmaður. Og allt okkar lið inn á þessari sérleið að horfa, vinir, eiginkonur og myndatökumaður RÚV.

Næsta sérleið var 3,27 mílur að lengd. Við náðum okkur ágætlega á strik, náum okkur aðeins betur í gang. Stutt og skemmileg leið og við hækkum okkur á listanum. Sólin komin hátt á loft og lofthiti um 25 gráður. Ryk er mikið og ekki lagast útsýnið út um framrúðuna vegna þessa.

Sérleið 3 er hin fræga Radnor sem er einnig notuð í heimsmeistarakeppninni og við Jói höfum nokkrum sinnum staðið þarna á vegkanti og séð bíla aka hjá. 10,81 mílur að lengd og skiptist í hvo hluta, sá fyrri alveg svakalega hraðir kaflar í skógi og sá seinni hægari og færri tré við veginn.

Við vorum glataðir á hröðu köflunum, það þarf bara heilmikinn kjark að aka í efsta gír í botni á svona þröngum vegi, tré á báðar hendur og oft sést ekki upp í himininn, svona svipað eins og að aka inn í bílskúrinn sinn á 180 km hraða, eða aka Súðavíkurhlíðina alla og að Hamarsgatið væri alla leið. En við vorum í miklu stuði seinnipart leiðarinnar, þröngar og krefjandi beygjurnar eru að mínu skapi.

Skrítið að segja það svona, en ég hef alltaf verið hægur á hröðum leiðum, en hraður á þröngum leiðum. Svo þetta kom svo sem ekkert á óvart. Gleymdum okkur smá í einni þrengingu og skutluðum einni heyrúllu út fyrir veg. Og árangur að skila sér, við búnir að vinna okkur upp um 30 sæti eða svo.

Við förum glaðir í serivishlé, bíllinn er algjörlega óskemmdur, fáum meira bensín, dekkjum víxlað fram og aftur og svo er bara full ferð aftur út í umferðina. Við áttum okkur á því að tíminn á ferjuleiðum er afar knappur, það má ekkert út af bregða til að menn komi seint inn á næstu tímavarðstöð, við megum td ekki við því að villast á þessum sveitavegum.

Sérleiðin um Heye Park var frábær, 8,7 mílur, þarna voru vegir og undirlag eins og við þekkjum hér heima. Við komum út af sérleiðinni með sólskinsbros og keppnishaldarar sáu að við vorum að ná fyrri vopnum okkar, nú eru víkingarnir að vakna, komnir í smá stuð. Vantar bara Víkingaklappið og allt væri fullkomið. Það er gaman að koma í mark á þessari sérleið, þarna voru allir teknir í viðtöl, míkrafónn og camera rekið inn í bílinn, bara rétt eins og maður sér td í heimsmeistaramótinu. Allt í beinni útsendingu.

Aftur er farið í serivis í bænum Ludlow og allir í nágrenni rallsins vita að það er rallý í gangi. Allt þessa helgi snýst um rallý, menn hugsa ekkert um hestaíþróttir eða póló, enda vorum við á svæði hestamanna með servis, startið og þh. Enda veitir ekki af, 150 áhafnir skráðar, allir með 1 eða 2 servis bíla, allir koma með bílana sína á kerrum, fjölskyldur vinir og aðrir áhangendur mæta á svæðið og það þarf mikið pláss og skipulag vegna þessa. Við Jói finnum þó ekki eiginkonur okkar né hinar íslensku stelpurnar, en fréttum af þeim í hvítvínsleiðangri í þorpinu. Veitingamaðurinn er sennnilega enn að fagna góðum bissness helgarinnar.

Sérleiðin um Wigmore ekin á ný, núna í hina áttina. Við höldum haus, drífum okkur út í umferðina til að finna næstu sérleið. Og þá vill ekki betur til en við villumst. Leiðabókin sagði okkur að aka til hægri eftir sérleiðina og aka þann veg 5 mílur og finna þar hringtorg og fara út strax á fystu gatnamótum til vinstri. Umrætt hringtorg fannst ekki, þrátt fyrir að hafa ekið mun lengra að mínu mati en 5 mílur. Við þessar aðstæður má ekki panekera.

Reynslan sagði okkur að stoppa og bíða í 2 mínútur, ef enginn rallýbíll kemur, þá erum við ekki á réttri leið. Við snúum við, brutum sennilega nokkur umferðalög við að finna réttu leiðina, en við höfðum ekki mikið til að styðjast við, vonuðumst bara eftir að sjá rallýbíl og svo myndum við elta hann. Og það gerðist, við mættum bíl eftir 10 mínútur eða svo og þá var eftir að súa við á ný. Og þegar við náðum því, þá var viðkomandi horfinn í burtu.

