Akstursíþróttir á tímamótum

7.3.2015

Ársþing AKÍS var haldið í höfuðstöðvum ÍSÍ laugardaginn 7. mars 2015.

Stjórn og varastjórn AKÍS 2015

Stjórn og varastjórn AKÍS 2015

 

Tryggvi M. Þórðarson var kjörinn formaður sambandsins. Í stjórn halda áfram: Gunnar Bjarnason, Einar Gunnlaugsson og Ari Jóhannsson. Til tveggja ára voru kosin: Helga Katrín Stefánsdóttir, Ragnar Róbertsson og Þórður Bragason. í varastjórn voru kjörnir Brynjar Schiöth, Jón Bjarni Jónsson og Guðbergur Reynisson.

Á þingið mættu kjörmenn frá 9 íþróttafélögum sem stunda akstursíþróttir auk gesta frá Flugbjörgunarsveitinni Hellu og Íþrótta og ólympíusambandi Íslands.

Guðbergur Reynisson fráfarandi formaður fór yfir sögu sambandsins sem nú stendur á tímamótum. Eftir nokkra óeiningu akstursíþróttafélaga á Íslandi um aldamótin hafa þau nú gert upp skuldir og endanlega sameinast undir hatti ÍSÍ og FIA.

Hafsteinn Pálsson var þingforseti og flutti kveðjur frá stjórn og starfsmönnum ÍSÍ. Hann þakkaði fyrir gott samstarf á síðustu árum og þakkaði stjórn AKÍS fyrir vel unnin störf og hvatti nýja stjórn til að huga vel að fjárstreymi og að byggja upp öflugt samband til lengri tíma.
Jón Gestur Viggósson úr stjórn ÍSÍ óskaði sambandinu til hamingju með áfangann og sagði einnig að fjármál sambandsins væru í góðum málum.

Baldur Arnar Hlöðversson sagði frá reynslu sinni af þátttöku í þjálfunar- og úrtaks viðburði á vegum FIA í Hollandi í lok október. Ísland sem eitt af rúmlega 140 aðildarlöndum FIA mátti tilnefna einn ökumann til að taka þátt í þessari úrtöku. Þarna öðlaðist hann dýrmæta reynslu sem hann getur deilt með öðrum ungum ökumönnum sem fá sambærileg tækifæri.

Á þinginu var farið yfir lagabreytingar, keppnisreglur, verðlista, reglugerð um heilsufar keppenda, stofnun aga- og úrskurðarnefndar ásamt afreksstefnu sambandsins. Þessi mál eru í stöðugri endurskoðun og nýsmíði.

Tryggvi M. Þórðarson þakkaði það traust sem honum er sýnt og hlakkar til að taka þátt í góðu samstarfi um framtíðaruppbyggingu öflugra akstursíþrótta á Íslandi.