Afreksbúðir ÍSÍ

13.10.2022

Afreks- og Ólympíusvið ÍSÍ hefur staðið fyrir afreksbúðum fyrir ungt og efnilegt íþróttafólk sérsambanda sinna.

Afreksbúðir ÍSÍ verða fyrst og fremst í formi fyrirlestra sem verða í boði bæði rafrænt og með því að mæta á staðinn. Með því móti getur allt okkar unga og efnilega íþróttafólk sérsambanda um land allt tekið þátt eins og því hentar.

Sem fyrr erum við að horfa til íþróttafólks á aldrinum 15-18 ára (árgangar 2004-2007). Á þessu aldursbili eru þátttakendur aðallega íþróttafólk í hæfileikamótun, afrekshópum og unglingalandsliðum sérsambanda. Þar sem afreksbúðirnar fara líka fram á rafrænan hátt er ykkar þjálfurum, eða þeim sem halda utan um starfið fyrir ykkur, velkomið að taka þátt ef áhugi er fyrir hendi.

Í afreksbúðum ÍSÍ 2022-2023 er ráðgert að vera með tvo fyrirlestrar fyrir áramót og a.m.k. einn eftir áramót.

Fyrsti fyrirlesturinn fer fram laugardaginn 15. október milli kl. 13:00-14:00 í Laugardalshöll. Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands fjallar um lyfjamálin í víðu samhengi og hvað íþróttafólki ber að vita um lyfjaeftirlit í íþróttum. Einnig verður farið yfir notkun fæðubótarefna og orkudrykkja og hvað þarf að hafa í huga því tengt.