Akstursíþróttir í meira en 40 ár.  

13.1.2023

 

Saga akstursíþrótta á Íslandi nær aftur til þess tíma er fyrsta torfæran var haldin 1965. Bílaklúbbur Akureyrar var síðan stofnaður 1974 og ári síðar var Kvartmíluklúbburinn stofnaður. Árið 1975 var fyrsta rally keppnin haldin af Félagi íslenskra bifreiðaeigenda,  FÍB.  Árið 1977 var Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur stofnaður. 

Þann 1. september 1978 var Landssamband íslenskra akstursfélaga, LÍA, stofnað.  Með samþykki og stuðningi FÍB þá samþykkti Alþjóðaakstursíþróttasambandið, FIA, þann 1. október 1992 að LÍA færi með málefni akstursíþrótta á Íslandi. 

Akstursíþróttanefnd ÍSÍ/LÍA var sett á laggirnar á vormánuðum árið 2008 eftir að samkomulag Bílaklúbbs Akureyrar, Landsambands Íslenskra Akstursfélaga, Kvartmíluklúbbsins, Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur og Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar var undirritað þann 4. maí sama ár. Markmið nefndarinnar var að koma á fót sérsambandi innan ÍSÍ sem mundi sjá um sameiginlega yfirstjórn yfir akstursíþróttum á Íslandi undir merkjum ÍSÍ og FIA. 

Stofnþing Akstursíþróttasamband Íslands var svo haldið 20. desember árið 2012. Þar var kosin stjórn sambandsins og lög þess samþykkt. 

AKÍS er fullgildur aðili að FIA, Alþjóðlega bifreiða íþróttasambandinu., Fédération Internationale de l'Automobile (FIA) sem eru einnig aðilar að Alþjóða Ólympíusambandinu (IOC). Aðildin opnar möguleika fyrir íslenska akstursíþróttamenn að sækja keppnir erlendis og við getum líka haldið alþjóðlegar keppnir á Íslandi. 

 Sem fullgildur aðili að FIA hefur AKÍS lagt mikla áherslu á öflugt alþjóðlegt samstarf og sérstaklega með samvinnu innan FIA/NEZ sem eru akstursíþróttasambönd innan svæðis Norður Evrópu 

Akstursíþróttasamband Íslands er eitt af sérsamböndum sem mynda Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ). Akstursíþróttir hafa gengið í gegnum hæðir og lægðir en á síðustu árum hefur myndast góður stöðugleiki í sportinu. Á síðasta keppnistímabili voru haldnar alls 33 Íslandsmeistarakeppnir, þó nokkur bikarmót  ásamt ótal mörgum æfingum og sýningum. Alls um 60 viðburðir. 

Sjálfboðaliðar gegna veigamiklu hlutverki innan akstursíþróttafélaganna en án þeirra væru engar keppnir haldnar.  Sjálfboðaliði ársins var valinn í fyrsta skipti á lokahófi AKIS sem fram fór sl. haust. Við viljum nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg og gerðu allar keppnir sl. keppnistímabils að veruleika. 

 

Aðildarfélög AKÍS eru eftirfarandi: Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar, Akstursíþróttafélag Suðurnesja, Akstursíþróttafélagið START, Akstursíþróttanefnd Heklu, Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur, Bílaklúbbur Akureyrar, Bílaklúbbur Hafnarfjarðar, Bílaklúbbur Skagafjarðar, Kvartmíluklúbburinn,  Stimpill Akstursíþróttafélag og að lokum Torfæruklúbbur Suðurlands. Auk þess hafa erlendir keppendur komið og keppt. Akstursíþróttir eiga því sinn fulltrúa um nær allt land og fjölbreytnin er mikill.  

 

Framundan er glæsilegt ár í akstursíþróttum. Það byrjar með keppni í hermiakstri sem síðan verður ein af fjölmörgum greinum sem keppt verður á Reykjavíkurleikunum. Á þeim leikum er stefnt að því að keppa í fyrsta skipti í rally á snjó.  Þegar hins vegar snjóa leysir fara greinarnir af stað hver af annarri.  

Það er því svo sannarlega framundan glæsilegt keppnisár í Íslenskum Akstursíþróttum.

 

Yfirlit um sögu AKÍS má finna hér á heimasíðunni.