Helga Katrín Stefánsdóttir: finnst gaman fíflast

3.8.2018

Hvenær ætlarðu að hætta þessari vitleysu?

Helga Katrín Stefánsdóttir man vart eftir sér öðru vísi en í kring um akstursíþróttir. Foreldrar hennar og amma kepptu í rallýkrossi. Þegar Helga Katrín hætti að mæta með þeim á allar rallýkrosskeppnir tók torfæran við með kærastanum og fjölskyldu hans. Enn í dag bólar þó stundum á því viðhorfi, hjá þeim sem lítið þekkja til, að eðlilegra væri að fjölskyldukonur hefðu önnur og ,skynsamlegri“ áhugamál.

Hver er Helga Katrín Stefánsdóttir?
Ég er fædd 2. janúar 1988 og ólst upp í Hafnarfirði til 18 ára aldurs. Í dag bý ég í Kópavogi, er gift á tvö börn, 8 ára stelpu og 11 ára strák. Þó ég hafi ekki starfað sem slík er ég menntuð förðunarfræðingur og naglafræðingur. Um þessar mundir er ég hins vegar í bókhaldsnámi og enda vonandi með prófi í Viðurkennda bókaranum á næsta ári. Ég vinn sem skrifstofustjóri hjá SG bygg og finnst það bara frábært. Ótrúlega fjölhæft og skemmtilegt starf.

Hvenær byrjaðir þú að taka þátt í akstursíþróttum?
Árið 2007 kynnist ég manninum mínum á keppni á Akureyri. Faðir hans var þá að keppa þar, þannig ég flækist inn í keppnisliðið Tröllið. Pabbi minn var aðstoðarmaður í rallýcrossi, foreldrar mínir og amma keppti í RC.

Hvað varð til þess að þú fórst inn á þann vettvang og hvernig hefur gengið?
Já, ég kynntist manninum mínum í aksturíþróttum. Fjölskylda hans var á kafi í sportinu. Tengdaforeldrar mínir voru í stjórn Torfæruklúbbsins og ég fylgdi bara með. Þegar tengdapabbi hætti að keppa og þau hættu í stjórn langaði mig að halda áfram sem ég og gerði. Það hefur gegnið ágætlega en ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi. Það er ómetanlegt að geta leitað í reynslubolta eins og tengdaforelda mína og aðra keppendur.

Hvernig kom það til að þú situr í stjórn AKÍS?
Ég sat á ársþingi AKÍS fyrir hönd Torfæruklúbbsins og það voru kosningar. Það vantaði inn í varastjórn og ég bauð mig fram. Ég hef alltaf tekið áskorunum fangnandi og hef reynt að miðla minni reynslu. Ég reyni að leggja allt sem ég get til að byggja upp sportið.

Hver eru helstu verkefni þín á vettvangi AKÍS?
Ég hef verið inni í Torfæruráði sem er nefnd innan AKÍS. Þar hef ég verið að sinna allskonar verkefnum: Búið til reglur, hjálpað til við keppnishald, haldið námskeið og margt fleira.

Kannski er þetta bara smá stjórnsemi í mér að vera svona í öllu. Ég legg mig mikið fram við að aðstoða keppendur og keppnishaldara. Þeir vita að það er alltaf hægt að hringja í mig eða biðja mig um aðstoð, ef ég er upptekin reyni ég að leysa það með að vísa þeim áfram.

Hvernig undirbýrðu þig fyrir keppnir? Ertu hjátrúarfull, áttu lukkugripi eða þess háttar?
Góð keppni er gott skipulag með góðu fólki. Ég hlusta mikið á tónlist og sett vissan lagalista í gang til að koma mér í gírinn fyrir keppni. Mér finnst ekki gott að borða fyrir keppnir, geri lítið af því. Ég rúlla oftast yfir reglur fyrir keppnir þó ég eigi að þekkja þær vel og hef þær alltaf meðferðis á keppnisstað.

Hverjir eru þínir helstu styrkleikar sem akstursíþróttamaður? Í hverju ertu best?
Ég er mjög mikill dúer. Ef fyrir liggur verkefni fer ég í málið, er ekki að hika við það. Ég held utanum að hlutirnir séu gerðir á réttum tíma í réttri röð og skipulegg hlutina mjög mikið.

Hvað finnst þér erfiðast? Í hverju felast mestu áskoranirnar fyrir þig persónulega?
Ég hef mikinn metnað fyrir því að gera vel og geri mjög miklar kröfur til sjálfrar mín. Það er áskorun að standa undir eigin væntingum og annarra. Erfiðast finnst mér sennilega að tala fyrir framan hóp af fólki.

Hvað finnst þér skemmtilegast / leiðinlegast að gera sem snýr að sportinu?
Leiðinlegast er að þræta við keppendur og lið þeirra. Af og til koma auðvitað upp mál þar sem skoðanir eru skiptar og getur verið leitt ef fólk er mjög ósammála. Skemmtilegast er að sjá hlutina ganga upp ekki síst þegar búið er að leggja allt í það að hlutirnir gangi sem best.

Hefurðu einhvern tímann orðið hrædd í tengslum við mótorsportið?
Já, ég fæ oft í magann ef það eru stórar veltur eða slys. Ég skoða ítarlega hvað fór úrskeiðis hvernig hlutirnir voru og hvað er hægt að gera til að svona gerist ekki aftur. Mér finnst líka nauðsynlegt að punkta mikið hjá mér og bý nánst til skýrslu fyrir mig til að geta rifjað upp þegar ég þarf.

