Íslendingar í nefndum FIA

21.12.2017

Ein af þeim leiðum sem AKÍS hefur til að efla samstarf um akstursíþróttir við önnur lönd er virk aðild Íslands að alþjóðasamtökum akstursfélaga, Federation Internationale de L'Automobile (FIA) ásamt norður Evrópusvæði alþjóðaakstursíþróttasambandsins (FIA North European Zone).

Á síðustu árum hefur AKÍS tekið virkari þátt í nefndastörfum FIA NEZ. Tengsl við nágrannalönd okkar hafa þannig verið efld ásamt því að unnið hefur verið að breytingum á regluverki á Íslandi þannig að það verði líkara því sem gerist hjá öðrum löndum á svæðinu. Sú vinna hefur heppnast vel, meðal annars með samstarfi um torfæru en unnið er að svipuðum markmiðum varðandi aðrar keppnisgreinar.

Í mörg ár hefur verið rætt um að AKÍS taki aukinn þátt í nefndarstörfum FIA með einhverjum hætti. Bæði gefur þetta Íslandi og íslenskum akstursíþróttum meiri sýnileika ásamt því að veita AKÍS innsýn og jafnvel áhrif á ákvarðanatöku hjá FIA.

Yfirleitt er það margra ára ferli að ná inn nefndarmanni í nefndir FIA, því margir eru um hituna. Sett var vinna í það nú í sumar og haust að komast að því í hvaða nefndum Ísland gæti átt fulltrúa.

Í samráði við stjórnendur átaksins Konur í akstursíþróttum var lagt til að Guðný Guðmarsdóttir yrði tilnefnd til setu í FIA Women in Motorsport Commission.

Jón Bjarni Jónsson er vel þekktur í spyrnuheiminum og tilnefndi AKÍS hann til setu í FIA Drag Racing Commission.

Það er afar ánægjulegt að segja frá því að á ársþingi FIA sem haldið var í París dagana 4. til 8. desember síðastliðinn, voru bæði Guðný og Jón Bjarni kjörin í þær nefndir sem þau voru tilnefnd í. Einnig var ákveðið að Ísland muni halda næsta FIA Women in Motorsport þing sem haldið verður árið 2020.

Stjórn AKÍS óskar þeim til hamingju með að vera fyrstu Íslendingar sem sitja sem aðalmenn í nefndum FIA. Vonandi verður þetta til þess að Ísland eignist fulltrúa í fleiri nefndum og starfshópum innan FIA.

 

Frekari upplýsingar um Íslendinga í nefndum FIA  

Guðný Jóna Guðmarsdóttir -  FIA Women in Motorsport Commission

Guðný hefur verið virk í akstursíþróttum á Íslandi frá 2009 og m.a. setið í stjórn Bílaklúbbs Skagafjarðar.  Þá hefur hún mikla reynslu sem tímavörður og undanfari auk þess að hafa starfað sem keppnisstjóri í rally. Einnig hefur hún keppt sem aðstoðarökumaður í rally.

Guðný hefur sannkallaða ástríðu fyrir akstursíþróttum og markmið hennar er að deila ástríðunni og auka almennan áhuga á íþróttinni.

Frá árinu 2011 hefur Guðný ljósmyndað akstursíþróttir og skrifað greinar. Birst hafa fjölmargar myndir og greinar eftir hana í helstu fjölmiðlum landsins bæði um rally og torfæru.

Á síðasta ári var á vegum AKÍS stofnað til átaksins “Konur í akstursíþróttum” og hefur Guðný verið leiðandi í því starfi hérlendis.

Jón Bjarni Jónsson - FIA Drag Racing Commission

Jón Bjarni hefur verið virkur í akstursíþróttum frá 2007. Hann hefur sinnt flestum hlutverkum í spyrnukeppnum, allt frá því að vera keppandi, yfir í skipulagningu og stjórnun keppna.

Jón Bjarni hefur setið í stjórn Kvartmíluklúbbsins frá 2009. Hann hefur setið í keppnisráði AKÍS í spyrnu frá 2013 og í stjórn AKÍS frá 2015. Á árinu 2016 tók hann svo sæti í FIA NEZ Racing Commission.

Á síðustu árum hefur seta í keppnisráðum AKÍS í drifti og hringakstri bæst við auk starfa sem keppnisstjóri og þulur.

Jón Bjarni hefur víkkað sjóndeildarhring sinn með fjölmörgum heimsóknum til Santa Pod spyrnubrautarinnar í Bretlandi og hefur þar kynnst þeim sem þar stjórna og hvernig keppnishaldi er háttað.

Jón Bjarni hefur því mikla reynslu af keppnisstjórn af mismunandi stærðum og gerðum. Hann er lunkinn að finna lausnir á þeim vandamálum sem skipuleggjendur og keppendur kljást við.

 

Full skipan í umræddar nefndir FIA

FIA Women in Motorsport Commission

M. Mouton (Frakkland), formaður

R. Nabulsi (Jórdanía), varaformaður

B. Avcioglu (Tyrkland)

H. Hemmes (Holland)

C. Möller (Danmörk)

G.J. Guðmarsdóttir (Ísland)

C. Jorda (Spánn)

M. Barbosa (Portúgal)

S. Williams (Bretland)

G. Theunis (Belgía)

S. Kottulinsky (Svíþjóð)

T. Lehmonen (Finnland)

M. Zubai (Ungverjaland)

A. Knyszewska (Pólland)

N. Freydina (Rússland)

K. Hamer (Ástralía)

V. O’Connor (USA)

K. Ihara (Japan)

A. Al Hamad (Saudi Arabía)

N. Sandhu (Indland)

F. Ecclestone (Brasilía)

S. Bellot (Spánn), fulltrúi kven starfsmanna

L. Gade (Bretland), fulltrú kven verkfræðinga

A. L. Rex, fulltrúi FIM

J. Puig, fulltúi bifreiðaframleiðenda frá SEAT

C. Williams (Bretland), fulltrúi keppnisliða

T. Calderon (Kólumbía) fulltrúi ökukvenna

H. Gallagher (Bretland), umsjón markaðsmála

C. Muller (Frakkland), fulltrúi brautarkeppna

J. Kleindschmidt (Þýskaland), fulltrúi rally

 

FIA Drag Racing Commission

L. Petterson (Svíþjóð), formaður

P. Evans (Bretland)

G. Roelofsen (Holland)

A. Tiknius (Litháen)

T. Seferian (Rússland)

V. Kabadzhov (Búlgaría)

A. Christiansen (Noregur)

T. Valja (Finnland)

Z. Kohari (Ungverjaland)

J.B. Jónsson (Ísland)

E. Semaan (Bahrain)

K. Al Dryaan (Saudi Arabía)

J. Balamurugan (Indland)

B. Stevens (Ástralía)

G. Macri (Venesúela)