,,Ég er svakalega tapsár“ - Ásta Sigurðardóttir

27.6.2018

strunsaði út úr jólaboði hjá afa og ömmu eftir tap í Trivial

Hamingjurall á Hólmavík fer fram um næstu helgi, laugardaginn 30. júní.

Keppnin er í umsjá Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur (BÍKR). Ásta Sigurðardóttir akstursíþróttakona situr í keppnisstjórn og stjórn BÍKR. Ásta var að útskrifast á dögunum sem búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og hún og Kristján unnusti hennar eiga von á sínu fyrsta barni í september nk. Óhætt er því að segja að í mörgu sé að snúast. Ásta gaf sér þó stund til að líta upp úr undirbúningi og svara nokkrum spurningum.

Hver er Ásta Sigurðardóttir?

Ég er fædd í október 1989 og alin upp í Mosfellsbænum í miklu tónlistarumhverfi. Báðir foreldrar mínir spila á hljóðfæri, hafa m.a. starfað með Sinfóníuhljómsveit Íslands og að ótal öðrum tónlistarverkefnum og viðburðum. Þó ég hafi gert tilraunir með að spila á fiðlu, píanó og blásturshljóðfæri hefur líklega komið í ljós að ég er betri í að lesa annars konar nótur.
Ég er eina stelpan í fjögurra systkina hópi og prinsessa eftir því. Það er líklega ástæðan fyrir því að ég er óttalegur gaur á margan hátt.

Hvenær byrjaðir þú að taka þátt í akstursíþróttum?
Settist í fyrsta skiptið upp í rallýbíl í keppni árið 2006 með Daníel bróður mínum og þá varð ekki aftur
snúið.

Hvað varð til þess að þú fórst inn á þann vettvang og hvernig hefur gengið?

Danni bróðir hafði keppt í ralli í mörg ár. Við höfum alltaf verið miklir vinir og verjum miklum tíma saman. Einn góðan veðurdag kom hann með galla, kóaratösku og gamla vidjóspólu með incari handa mér og skömmu seinna fórum við af stað í fyrstu keppnina okkar.
Við urðum Íslandsmeistarar 2006, 2007 og 2016 auk þess sem við höfum keppt langflest árin eitthvað saman síðan 2006 bæði hérlendis og erlendis og ýmis verðlaunin komið í hillurnar í gegnum tíðina. Í tvígang hef ég verið valin akstursíþróttakona ársins og þykir vænt um þann titil – þannig að já án nokkurs vafa hefur í heildina gengið afar vel.

Hvað þarf til að ná árangri ?

Áhuga og elju. Enginn getur orðið góður í einhverju sem hann hefur ekki áhuga á og finnst ekki skemmtilegt. Með því að setja allan hugann í það sem maður er að gera, verja tíma í verkefnið og gera það af öllu hjarta – þannig næst árangur.

Þarf sérstakar manngerðir til að taka þátt í og/eða ná árangri í mótorsporti?

Haha – maður hefur nú heldur betur kynnst ótrúlegasta fólki í þessu sporti. Þetta sport hentar alls ekki öllum enda tekur það mikinn tíma en allir ættu að geta tekið þátt sem hafa áhuga og finnst gaman. Margir hafa komið til leiks sem hafa mikla hæfileika, geta keyrt hratt en skortir agann til að klára dæmið og huga að öllu sem þarf að ganga upp svo árangurinn skili sér í hús. Það er nefnilega ekki nóg að vera flinkur að keyra rosalega hratt heldur þarftu að geta hlustað og meðtekið það sem sagt er við þig – án þess verður aldrei árangur.
Að ná árangri er nefnilega allt annar handleggur í rauninni því það eru örugglega ekki margar íþróttir sem krefjast jafn mikillar einbeitingar og samvinnu – og vissulega þarftu að vera hugaður.

Hvernig skiptið þið verkum í rallýliðinu ykkar? Hver gerir hvað?