Ertu bílhrædd?
Ó, JÁ mjög svo! Alltaf best að ég keyri.

Hefur eitthvað komið þér á óvart í sportinu eftir að þú fórst að taka þátt?
Já, það að mótorsportið er í raun ein stór fjölskylda. Keppendur eru að keppa við hvorn annan en samt ef eitthvað bilar þá eru þeir tilbúnir að lána eða hjálpa hinum keppandanum að gera við og komast aftur í braut. Ég man eftir keppni þar sem keppandi lenti í bilunum en fékk lánaða varahluti frá fimm keppendum til að geta klárað. Innan sportsins myndast oft dýrmæt vináttutengsl og utan keppnistímabilsins hittast liðin í skúrnum, fólk fer saman í ferðir á veturna, já, og reyndar á sumrin líka. Svo eru menn að hittast í smærri hópum, t.d. eftir landshlutum.

Hvernig finnst þér viðhorfið almennt vera hjá fólki til mótorsports og til þeirra sem það stunda?
Áhugi hjá almenningi er að aukast jafnt og þétt. Keppendur eru duglegri að kynna sportið og þannig fæst meiri umfjöllun sem er jákvætt. Ég held samt að margir þekki akstursíþróttir ekki vel og haldi að þær séu almennt mjög hættulegar og það séu bara ákveðnar manngerðir sem stundi sportið. Þeir sem þekkja mig minna eiga alveg til að spyrja mig hvenær ég ætli að hætta þessari vitleysu? Sennilega passa ég ekki inn í þessa staðalímynd sem einhverjir hafa af akstursíþróttafólki.

Hvað er það skrautlegasta sem þú hefur lent í, í tengslum við sportið, í keppni og þ.h.?
Þegar við vorum að græja svæðið uppá Akranesi og við þurftum að flytja gröfu uppeftir. Sá sem var að flytja gröfuna rakst í göngin á leiðinni. Þegar við vorum komin uppá svæði bilaði allt sem gat bilað í gröfunni. Þegar eitt var lagað að bilaði alltaf eitthvað nýtt og koll af kolli.

Ég er nú ekki beint góð í að laga gröfur þannig að ég sofnaði í laut á meðan á stífustu viðgerðunum stóð. Strákarnir leyfðu mér bara að sofa góðan fegrunarblund. Þegar ég vaknaði spurði ég af hverju þeir hefðu ekki vakið mig. Hmm… þá fékk ég svarið ,,Æ, þú verður svo skapmikil ef þú ert ósofin“.

FIA – Alþjóðaakstursíþróttasambandið er nú með sérstakt verkefni í gangi sem miðar að því að kynna og auka hlut kvenna í akstursíþróttum. Hvernig hefur þín upplifun verið í akstursíþróttum á Íslandi? Finnst þér konur eiga með einhverjum hætti erfiðara uppdráttar í sportinu? Eru einhverjar sérstakar hindranir og ef svo er hvernig mætti vinna á þeim?
Við konur erum mjög fáar í þessu sporti miðað við strákana. Það hefur verið að aukast jafnt og þétt að konur hafa verið að vinna á keppni eða í kringum liðin. Því miður hafa verið of fáar konur sem hafa keppt. Mér finnst mest þörf á að því að  hugarfarið breytist. Stundum fæ ég að heyra að ég geti ekki gert hlutina vegna þess að ég sé kona. Þegar ég heyri svona þá tvíeflist ég og verð bara enn ákveðnari í að standa mig vel og sýna þeim í tvo heimana.

Áttu einhver ráð fyrir fólk sem hefur áhuga á mótorsporti en hefur ekki enn slegist í hópinn, og þá ekki síst verðandi akstursíþróttakonur?
Koma á staðinn og vera með. Endilega vera ófeimin, allir eru velkomnir.

Sturluð staðreynd - Hvað er það sem íslenska rallýfjölskyldan vildi vita en veit ekki um
Helgu Katrínu?
Er ótúlega mikill púki finnst gaman fíflast.

Áttu önnur áhugamál en mótorsport? Hver þá? Hefur þú keppt í fleiri íþróttagreinum?
Ég elska að elda mat og bjóða skemmtilegu fólki í mat. Það mælist yfirleitt vel fyrir. Ég keppti í sundi alla mína barnæsku, enn í dag finnst mér frábært að komast í sund og hreyfingu og held að sund sé frábær leið til að byggja upp góða heilsu. Þegar ég hætti að keppa aðstoðaði ég við sundþjálfun 4-6 ára barna í nokkur ár.

Hvað er framundan hjá þér og þínum?
Við erum nýbúin að halda stærstu keppni sem klúbburinn hefur tekið sér fyrir hendur og var um miðjan júlí. Nú erum við búin að vinna fyrir því að fara í smá frí og förum út í sólina á næstu dögum. Börnin mín hafa verið að telja niður dagana þar til að mamma kæmist í frí.

Eitthvað að lokum?
Hlakka til að sjá mótorsport á ennþá hærra plani. Mig langar að senda öllum sem vinna að akstursíþróttum hvatningar- og baráttukveðjur. Áfram íslenskt mótorsport!