Íslandsmeistarinn Ásta er flott fyrirmynd!

8.6.2017

 

Ásta Sigurðardóttir er íslandsmeistari, margir kalla hana „Drottningu akstursíþróttanna”. Íþróttin sem hún stundar svo meistaralega tekur ekkert tillit til kynferðis keppenda. Ásta hefur því hvorki forskot né líður hún fyrir að vera kona í sinni íþrótt, hún er margfaldur meistari í rallakstri. Þar er keppt á jafnréttisgrundvelli, því annar grundvöllur er ekki til í ralli. Það eru ekki sérstakar sekúndur fyrir stráka og aðrar sekúndur fyrir stelpur. Allir keppa við sömu klukku. Sá fljótasti vinnur – ef viðkomandi klárar.

Í keppnisreglum segir: „Í keppnisbifreið skulu ekki vera fleiri, og ekki færri, en tveir ökumenn”. Þessir tveir einstaklingar skipta með sér verkum, ökumaður ekur bifreiðinni, stjórnar gírstöng, bensíngjöf og bremsum. Aðstoðarökumaðurinn heldur á möppu sem inniheldur leiðarlýsingu skrifaða með sérstöku táknmáli, svokölluðum „nótum”. Hann þylur nóturnar í hljóðnema í hjálmi sínum sem tengdur er yfir í hjálm ökumannsins. Hljóðar þetta eitthvað á þessa leið: „hægri tveir skera yfir í halda vinstri yfir hæð tvöhundruð hæð beint grjót í kanti fimmtíu vinstri fjórir…..“. Þannig stýrir hann akstrinum, hversu hratt skal ekið, hvar skuli beygja eða hægja á en lesa þarf á hárréttum tíma, annars geta sekúndur tapast eða ökuferðin endað út í móa.

Ásta er einn af færustu aðstoðarökumönnum landsins í dag. Hún býr yfir mikilli reynslu en hlutverkið er ekki einskorðað við keppni á lokaðri sérleið. Fyrir keppni þarf að skrifa leiðarlýsinguna en milli sérleiða þarf að halda utan um tíma, mæta á réttan stað á réttri mínútu í ræsingu, passa upp á tímabókina og fleira. Allt þetta skiptir miklu málið þegar mikilvæg stig eru í húfi, skeiki sekúndum er tími tapaður og kannski íslandsmeistaratitillinn með.

Fáir íslendingar gera sér grein fyrir hve langt Ásta hefur náð í sinni íþrótt. Nú á laugardaginn kemur mun hún ásamt Daníel Sigurðsyni, bróður sínum, taka þátt í finnsku meistararalli ásamt 107 öðrum áhöfnum. Þau Daníel aka á Skoda Fabia S2000 en þau er númer 55 í rásröðinni.

Þetta er önnur keppni þeirra systkina á Skodanum öfluga í Finnlandi, sú fyrri var í mars síðastliðnum á klakaþöktum leiðum, þar sem þau náðu 33. sæti. Aðspurð um væntingarnar segir Ásta að „Það væri gaman að vera í topp 20“. Þeir sem Ástu þekkja vita hins vegar að þar sem þau Daníel eru saman er fyrsta markmið að hafa gaman, alltaf!

Hægt verður að fylgjast með keppninni hér: www.okautoralli.fi/html/in_english.html auk þess sem hér er hægt að sjá tíma: www.rallism.fi/content/fi/1/283330/L%C3%A4ht%C3%B6lista.html