Ég mundi nú segja að við séum mjög falleg heild sem hjálpast að. Kjarninn í okkar samstarfi er vinátta og traust.
Danni vinnur yfirleitt myrkranna á milli og þá reynir maður allt hvað maður getur að græja og gera – skipuleggja service, kaupa bensín, græja nesti og jafnvel laga bílinn (Ég var kannski ekki vinsælasta kona bæjarins þegar ég skipti um stýrisenda í bílnum okkar sem varð til þess að hann þurfti nýja hjólastillingu, en hey, ég gerði það samt!)

Hvernig undirbýrðu þig fyrir keppnir?

Ég reyni að hreinsa fæðuna mína af sykri en mér finnst það skipta ótrúlega miklu máli þegar kemur að einbeitingu og hún er jú það sem skiptir mestu máli í þessu sporti. Áfengi er heldur ekki í boði vikurnar fyrir keppni. Ég þarf að koma okkur á milli sérleiða, passa hverja mínútu á klukkunni og svo auðvitað koma ökumanninum mínum sem allra hraðast á milli A og B inná sérleið.
Við búum til nótur – eða yfirförum þær sem við eigum og hreinskrifum svo upp ef nauðsyn er. Lita svo í mismunandi litum eftir því hvort um kennileiti, hættur eða annað er að ræða, en þetta finnst mér skipta miklu máli þegar verið er að lesa í bíl á 100-200 km hraða. Ef til er incar af leiðunum sem á að keyra þá fer ég vel yfir það ásamt nótunum mínum og bæti inní litlum hlutum fyrir mig sem skipt geta máli upp á takt og tímasetningar í lestrinum.

Hverjir eru þínir helstu styrkleikar sem akstursíþróttamaður? Í hverju ertu best?

Þó ég telji mig nú ekkert sérstaklega skipulagða almennt í lífinu þá held ég að skipulag sé minn styrkleiki í ralli. Það gengur allt svo miklu betur ef allt er í röð og reglu. Ég er líka mjög einbeitt og viljasterk ef ég ætla mér eitthvað – held vel focus.

Hvað finnst þér erfiðast? Í hverju felast mestu áskoranirnar fyrir þig persónulega?

Eitt það erfiðasta sem ég hef gert var að keppa á finnskri grundu í fyrra þar sem tungumálið gerði mér lífið ansi leitt og mjög erfitt að reyna að bera nokkuð fram á skiltunum. Það var hinsvegar fljótt að venjast og góður „trip“ búnaður í bílnum bjargaði mér ásamt dásamlegum Finnum sem vildu allt fyrir mig gera, þó ég skildi oft ekki orð af því sem þeir sögðu. Annars, þó mér líði nú nánast alltaf vel í bíl, þá á svona 180 km/h (og plús) á malarvegi, þá óneitanlega fer mér að líða verr, ekki síst þegar Danni slær núll af í hröðum beygjum og við erum farin að koma meira á hlið en bein útúr beygjum á rosalegum hraða – þá fer ég að halda mér í sætið með annarri í beygjunum og gretta mig.

Hvað finnst þér skemmtilegast / leiðilegast að gera sem snýr að sportinu?

Ég er alveg óskaplega lítill aðdáandi leiðarskoðunar, eins nauðsynlegar góðar nótur nú eru, þá get ég ekki sagt að mér finnist gaman að sitja í bíl og skrifa í kannski tíu – tólf klukkustundir. Allra síst á íslenskum groddavegum þar sem maður skoppar um allan tímann. Stundum hef ég á tilfinningunni að nýrun hafi færst til, já og reyndar fleira. Þetta verður til þess að ég þarf að hreinskrifa hvern staf þegar heim er komið sem er margra klukkutíma vinna fyrir heila keppni og kemur niður á svefni og öðrum undirbúningi.
Það er einstök tilfinning sem fylgir því þegar við erum inni á sérleið og allt smellur – við náum upp takti og skilum okkur áfram á topphraða, allt gengur upp. Það er engu líkt. Það er lífið!

Hefurðu einhvern tímann orðið hrædd í tengslum við mótorsportið?

Já það hefur alveg komið fyrir en sem betur fer ekki oft. Stærsti óttinn er að kvikni í bílnum. Það hefur einu sinni komið fyrir, þá lak hjá okkur stýrismaskína yfir á túrbínuna sem er náttúrulega fleiri hundruð gráður og allt í einu var orðið svakalega heitt inni í bíl. Í stuttu máli þá endaði ég út úr bílnum löngu áður en við vorum stopp, ennþá tengd við intercomið í bílnum. Það er líka alltaf frekar scary tilfinning að geta lent í vatni og bara almennt að komast ekki út þegar það er nauðsynlegt. Sem betur fer eru svo sem ekki miklar líkur á því að það gerist.

