Ísland Danmörk - Landskeppni í hermikappakstri!

25.1.2020

Í fyrsta skipti íþróttasögunnar á Ísland verður haldin landskeppni í rafíþróttum, þegar Ísland og Danmörk etja kappi saman í keppni í hermikappakstri, en þessi keppni er hluti af Reykjavik International Games.

Keppnin verður í beinni útsendingu á Twitch (twitch.tv/gtakademian) og einnig á stóra skjánum í Laugardalshöll - ekki missa af því!

Keppt verður eftir Reglubók FIA í sýndarheimum á Spa brautinni í Belgíu á GT3 bílum. Átta liðsmenn íslenska liðsins verða staðsettir í GT Akademíunni í Ármúla, í fullkominni aðstöðu sem þar er að finna.  Danska liðið situr í Danmörku, þannig að kolefnisfótspor þessa kappaaksturs er afar lítið. Keppendur tengjast allir saman í gegnum iRacing kerfið þannig að keppnin verður raunveruleg. Keppninni verður lýst af miklum krafti af þaulvönum og tunguliprum lýsendum á ensku. 

Dómnefnd verður starfandi, þar sem einn dómnefndarmaður kemur frá hvoru landi auk eins sem er hlutlaus og tengdur hvorugu landi.

Einnig verða æfingar hjá íslenska liðinu í beinni útsendingu á Twitch í dag 25. janúar frá því um klukkan 17:00.  

Um helgina verður hægt að koma í anddyri Laugardalshallarinnar og prófa hermikappakstur í svipuðum aksturshermum.