Við fundum svo gatnamót sem við vorum vissir um að væru réttu gatnamótin, en það var bæði hægt að aka til vinstri og hægri. Bókin sagði til vinsti, þeas við hringtorg sem ekki var þarna, en mér fannst ég sjá bíl aka ca km í burtu í hina áttina svo ég fékk að ráða þessu og sem betur fer var þetta rallýbíll sem hafði eitthvað tafist og því aðeins of seinn á ferðinni, okkur í hag.

Við náðum inn á tímavarðstöðina án mikillar refsingar, en búnir að missa nánast alla framúr okkur, enda ekki hægt að fara mikið framhjá bílum akkúrat þarna. Það breytti okkur engu, við sáum fyrir okkur tvær sérleiðar í viðbót, við skyldum amk klára rallið, töldum okkur heppna við þessar aðstæður að hreinlega detta ekki úr keppni. Slíkt hefur komið fyrir hjá nokkur kollekum okkar við sömu aðstæður erlendis hér í denn.

Við hittum marga rallýkappa sem sögðu okkur af kynnum sínum af íslenskum rallývegum og ökumönnum sem þeir hefðu kynnst. Einn sagðist muna eftir brjálæðing sem smíðaði bíl sinn sjálfur, en gat ekki með neinu móti munað nafn hans, en hann mundi að það byrjaði á Stein. Við vorum ekki lengi að finna það út að hann var að tala um Steingrím Ingason, hann mikla rallýkappa úr Þingeyjasýslunni. Menn sögðu okkur líka sögur af þeirra heimsóknum til íslands og vinum þeirra. Enn og aftur finnum við það hve fólk talar vel um landið okkar, menningu og gestristni. Það er ekki laust við að maður sé stoltur.

Síðustu tvær sérleiðirnar voru nánast á sama punkingum, við flaggaðir út af þeirri fyrri og beint inn á þá síðari. Ha... þetta höfum við aldrei séð áður, en eitt afar gott við þetta. Við villumst ekki á milli.

Við erum því afar kátir með að klára síðustu sérleiðina, við fáum fréttir af því að við séum í 55 sæti af 91 sem klára keppni. Jú, við erum bara grobbnir með það, fínn árangur að okkar mati. Margt hefði getað skemmt þetta ævintýri fyrir okkur, það er td ekkert grín að vera óvanur vinstri handarumferð. Maður þarf að hugsa allt margfallt og ekki er hægt að leyfa sér að slappa af í eina einustu secúntu vegna þessa. Þá er stutt í misstök og slysin. Og þarna erum við að tala um að aka í hefbundri umferð. Í raun var það erfiðara en að aka sérleiðarnar. Ekki má villast, ekki má aka á einhvern eða gera nein akstursmistök... Maður er jú ekki heima hjá sér, þekkir ekkki allar beygjur, vegi, sveitabæi og brýr.

Ég á frábæra vini og fjölskyldu sem styðja mig í einu og öllu, vilja allt fyrir mig gera, td voru 12 íslendingar á svæðinu í þeim eina tilgangi að fylgjast með okkur Jóa. Ég er þakklátur þeim fyrirtækjum og einstaklíngum sem studdu okkur fjárhagslega og síðustu tvær vikur segir mér það að maður á aldrei að gefast uppá draumum sínum.

Mig sem ökumann vantaði mikið uppá að geta haldið í heimamennina þarna úti og að sama skapi átti ég ekki mikinn sjens hér heima í hröðu ungu mennina hér heima, amk ekki á beinum og hröðum köflum. Þarf samt ekki að vera niðurlútur vegna þessa, þvert á móti er ég bara nokkuð grobbinn með mig og vin minn Jóhannes Jóhannesson sem hefur svo sannarlega gert mig að enn betri ökumanni en ég hefði annars orðið.

Ég hef alla tíð verið afar farsæll í akstri, bæði á keppnistækjum og í öðrum akstri, hef ekki meitt mig enn við þetta áhugamál mitt og starf, þrátt fyrir að hafa stundum telft á tæpasta vað.

Það var því afar skemmtilegt að koma í endamark, þar sem fólkið okkar Jóa beið okkar með tilheyrandi kampavínsbaði af bestu gerð. Eitthvað sem Bretarnir skildu ekki alveg, við vorum jú ekki að vinna keppnina, en um leið samfögnuðu þeir okkur, kunnu vel að meta einlægni okkar og þakklæti á þessum tímamótum. Íslenskir fánar sáust inn á sérleiðum, fólk heillaðist af okkur og gleði okkar allra. Rallý er fallegt og gott sport sem ég er stoltur af að geta sagt að hafa verið stór partur af mínu lífi.

Takk fyrir mig öll sömul.

-Páll Halldór Halldórsson