Ragnar Skúlason - Akstursíþróttakarl ársins 2017 - Viðtal

26.12.2017

Ragnar Skúlason er þekkt nafn í mótorsporti hér á landi. Hann hefur verið að keppa í mörg ár og á nokkra Íslandsmeistaratitla. Ragnar var valinn Akstursíþróttamaður ársins 2017 fyrir frábæran árangur í sumar. Þrátt fyrir að Ragnar hafi ekki keppt í torfæru í mörg ár þá náði hann þeim árangri að verða Íslandsmeistari í Götubílaflokki 2017.

Einnig hefur Ragnar verið aðaldriffjöðurin í GoKart undanfarin ár og varði Íslandsmeistaratitilinn í GoKart 2017.

Við fengum Ragnar til að segja okkur aðeins meira frá sjálfum sér og löngum ferli í fremstu röð í akstursíþróttum.

Segðu mér aðeins frá sjálfum þér og hvers vegna þú byrjaðir í akstursíþróttum?

Ég hef alltaf haft mikla jeppadellu. Átti fyrsta jeppann 16 ára, eignaðist Jeepster 17 ára og þá var ekki aftur snúið. Þegar ég var 25 ára eignaðist ég Galdragul og notaði sem fjallajeppa. Svo var það haustið 1990 að ég skellti í hann veltibúri og keppti síðustu keppni ársins í Jósepsdal og endaði í öðru sæti.

Ég varð alveg heillaður af þessu sporti og varð Íslandsmeistari 1992 og 1994 með fullt hús stiga. Ég keppti 1995 á Þór, sænskum bíl og svo var Galdragul breytt í sérútbúna flokkinn 1996 og keppti ég í þeim flokki til 2001.

Árið 2011 byrjaði ég að keyra gokart og varð Íslandsmeistari 2014 og aftur 2016 og 2017. Í ár fékk ég einnig torfæru bílinn Kölska lánaðann en mótorinn úr Galdragul er í honum og varð ég Íslandsmeistari 2017 á honum.

Hvaða munur er á torfæru í dag og þegar þú kepptir fyrst?

Munurinn í dag á torfærubílum og þegar ég byrja er aðallega fjöðrunar kerfi. Menn voru að nota gormafjöðrun og loftpúða. Samsláttar púðar tóku við þegar tækið fjaðraði alveg saman, en í dag eru notaðir vökva demparar sem eru með innbyggðum samslætti þannig að menn finna ekki mikið fyrir lendingum eftir stór stökk.

Einnig er komið mikið af góðum mótorum sem eru ekki að kosta mikið með innspítingum og mikið framboð af hásingaefni til að smíða eftir eigin hugmyndum í keppnisbílana.

Hvað er mikilvægast þegar smíða skal gott keppnistæki í torfæru og hvernig vinnur þú að markmiðunum?

Það er helst að velja gott kram út frá hvað hefur reynst best hjá mönnum og hugsa smíðina til enda varðandi þyngdar hlutföll og fjöðrun.

Ég myndi ráðleggja mönnum sem ætla að smíða bíl að leita ráða hjá keppendum og fá að skoða bílana hjá þeim. Menn hafa verið mjög hjálplegir að veita upplýsingar en ekki er búið að smíða hinn fullkomna bíl ennþá, þó svo Haraldur Pétursson hafi komist nálægt því!

Hvað er svona áhugavert við gokart?

Gokart er mjög skemmtileg íþrótt ódýrt sport og töluverð tækni við að stilla bílunum vel upp og svo þarf gott úthald. Það er ekki gott að segja alveg hvernig er best að stilla upp bíl en það fer eftir þyngd ökumanns dekkjum og hitastigi veðurs. Hægt er að færa til sæti, breikka og mjókka að framan og aftan ásamt því að hækka þá og lækka að framan og aftan.

Segðu mér aðeins frá aksturstækni þinni og áherslum í gokart. Hvað þarf til að ná árangri?

Ég byrjaði fyrsta árið á að keyra bara æfingar læra á brautina og bílinn. Ég var bara starfsmaður við fyrstu keppnir. Svo þegar hraðinn var orðinn góður, byrjaði ég að keppa.

Allt snýst þetta um að æfa sig prófa að breyta bílnum bara lítið í einu taka tímann og sjá hvort hann breytist, en þá þarf líka að vera orðinn stabíll og geta keyrt alltaf sömu línur í brautinni. Mikilvægt að hafa þetta skráð allt saman hjá sér. Gírhlutfall skiftir líka miklu máli og þarf að eiga svolítið af tannhjólum af ýmsum stærðum til.

Getur þú gefið þeim sem eru að byrja einhver góð ráð?

Fyrir byrjendur er mikilvægast að vera mjög duglegir að mæta á æfingar og sýna þolinmæði. Æfingin skapar meistarann!
Muna líka að fara vel yfir bílana milli æfinga, herða lausa bolta. Það þarf að líma alla bolta því bílarnir hristast svo mikið.

Kærar þakkir fyrir að gefa þér tíma til að spjalla við okkur. Gangi þér áfram sem best!