FIA ráðstefna og NEZ nefndafundir 2016

14.11.2016

Svæðisráðstefna alþjóðlega akstursþróttasambandsins (FIA Sport Regional Congress Europe NEZ) var haldin í Osló dagana 28.-29. október 2016. Á sama stað voru einnig haldnir nefndafundir í einstökum greinum akstursíþrótta undir hatti FIA North European Zone (NEZ).

family

Ísland átti nú fulltrúa í öllum NEZ nefndum sem funduðu. Ísland er svolítið langt frá öðrum aðildarlöndum NEZ og því erfiðara en ella að halda keppni í NEZ móti hérlendis með erlendum keppendum. Á sama hátt er erfitt fyrir íslenska keppendur að fara utan með keppnistæki sín. Aðstaða til keppni í akstursíþróttum er betri í öðrum NEZ löndum en mikil uppbygging er þó í gangi þessi árin hérlendis.

iceland-delegation

Á FIA ráðstefnunni voru kynnt málefni sem eru ofarlega á baugi í akstursíþróttum á heimsvísu og í Norður-Evrópu:

  • Akstursíþróttir í sýndarheimum - sýndar lifandi myndir frá tölvuleik sem unninn er í samvinnu FIA og Sony/Polyphony og kemur á markað á næsta ári. Gran Turismo er með ótrúlega sannfærandi grafík og nánast eins og að sitja í kappakstursbíl þegar setið er í tilheyrandi tjakkstólum með stóran skjá eða sýndarveruleikagleraugu fyrir framan sig ásamt stýri og fótstigum. FIA er að setja upp mótaröð sem gefur bestu ökumönnunum möguleika á að keppa á alvöru keppnisbílum og eru miklar vonir bundnar við að þetta auki áhuga og nýliðun í akstursíþróttum.
  • Konur í akstursíþróttum - Kynntar sláandi tölur um fjölda kvenkyns iðkenda sem eru eingöngu um 4% keppenda á heimsvísu, svipað og hér á landi. FIA leggur sérstaka áherslu á fjölgun kvenna á öllum sviðum akstursíþrótta. Allt frá keppendum til æðstu stjórnenda og fyrr í mánuðinum var FIA með sérstaka Women in Motorsport ráðstefnu þar sem Katrín María Andrésdóttir sat sem fulltrúi Íslands.
  • Öryggismál - Rætt um öryggisbúnað keppenda: hjálm, galla, hanska, skó og undirföt sem allt þarf að vera eldhelt og samkvæmt FIA stöðlum. Frontal Head Restraint (HANS/Hybrid) búnaður verður skylda í öllum FIA keppnum frá og með næstu áramótum og á Íslandi frá 1. janúar 2018. Ýmsar áhugaverðar kynningar voru um öryggismál. Þar má til dæmis nefna að finnskir björgunarliðar sögðu frá bestu aðferðum við að nota glussaklippur til að opna bílflök og sérstaklega keppnistæki með öryggisbúrum.

stoker

Mjög áhugavert var að taka þátt í ráðstefnunni þar sem farið var vítt yfir sviðið og fræðst um öryggismál og alþjóðlegt keppnishald. Auk þess var sérlega verðmætt að kynnast kollegum okkar frá nágrannalöndum okkar og víðsvegar annarsstaðar að úr heiminum.

---
Akstursíþróttasamband Íslands (AKÍS) er æðsti aðili akstursíþrótta á Íslandi.
Tilgangur sambandsins er að hafa yfirstjórn á málefnum akstursíþrótta á Íslandi og koma á sem víðtækustum samtökum akstursíþróttamanna og annarra félaga eða klúbba sem láta sig varða ökutæki, akstur og umferð, gæta hagsmuna þeirra og bæta aðstöðu þeirra til að ná markmiðum sínum.
AKÍS er sérsamband innan vébanda Íþrótta­ og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) ásamt því að vera fulltrúi Íslands í íþróttahluta alþjóðlega akstursíþróttasambandsins (FIA). Sem fullgildur aðili að FIA hefur AKÍS lagt mikla áherslu á öflugt alþjóðlegt samstarf og sérstaklega með samvinnu innan FIA/NEZ sem eru akstursíþróttasambönd innan svæðis Norður Evrópu.

Federation Internationale de L'Automobile (FIA) er alþjóðlega viðurkennt sem sá aðili sem fer fyrir akstursíþróttum í heiminum og er nú hluti af alþjóða ólympíusambandinu (IOCC). FIA vinnur að hagsmunamálum keppenda, öryggi í akstursíþróttum ásamt umferðaröryggi almennt. Það skiptist í tvö meginsvið: akstursíþróttir og hagsmuni bifreiðaeigenda.