Heimildavinna um íslenskar akstursíþróttir

11.1.2021

Helga Katrín Stefánsdóttir, formaður AKÍS hefur nú undirritað samning við Braga Þórðarson vegna heimildavinnu um íslenskar akstursíþróttir.

Á heimasíðu AKÍS er einungis hægt að finna úrslit Íslandsmótsins í þeim greinum sem keppt er í frá árinu 2012 til dagsins í dag.  Bragi hefur áhuga á að bæta úr þessu og búa til gagnabanka með nákvæmum úrslitum allra akstursíþróttaviðburða á fjórum hjólum sem haldnir hafa verið hér á landi.

Verkið mun fyrst og fremst snúast um að finna heimildir og koma úrslitum saman í tölvutækt form. Bragi mun byrja á að finna allar blaðagreinar um torfæru, rallý, rallýcross, ísakstur, sparakstur, kvartmílu, sandspyrnu, go-kart, drift, götuspyrnu, auto-x, drift og fleira. Þetta er allt til og aðgengilegt inn á timarit.is. Þegar því er lokið fer hann svo yfir það sjónvarpsefni sem gert hefur verið um þessar keppnir, eitthvað sem hann á að mestu til vegna heimildarvinnu sem hann gerði fyrir önnur verkefni.

Þegar því er lokið þarf að grafa dýpra og reyna að finna úrslit sem gætu enn verið til á pappírum. Vitað er um nokkra aðila sem geta hjálpað þar og mun hann grafa lengra þegar það þarf.

Þegar þessari vinnu er lokið munu liggja fyrir nokkur Excel skjöl (eitt skjal fyrir hverja grein) með ítarlegum úrslitum allra keppna. Með ítarlegum úrslitum er átt við að t.d. Í torfærunni mun sjást stigafjöldi allra keppenda í öllum brautum, í kvartmílu tími í öllum ferðum, í ralli tími á öllum sérleiðum.

Upp úr þessum Excel skjölum er hugmyndin að búa til aðgengilegan gagnagrunn þar sem hægt væri að leita til dæmis að keppanda og sjá öll úrslit hans í öllum greinum. Eða leita að félagi og sjá úrslit allra keppna sem það félag hefur haldið og svo framvegis. Þá væri AKÍS komið með sambærilega öflugan gagnabanka og til dæmis KSÍ, HSÍ og KKÍ.

Eftir alla þessa vinnu munum við vonandi sitja uppi með allar heimildirnar, þ.e. vistaðar blaðagreinar á pdf formi, ljósmyndir af úrslitum, myndbönd og fleira. Þessum gögnum mun Bragi skila til AKÍS rétt eins og Excel skjölunum en má segja að þessi gögn, þá sérstaklega blaðagreinarnar eru stærri fjársjóður. Því þarna erum við komin með sögu allra keppna, hvernig þær fóru, hvað kom uppá og fleira. Uppúr þessum gögnum væri hægt að skrifa samantekt um keppnirnar til dæmis inná Wikipedia, eða beint inn í gagnabankann með úrslitunum. Bragi hefur einnig verið í sambandi við ewrc-results.com og væri hægt að koma úrslitum úr öllum rallkeppnum þangað inn að auki.

Bragi áætlar að alls hafi farið fram hér á landi um 800 akstursíþróttakeppnir á fjórum hjólum að árinu 2012.  Gert er ráð fyrir að verkið taki að minnsta kosti eitt ár, þó það verði sennilega nær tveimur til þremur árum.