Konurnar bak við myndavélarnar, Brynja Rut Borgarsdóttir

22.8.2017

Næsta kona bak við myndavélina heitir Brynja Rut Borgarsdóttir og er 25 ára Hornafjarðarmær. Er henni lýst sem frekar opinni, kátri og hressri stelpu sem óvart ruglaðist inn í torfæruna í gegnum „Team Snáðinn” sem einnig kemur frá Hornafirði. Var það í kringum 2012 en Brynju fannst alltaf eitthvað vanta í þátttöku sína þannig að hún tók upp á því að „gera gagn” með myndatökum eins og hún orðar það sjálf. Myndatökurnar eru aðallega henni sjálfri til gamans en fyrsta takan var árið 2013 í Skien í Noregi. Hefur Brynja myndað margar keppnir síðan, ekki einungis hér heima heldur hefur hún einnig farið þrisvar sinnum erlendis með keppnisliðum, til Skien 2013 og 2015 en einnig til Bandaríkjanna árið 2016.

Árið 2015 komst Brynja í kynni við „Team99” eða svokallað „Crashard-lið” Valdimars Sveinssonar og félaga, hefur hún fylgt þeim síðan. Í dag er liðið þekkt fyrir mjög virkt snapchat og mikið grín en auðvelt er að fylgjast með þeim undir nafninu „Crashhard99”.

Brynja elskar félagsskapinn og segir að í gegnum torfæruna hafi hún kynnst allskyns fólki sem auðvelt er að þykja mjög fljótt vænt um því fólk í torfærunni eigi það sameiginlegt að standa saman og hjálpast að ef eitthvað komi upp á. „Auk þess sé fátt betra en að hittast og skemmta sér saman, þvílíkar perlur sem leynast í þessum hópi” segir Brynja.

Myndir Brynju má finna inn á opinni facebook-síðu hennar facebook.com/brynja.borgarsdottir/photos_albums en þær hafa einnig verið á birtar á fjölmörgum plaggötum, á forsíðum á DVD disknum hjá Jakob Cecil Hafsteinssyni síðustu ár en einnig á ýmsum fréttamiðlum.