Ertu bílhrædd?

Nei, það mundi ég aldrei segja en hinsvegar fær enginn að keyra með mig eins og Danni. Þar ríkir bara meira traust.

Ertu tapsár? Ef svo er, áttu kannski eins og eina sögu af því sérstaklega?

Já, svakalega. Það hefur nú sem betur fer lagast með árunum. Hins vegar en til eru sögur af mér þar sem ég labbaði út úr jólaboði hjá ömmu og afa í gamla í daga … eftir trivial.
Svo eru orðin 11 ár síðan svo maður getur sagt svona sögur núna, en árið 2007 kepptum við systkinin fyrir norðan og unnum þar hverja sérleið með miklum mun þangað til kom að tveimur innanbæjarleiðum. Nema hvað við ætluðum að gleðja áhorfendur full mikið, spólum af stað og brjótum hjá okkur stykki í rifrásinni sem varð til þess að við rétt kláruðum þá ferð og gátum ekki ræst inn á síðustu leiðina fyrir eigin vélarafli. Ýttum bílnum í gegn. Sú leið var gestakóaraleið og gerðum við ekki ráð fyrir að hún gilti í rallinu þar sem áhöfnin væri ekki öll í bílnum. Svo var þó ekki og við dæmd úr keppni. Þann dag grenjaði ég úr pjúra sorg yfir tapinu. Til að bæta gráu ofan á svart höfðum við valið að sleppa keppni í Bretlandi fyrir þessa keppni svo súrleikinn var alger.

Hvernig upplifir þú að vera fyrirmynd annarra akstursíþróttamanna ekki síst kvenna?

Ég finn reyndar ekki mikið fyrir því og er ekki sérlega upptekin af því hlutverki.
Mér finnst samt ótrúlega gaman þegar leitað er til mín enda hef ég stóran reynslubanka og get aðstoðað með ótal margt hvað kóarastarfið varðar. Ég er öll af vilja gerð að rétta hjálparhönd. Óþarfi að finna upp hjólið og ef við getum gefið góð ráð er það velkomið.

Hvað er það skrautlegasta sem þú hefur lent í, í tengslum við sportið, í keppni og þ.h.?

Hér kemur auðvitað ótal margt upp í hugann.
Fræg mynd er til af okkur systkinum á Lyngdalsheiði þar sem við fórum gjörsamlega upp á tvö hjól á miklum hraða og mér leið eins og ég gæti komið við jörðina í hallanum, eitthvað sem aldrei gleymist. Annars höfum við haft einstakt lag á því að skemma bílinn okkar mikið og/eða tapa miklum tíma á fyrsta degi í alþjóðaralli sem telur þrjá daga og um 1000 km. Það hefur oft orðið til þess að við höfum verið að tjasla bílnum saman það sem eftir lifir keppninnar og vinna upp heilu mínúturnar. Liggur við að það þurfi að mæta með dagatalið til leiks á degi tvö. Mjög stressandi og full mikill óþarfi finnst manni oft en auðvitað afskaplega gaman þegar vel til tekst – þ.e.a.s. þegar bikar hefur samt komið í hilluna þrátt fyrir margra mínútna tap í byrjun keppni.

Hver er helsti munurinn á því að keppa erlendis eða innanlands?

