Akstursíþróttasamband Íslands (AKÍS) kynnti fyrir formanni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis þann 8. mars 2016 starfsemi sambandsins, aðstöðu akstursíþróttafélaga sem hafa byggt eða eru að byggja sínar keppnisbrautir og framtíðaráform í þeim efnum. Þá var og minnst á rally, en þar gegna þjóðvegir og sýsluvegir hlutverki sem ígildi íþróttamannvirkja.
Bent var á að sífellt fleiri vegir eru teknir af þjóðvegaskrá og settir í umsjón sveitarfélaga, en við það dregur yfirleitt mikið úr viðhald þeirra. Auk þessa væru margir þeirra þjóðvega sem notaðir eru í rally orðnir þjóðleið ferðamanna, en viðhald þeirra svipað og áður var. Með aukningu í ferðamennsku hefur þrengt að vali hentugra vega til rallykeppna. Keppnishaldarar hafa reynt að finna minna notaða vegi og hafa þá leitað til sveitarfélaga um afnot vega sem þau hafa á sínum snærum. Mýmörg dæmi má nefna um þetta, gamli vegurinn um Þverárfjall, gamli Ísólfsskálavegurinn, gamli vegurinn um Tröllháls, vegur austan Heklu og svo mætti lengi telja. Sumir þessara vega eru ekki mikið nýttir af öðrum en röllurum fyrir sína íþrótt og því viðhald þeirra ekki mikið en nauðsynlegt engu að síður.
AKÍS telur mikla þörf á því að þeir vegir (eða hluti þeirra) sem notaðir hafa verið til að keppa á í rally, bæði þjóð- og sveitavegir, verði skilgreindir sem íþróttavegir og að veitt verði sérstöku fé til viðhalds þeirra. Farið verði með úthlutun fjárins í samræmi við úthlutun Vegagerðarinnar vegna liðsins reiðvegir í Samgönguáætlun.
AKÍS hefur lagt til að á samgönguáætlun 2015-2019 verði veitt 10 milljónum króna árlega til nýs liðar, íþróttavegir.
Sjá frétt á RUV: http://www.ruv.is/frett/vill-tiu-milljonir-i-ithrottavegi-fyrir-rally