Yfirlýsing frá formönnum MSÍ og AKÍS

18.7.2017

Jæja gott fólk.  Undanfarnar vikur hefur staðið yfir mikil orrahríð athugasemda og skoðana á Facebook og víðar vegna umsagnar MSÍ og AKÍS vegna akstursbrautar Bílaklúbbs Akureyrar (BA). Við viljum því byrja á að þakka kærlega fyrir "vel valin orð" í okkar garð og annarra sem vinna í stjórnum MSÍ og AKÍS. Ekki dettur okkur í hug að eltast við þau orð sem menn hafa látið falla um persónur okkar, en þykir leitt hvað menn eru viljugir til að leggjast lágt í umræðunum.

Við viljum hins vegar gera okkar besta til að varpa ljósi á þessa umræðu og umsögn sambandanna um braut BA á Akureyri. Forsagan er sú að í vor kom upp umræða innan stjórnar MSÍ varðandi ástand brautarinnar og þá sérstaklega dældina sem er í seinni hluta brautarinnar rétt fyrir bremsukaflann, halla brautarinnar upp á við sem og einnig lengd bremsukaflans miðað við mögulegan hraða og heildarlengd brautarinnar. Ólíkt því sem menn hér vilja láta þá snerist sú umræða um öryggi keppenda eingöngu og ekki síður ábyrgð MSÍ og BA ef leyfi væri gefið fyrir akstri í braut þar sem alvarleg slys gætu átt sér stað á miklum hraða.  Sama umræða hafði átt sér stað innan AKÍS þó ekki á formlegum stjórnarfundum.

Í kjölfarið hafði formaður MSÍ samband við formann BA símleiðis og ræddi áhyggjur MSÍ við hann vegna öryggis keppenda sem margir hverjir eru á upp undir 200 km hraða í lok brautarinnar. Hann bað formann BA að skoða málið og hvort og hvað væri hægt að gera ráðstafanir til að draga úr hættunni sem dældin gæti valdið. Formaður BA eyddi þessum athugasemdum og taldi þetta fullkomlega óþarfar áhyggjur. Hvort hann ræddi þessar ábendingar við aðra innan stjórnar BA er formanni MSÍ ókunnugt um, en ábendingunni var komið á framfæri í byrjun apríl. Engin svör bárust eða tillögur frá BA.

Í maí eins og undanfarin ár var kominn tími á úttekt á akstursbrautum BA og KK vegna leyfisveitinga MSÍ og AKÍS í samræmi við reglugerð um akstursíþróttir. Báðir formenn áttu leið norður á Akureyri vegna einkaerinda (og greiddum því ferðakostnað úr eigin vasa svona ef einhvern langar til að væna okkur um bruðl á peningum sambandanna) og ákváðum að nota tækifærið þann 8. maí til að koma við hjá BA og skoða/taka út svæðið. Formaður BA tók vel á móti okkur og leiddi um svæðið og sýndi okkur allt það helsta. Í þeirri skoðun var dældin mjög greinileg frá uþb 120 metrum og að 180 metrum eða stuttu fyrir endamark og bremsukafla. Öllum athugasemdum um dældina var svarað á þá leið að "það hafi aldrei orðið slys í brautinni og því ekki ástæða fyrir okkur til að hafa áhyggjur". Þessi fullyrðing formanns BA stenst ekki, þar sem óhöpp hafa orðið á brautinni. Með sambærilegum rökum mætti þá kannski færa rök fyrir því að hætta öllum hraðatakmörkunum á þjóðvegum þar sem ekki hafa orðið alvarleg eða nógu alvarlega slys til að réttlæta hraðatakmarkanir.

Þegar í vikunni funduðu stjórnarmenn AKÍS og MSÍ sameiginlega og ræddu bæði umsagnir vegna brautar BA og Kvartmíluklúbbsins og komust að sameiginlegri niðurstöðu. Í kjölfarið voru umsagnir gefnar út sameiginlega og sendar á félögin 13. maí.

Í umsögn BA var kveðið á um 160 km hámarkshraða í brautinni þar sem ekki þótti öruggt að veita fullt leyfi fyrir mögulegum hámarkshraða í brautinni við óbreyttar aðstæður. Í umsögn var um leið óskað eftir því að BA kæmi með tímasettar tillögur að því hvernig væri hægt að bregðast við og laga brautina og tryggja öryggi keppenda.

