Ásta Sigurðardóttir: Akstursíþróttakona ársins 2016 - Viðtal

27.3.2017

Ásta Sigurðardóttir er Akstursíþróttakona ársins 2016. Ásta er þrefaldur Íslandsmeistari í ralli sem aðstoðarökumaður 2006 og 2007 og nú síðast frábær íslandsmeistaratitill á síðasta ári.

Það eru ekki margar konur í akstursíþróttum á Íslandi og fáar sem ná jafn frábærum árangri og Ásta að ekki sé talað um gleðina sem ríkir kringum hana!

Okkur lék forvitni á að fræðast meira um Ástu og þátttöku hennar í akstursíþróttum.


Segðu mér aðeins frá sjálfri þér og hvers vegna þú byrjaðir í akstursíþróttum?

Heyrðu ég er 27 ára Kópavogsbúi í dag. Er eins og er að komast nær því að láta drauma mína rætast og er í búfræðinámi á Hvanneyri og verð vonandi komin útí náttúruna með kusu undir annarri og geit undir hinni alsæl innan skamms.

Bræður mínir voru að keppa í rallý þegar ég var lítil og mér fannst það alltaf alveg geggjað og Sunna sem var aðstoðarökumaður Danna á þessum tíma var alveg fyrirmyndin mín. Þegar ég var svo 16 ára gaf Danni bróðir mér galla og kóaratösku og gamla vídjóspólu með incari sem hann sagði mér að fara að skoða. Ég keppti svo í fyrsta rallinu mínu í maí það ár, 2006.

Hvað er svona erfitt og sérstakt við rally?

Mörg sport krefjast mikillar samvinnu en ég get ekki ímyndað mér neina íþrótt þar sem samvinna er jafn mikilvæg. Ég þarf að treysta ökumanninum til að keyra með mig á 220 km hraða á malarvegi og ökumaðurinn þarf að treysta hverju einasta orði sem ég segi, hverri beygju, hverri kílómetratölu, allt. Ef ég segi hægri en beygjan er til vinstri getum við einfaldlega setið uppi með handónýtan bíl, auman háls og tapað rall.

Að ná tökum á hlutverki aðstoðarökumanns er ekki auðvelt. Hvernig undirbýrð þú þig fyrir keppni?

Við skoðum oftast leiðarnar sem á að keyra á venjulegum bíl fyrir keppni þar sem við skrifum niður nótur ef við eigum þær ekki nú þegar til eða þá yfirförum nótur sem við eigum til, bætum inní þær og lögum til. Við Danni höfum keppt svo mikið saman að við skoðum ekki mikið, förum aldrei nema eina ferð í að yfirfara nótur og ef við þurfum að smíða nótur frá grunni gerum við það orðið í einni ferð. Ég nota svo incar til að fara yfir tilbúnar nótur inni í stofu.

Alþjóða rallið er lang stærsta keppnin hérna heima og þá set ég mig í alveg sérstakan gír fyrir hana, reyni að vera í fríi alla vikuna því það er ótrúlega margt sem þarf að huga að, margt sem þarf að skipuleggja og græja. Á hverju ári set ég mér markmið um að sofa ótrúlega mikið vikuna fyrir keppni en það gengur nú misvel haha. En ég reyni að hreinsa sykur úr fæðunni minni og hafa hana sem hreinasta því hugurinn þarf að vera svo 100% í lagi, ef einbeitingin mín fer þá bara gengur mér einfaldlega verr og dagar eins og í Rallý Reykjavík byrja hjá mér um 5 á morgnana og eru að klárast á lengsta deginum um 22 og þá á ég eftir að fara heim og græja næsta dag.

Þetta er eins og allt annað í heiminum – æfingin skapar meistarann og það er engin spurning að ég verð betri með hverri nótunni sem ég les, hverri sérleiðinni, hverjum kílómetranum.

Segðu mér aðeins frá samvinnunni við ökumanninn. Hvað er mikilvægast og hvernig vinnið þið saman að sigri?

Það er ekki nóg fyrir ökumanninn að keyra ótrúlega hratt og það er ekki nóg fyrir kóara að lesa nóturnar óaðfinnanlega – þetta gerist ekki nema báðir aðilar vinni saman. Ef ökumaður hlustar ekki á nóturnar getur hann ekki náð góðum árangri, einfaldlega af því að hversu gott minni sem þú hefur þá geturðu ekki með nokkru móti munað 20, 30, 40 kílómetra með fleiri hundruð beygjum og blindhæðum. Það er einfaldega ekki hægt.

Við Danni eigum einstakt samband inní bíl sem byggist á grjóthörðu trausti og virðingu fyrir hvoru öðru. Ef ég segi “flatt yfir hæð” þá er aldrei slegið af, aldrei hikað og ég held að þarna verði oft okkar sigrar til því eins og einhver sagði “hik er sama og tap” og hann bróðir minn er einfaldlega alveg magnaður ökumaður og ég elska að vera manneskjan sem gerir honum kleyft að keyra eins hratt og grimmt og hann getur því þótt hann sé góður í um það bil öllu sem hann tekur sér fyrir hendur þá held ég að það sé óhætt að segja að rallý sé það sem hann gerir best og finnst einna skemmtilegast í lífinu. Mikilvægast er nú alltaf að hafa gaman að því sem maður er að gera því það er lífsins ómögulegt að gera eitthvað vel ef manni finnst það ekki skemmtilegt fram í fingurgóma.

Getur þú gefið þeim sem eru að byrja einhver góð ráð?

Í guðanna bænum farið ekki að finna upp hjólið heldur þiggið þá hjálp og þekkingu sem ykkur er boðin! Og alltaf stilla klukkuna sína uppá sekúndu – maður lætur aldrei grípa sig með skekkju í klukku sem kóari 😉

Þakka þér kærlega fyrir að gefa þér tíma í að spjalla við okkur og gangi þér áfram frábærlega!