Rafbílarall haldið í annað skipti á Íslandi

10.8.2019

Dagana 23. og 24. ágúst 2019 heldur Kvartmíluklúbburinn og Akstursíþróttasamband Íslands, AKÍS, annað alþjóðlega rafbílarallýið sem fram fer hér á landi. Keppnin, sem studd er af Orku náttúrunnar, er áttunda af þrettán umferðunum í alþjóðlegu meistarakeppni FIA 2019 í nákvæmnisakstri rafbíla. Keppt er á óbreyttum rafbílum og getur hver sem er með ökuréttindi tekið þátt. Von er á fjórum erlendum keppendum hingað til lands.

Umhverfisvænar samgöngur

Markmið Alþjóða aksturssambandsins, FIA, með eRally er að kynna nýjustu tækni ökutækja sem ætlað er að spara orku sem gefa frá sér minnsta mögulega magn mengunar og koltvísýrings. Því er einnig ætlað að hvetja alla ökumenn til að breyta akstri með áherslu á umhverfisvernd og sjálfbærni bílaumferðar með því að nota rafmagn sem drifkraft ökutækja.

Hluti af þessu átaki FIA var að hleypa af stokkunum mótaröð undir heitinu FIA Electric and New Energy Championship til að leggja aukna áherslu á mikilvægi þessa.

 

Keppt í nákvæmnisakstri

Rafbílarallið er í tveimur hlutum og samtals eru eknir 6 leggir á tveimur dögum. eRallið hefst föstudaginn 23. ágúst, kl 07:00 þegar fyrstu keppendur verða ræstir frá höfuðstöðvum ON að Bæjarhálsi 1 og er fjölmiðlum boðið að fylgjast með. 

Rallýinu lýkur á sama stað en keppendur koma í mark laugardaginn 24. ágúst um kl. 16:00 og verður þá ljóst hver sigrar í keppninni.

eRally FIA er ekki kappakstur heldur nákvæmnisakstur. Alltaf er ekið innan löglegs hámarkshraða og gengur keppnin út á að aka fyrirfram ákveðna leið samkvæmt leiðabók og á hraða sem gefinn er upp í leiðabókinni. Á nokkrum stöðum á leiðinni eru mælistaðir, þar sem bíllinn þarf að vera staddur á réttri sekúndu, annars fá keppendur refsistig. Akstursleggirnir eru sex talsins og eru eknir á keppnisdögunum tveimur.

Fyrsta morguninn er að auki mæld eyðsla rafbílanna og hefur hún áhrif á lokaúrslit keppninnar.

Keppt er á almennum opnum vegum í hefðbundinni umferð. Valdar voru fallegar leiðir í nágrenni

Reykjavíkur, að mestu malbikaðar en einnig eru nokkrir malarvegir.

 

Leyfilegir bílar

Leyfileg keppnistæki eru skilgreind í reglum FIA Electric og New Energy Championship. Keppnin er

eingöngu ætluð óbreyttum bílum þar sem drifrás er með rafmagni, bílum sem eru með gilda skráningu fyrir almenna notkun á vegum, án nokkurs konar breytinga á bílnum. Þetta gerir keppendum mögulegt að nota eigin bíla sem þeir nota daglega. Frumgerðir bíla eru einnig leyfðar ef þær eru með gilt akstursleyfi innan ESB.

 

Hleðsla í keppni

Orka náttúrunnar er helsti styrktaraðili keppninnar. Fyrirtækið hefur sett upp á fjórða tug rafbílahlaða

hringinn í kringum landið og mun nú sjá um að keppendur geti hlaðið bíla sína meðan á rallýinu stendur.

Komið verður fyrir búnaði á vagni sem tengdur verður háspennukerfi á fyrirfram skilgreindum

hleðslustöðum við keppnisleiðirnar þannig að allir keppendur geta hlaðið í senn.

 

Taka þátt

AKÍS hvetur áhugafólk um rafbíla til að taka þátt í keppninni. Þar sem ekki er um hraðakstur heldur nákvæmnisakstur að ræða geta hverjir sem er tekið þátt á fjölskyldubílnum og haft gaman af. 

Skráning er á vef AKÍS:

http://skraning.akis.is/keppni/215

Myndir frá eRally 2018 keppninni:

 nni