Akstursíþróttasamband Íslands hélt ársþing sitt í dag 16. mars 2013.
Lárus Blöndal ákvað að gefa ekki kost á sér sem formaður áfram en bauð sig fram til varaformanns. Guðbergur Reynisson var kjörinn nýr formaður sambandsins. Auk þeirra voru kjörnir í sjórn: Ari Jóhannsson, Einar Gunnlaugsson, Gunnar Hjálmarsson, Ólafur Guðmundsson, Ragnar Róbertsson og Tryggvi M Þórðarson.
Á þingið mættu kjörmenn frá 9 íþróttafélögum sem stunda akstursíþróttir auk fulltrúa frá viðkomandi héraðssamböndum og íþróttabandalögum.
Fulltrúar ÍSÍ á þinginu voru Hafsteinn Pálsson, sem einnig gegndi starfi þingforseta, og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ sem flutti stutt ávarp og skilaði góðum kveðjum frá forseta ÍSÍ og framkvæmdastjórn. Líney sagði meðal annars að Akstursíþróttasamband Íslands geti orðið eitt af stærstu íþróttasamböndum landsins.
Auk hefðbundinnar dagskrár ársfundar var fjallað um mál eins og umferðarlög og reglugerðir, reykingar á keppnisvæðum, tryggingamál, öryggismál, keppnisráð, laganefnd, keppnisgjöld ásamt málefnum LÍA.
Ársþingið samþykkti tvær ályktanir:
1.Ný umferðarlög
Ársþing Akstursíþróttasambands Íslands skorar á stjórnvöld að frumvarp til nýrra umferðarlaga verði afgreitt á næsta þingi.
Í kjölfar þess verði reglugerð um akstursíþróttir endurskoðuð og ný viðmið sett hvað varðar vátryggingar í akstursíþróttum.
2. "Áratugur aðgerða"
Ársþing Akstursíþróttasambands Íslands styður umferðaöryggisrátak Sameinuðuþjóðanna til ársins 2020 „Decade of Action“ , sem hófst árið 2011 og stefnir að 50% fækkun alvarlegra umferðarslysa á heimsvísu næstu 10 ár.
„Áratugur aðgerða“ verði notað til hins ýtrasta til eflingar umferðaröryggis á Íslandi. Stutt er að taka upp svokallaða „Núllsýn“ í umferðaröryggismálum á Íslandi með það að markmiði að enginn farist í umferðarslysum. Sama markmið sé viðhaft hvað varðar akstursíþróttir.