Ísorka eRally Iceland 2020

20.8.2020

Ísorka eRally Iceland er eins og áður hluti af meistaramóti FIA sem heitir formlega FIA Electric Regularity Rally Cup (ERRC). Jafnframt er keppt til Íslandsmeistara. Keppnin fer fram dagana 20. - 22. ágúst og eru eknir 703 km og þar af 407 km á sérleiðum.

eRally er nákvæmnisrally á rafmagnsbílum og eru eknar 21 sérleið og þurfa ökumenn að keyra allar leiðirnar á tilteknum hraða. Leiðarbókin sem keyrt er eftir er 284 bls. með upplýsingum og lýsingum fyrir leiðirnar.

Hannaður hefur verið nýr tímatöku- og staðsetningarbúnaður sem notast er við í keppninni og er tímamæling á u.þ.b. 150 tímastöðvum á sérleiðum. Nákvæmnin felst í því að keyra í gegnum þessar tímastöðvar á nákvæmlega réttum tíma en refsing er reiknuð fyrir frávik frá þeim tíma.

Í keppnina eru skráð sjö lið með fjölbreyttri flóru rafbíla: Peugeot e-208, Peugeot e-2008 , Renault Zoe 50, Nissan Leaf, Opel Corsa-E, VW eGolf og MG ZS EV.

Vegna ástandsins í heiminum hefur fjórum af níu keppnum verið aflýst og keppnin hérlendis verður fyrsta keppnin í mótaröðinni. Vegna umfangs og staðsetningar á eyju þá hefur keppnin þrefalt vægi stiga.

Keppnin er keyrð út frá Reykjavík, en nú verður hleðslustoppið á miðjum föstudegi tekið á Flúðum áður en haldið er til baka um Hruna, Sólheima, Búrfell og Hengil.

Keppt er í nákvæmnisakstri í venjulegri umferð og aldrei farið út fyrir löglegan hámarkshraða. Keppnin er ætluð rafmagnsbílum samkvæmt skilgreiningu FIA, þar sem drifrásin er með rafmagnsmótorum.

Allar frekari upplýsingar, leiðarlýsingu og sérreglur er að finna á http://www.erally.is