Það er þó nokkur munur á því. Sérstaklega út í Finnlandi má segja að service munurinn hafi verið einna mestur en þar sáu um okkur menn frá fyrirtækinu TGS sem sérhæfa sig í að servica rallýbíla. Þar voru eintómir sérfræðingar í þeirri bifreið sem við ökum á (Skoda). Við erum með dásamlegt fólk í service fyrir okkur hér heima, sem eru helstu stuðningsaðilar okkar og vinir alveg í gegn, en í Finnlandi hittum við fyrir fólk sem er beinlínis á launaskrá við þetta.
Þeir sáu um gjörsamlega ALLT, við þurftum ekkert að hugsa um nema keppnina sjálfa. Þurftum auðvitað að mæta í leiðarskoðun og svo bara í keppnina sjálfa. Um allt annað sá þetta frábæra aðstoðarfólk. Engir pappírar, engar áhyggjur af skipulagi, keppnisskoðun eða hvað sem var sem sneri að bílnum sjálfum. Algjör lúxus.
Annars er náttúrulega margt fleira mjög ólíkt – sem er eðlilegt er þegar munurinn á allri umgjörð er jafn gríðarlegur og raun ber vitni. Núna erum við systkinin hins vegar á fullu að undirbúa rall á Hólmavík og tökum með okkur reynslu frá erlendum keppnum og notum til að hjálpa okkur við keppnishaldið. Þannig vonum við að reynsla og vinna okkar og margra fleiri skili sér til framfara í sportinu.

FIA – Alþjóðaakstursíþróttasambandið er nú með sérstakt verkefni í gangi sem miðar að því að kynna og auka hlut kvenna í akstursíþróttum. Hvernig hefur þín upplifun verið í akstursíþróttum á Íslandi? Finnst þér konur eiga með einhverjum hætti erfiðara uppdráttar í sportinu? Eru einhverjar sérstakar hindranir og ef svo er hvernig mætti vinna á þeim?
Ég hef svo sem aldrei fundið sérstaklega fyrir því að mæta hindrunum vegna þess að vera kona. Það hefur líka orðið enn sjálfsagðara með tímanum að þarna séu bæði konur og karlar, eftir því sem tíminn líður og konum í sportinu fjölgar. Svo er það líka þannig að hver einstaklingur kynnir sig sjálfur til leiks, hvort sem hann er karl eða kona. Mér finnst mjög jákvætt að sjá nýja þátttakendur koma inn í sportið, bæði karla og konur.

Áttu einhver ráð fyrir fólk sem hefur áhuga á mótorsporti en hefur ekki enn slegist í hópinn, og þá
ekki síst verðandi akstursíþróttakonur?

Um að gera að nálgast bara klúbbana eða einhverja sem starfa í þeim. AIFS á Suðurnesjum er t.d. með mjög öflugt starf um þessar mundir. Þau hafa sitt eigið húsnæði og opið hús vikulega. Upplagt að kíkja t.d. þangað og sjá hvort eitthvað vekur áhuga eða setja sig í samband við einhvern sem er í sportinu.

Sturluð staðreynd - Hvað er það sem íslenska rallýfjölskyldan vildi vita en veit ekki um Ástu Sigurðardóttur?

Óstjórnleg hræðsla mín við köngulær sem fær mig til að gráta eins og lítið barn. Annars er kannski ekki eitthvað sem allir vita að við Danni erum ekki alsystkini, heldur eigum við sitt hvora mömmuna.

Áttu önnur áhugamál en mótorsport? Hver þá? Hefur þú keppt í fleiri íþróttagreinum?

Náttúran fer þarna efst á blað, ég veit voða fátt betra en að vera úti í náttúrunni, jafnvel upp á fjalli, helst ein í friði og ró og njóta þeirra dásemdar sem landið okkar hefur upp á að bjóða. Mér líður best undir berum himni.
Ég hef nú ekki haslað mér völl í öðrum íþróttum. Horfði t.d. á minn fyrsta, heila fótboltaleik þegar Ísland keppti við Argentínu núna um daginn. Ásta tapsára mætti hins vegar á vettvang strax í næsta leik. Mér fannst sá leikur mun síðri...

Hvað er framundan hjá þér og þínum?

Núna er það Hólmavíkurrallið næstu helgi sem hefur átt hug minn síðustu vikur. Svo kemur vonandi sólríkur júlí með nokkrum útilegum áður en ég verð of ólétt til að sofa annarstaðar en í fína tempur rúminu mínu. Svo að koma Tjulla litla í heiminn og takast á við glænýtt hlutverk lífsins.

Eitthvað að lokum?
Mæli með Hamingjudögum á Hólmavík um næstu helgi þar sem hægt er að finna ýmsa skemmtun fyrir fjölskylduna og heilt rall á einum fallegasta stað landsins!