Nýliðaflokkur í rally: Tilkynning frá keppnisráði

26.5.2016

Reglur i Nýliðaflokki kveða á um að viss auglýsingasvæði á bílnum séu ætluð mótshaldara.  Tilgangurinn með þessu var að reyna að "selja" flokkinn, líkt og Norðdekk flokkinn í den.  Af þessari sölu hefur ekki orðið og ljóst að tilgangslaust sé að halda þessu í ár.  Því verður ekki gerð krafa um að keppendur taki frá þessi auglýsingasvæði í keppnum þetta árið.

Einnig hefur komið upp athugasemd vegna reglna, og viðauka um fjöðrun.  Eitt mál er til skoðunar og hugsanlegt er að kvikað verði frá reglunni í formi undanþágu.  Þetta kallar á að viðaukinn verði endurskoðaður fyrir næsta ár og hvetjum við keppendur til að koma með hugmyndir sem laði fram sem hagkvæmastar lausnir í fjöðrun án þess að hægt sé að "kaupa sér forystu" með dýrum búnaði.

Keppnisgjöld Nýliða voru mikið rædd og liggur fyrir samþykki allra keppnishaldara nema RallyReykjavík (MMI).  Samt er búist við samþykki þaðan.  Það samþykki sem liggur fyrir er að Nýliði, hvort sem hann keppir í Nýliðaflokki eða í öðrum flokki, greiðir hálf keppnisgjöld og er undanþegin starfsmannakvöð.  Einungis ökumaður þarf að vera nýliði, ekki krafa um að aðstoðarökumaður sé það líka.

keppnisráð í ralli,
Óskar Sólmundarson
Þórður Bragason (sem þetta ritar)
Þórður Ingvason