Hamingjurallý á Hólmavík

30.6.2020

Þann 27. júní fór fram önnur umferð í íslandsmeistaramótinu í Rallý , keppnin var á vegum BÍKR og var hún haldin á Hólmavík.

Tólf áhafnir voru skráðar til leiks í Hamingjurallý á Hólmavík. Ekið var um Þorskafjarðarheiði , Eyrarfjall og Vatnsfjarðarnes.

Af 12 áhöfnum sem voru skráðar voru það aðeins 10 sem skiluðu sér í endamarkið. Þeir sem féllu úr keppni voru meðal annars þeir Almar Viktor Þórólfsson og Magnús Ragnarsson, þeir hættu keppni þar sem afl bílsins ákvað að kveðja bifreiðina. Sigurður Bragi Guðmundsson og Björgvin Benediktsson féllu líka úr keppni og var það vegna hita vandamála.

Daníel Sigurðarson og Erika Eva Arnarsdóttir tóku þessa keppni með trompi og mætti segja að þau hafi flogið yfir leiðarnar eins og ekkert sé. Sjö sérleiðar voru eknar og tóku þau besta tímann á þeim öllum, enda klassa ökumenn á rosalegri bifreið. Getum staðfest það hér og nú að stærðin skiptir ekki máli ;-).

Gunnar Karl Jóhannesson og Ísak Guðjónsson enduðu í 2. sæti og urðu tæpum þremur mínútum á eftir Daníel og Eriku. Gunnar og Ísak voru að keyra hratt og örugglega en voru í frekar mikilli baráttu við Baldur og Heimir. Baldur Arnar Hlöðversson og Heimir Snær Jónsson sættu sig þó við 3. sætið en aðeins 27 sekúndum á eftir Gunnari og Ísak.

Baráttan í AB Varahlutaflokknum var auðvitað á sínum stað en þeir Ívar Örn Smárason og Einar Hermannsson enduðu í 1. sæti með 51 sekúndna forskot á þá Jósef Heimi Guðbjörnsson og Sævar Sigtryggsson. Kristján Pálsson og Egill Andri Tryggvason fylgdu svo á eftir en tæpum 9 mínútum á eftir Jósef og Sævari.

AB Varahlutir veittu verðlaun fyrir besta tímann á ofurleiðinni eða svokallaðari AB Varahluta-leiðinni, bæði í heildinni og C-flokk (AB-Varahlutaflokk).

Yfir heildina voru það Daníel og Erika Eva sem fóru hraðast yfir en í C-flokk (AB-Varahlutaflokk) voru það Jósef og Sævar sem tóku besta tímann.

Heildartíma og úrslit má sjá inná www.datalink.is.

Þriðja umferð í íslandsmótinu verður svo haldin þann 25. júlí n.k. hægt verður að fylgjast með því inná www.bikr.is.

Keppnisstjórn BÍKR vill þakka starfsfólki kærlega fyrir alla hjálpina og vonast til að sjá alla aftur í næstu keppni.