Formaður BA svaraði bréfinu 14. maí og mótmælti harðlega og vísaði til þess að stutt var í mót, sem var vissulega rétt, en gleymir því að þessar ábendingar hefðu fyrst komið fram í byrjun apríl í símtali okkar, óformlega þó. Formaður BA bætir svo snyrtilega við í niðurlagi sendingarinnar  "Hvaða haldbær rök eru fyrir þessari ákvörðun, hvorugur aðilinn sem sá um brautarúttekt hefur keppt á þessari braut né annarsstaðar í spyrnu, Já ég segi það "sjálfskipaðir" af eigin embættum og með öllu óhæfir til að taka út slíkar brautir þar sem reynsla þeirra og áhugi liggur annarsstaðir en í spyrnugreinum."

Aðrar tillögur um hvernig mætti bregðast við áhyggjum okkar af öryggi keppenda bárust ekki.

Formanni BA voru þökkuð "fagleg" viðbrögð og hann minntur á samtal við formann MSÍ mánuði fyrr, meðal annars varðandi dældina í brautinni.  Einnig var honum bent á að það væri ansi sérstakt að það þyrfti utanaðkomandi menn sem þó væru "algjörlega óhæfir" eins og hann orðaði það til að benda honum, sem væntanlega hefði sérþekkingu á spyrnugreinum, á að brautin gæti verið hættuleg þegar stór dæld er í henni rétt fyrir endamark. Formaður BA á það hins vegar bara við sig hvernig hann metur öryggismál svæðisins - MSÍ og AKÍS hafa greinilega töluvert hærri staðal í þeim málaflokki.

Í kjölfarið fylgdu ýmsar sendingar þar sem mestri orku var veitt í það að sýna okkur fram á ekki hafi orðið slys í brautinni og því engin ástæða til að gera neitt í málinu og samböndunum bæri því að endurskoða umsögnina og fella niður hraðatakmarkanir. Þann 27. maí er síðan haldin götuspyrna á braut BA þar sem hraðasellur í endamarki voru fyrir hreina tilviljun "bilaðar", enda hraðatakmörkun í brautinni þar sem kom fram að keyrslur þar sem hraði væri umfram 160 km gæfu ekki rétt til stiga. Hvort BA valdi að gefa keppendum ekki þessar upplýsingar um hraðatakmörkun eða eins og einhverjir keppendur sögðu “það er hraðatakmörkun í gangi, en hraðasellur í endamarki eru óvirkar” valdi BA að keyra mótið þannig alfarið á sína ábyrgð án hraðatakmarkana og í trássi við umsagnir sambandanna.  Úrslit úr þeirri keppni voru svo send á samböndin eftir helgina og þar sem mátti ljóst vera út frá tíma keppenda allt að 30-40 hröðustu tímarnir væru umfram 160 km hraða. Ekki er með óyggjandi hætti hægt að ætla endahraða út frá tíma í braut og því var í kjölfarið ákveðið að einungis væri hægt að veita mætingarstig til keppenda fyrir þátttökuna og þannig sætu allir við sama borð. Þessi aðferð BA til að svara umsögn sambandanna var vægast sagt ámælisverð.

Í aðdraganda héldu "fagleg" samskipti formanns BA við stjórnir sambandanna áfram án þess að nokkur tilraun væri gerð til að koma með tillögur að breytingum á keppnisforminu eða lagfæringum á brautinni. Því var ljóst að BA myndi að öllu óbreyttu hafa sama háttinn á við keppnishald í götuspyrnu á Bíladögum eða keyra keppnina án þess að taka nokkurt tillit til umsagna sambandanna.

Þann 13. júní var því samþykkt sameiginleg yfirlýsing MSÍ og AKÍS vegna þessa máls þar sem bent er á að ef ekki komi skýr svör og tímasettar aðgerðir til að bæta öryggi brautarinnar svo sem með því að stytta brautina í 150m og tryggja að hraðasellur séu til staðar í keppnum verði leyfi fyrir keppnishald í spyrnu afturkallað og tilkynning þess efnis send á Sýslumanninn á Norðurlandi eystra.

Í kjölfarið óskaði BA eftir endurskoðun á umsögninni og að endahraði yrði miðaður við 190 km þar sem brautin hefði verið völtuð og lagfærð.  Þessu var hafnað af stjórnum sambandanna þann 15. júní sama og mátu stjórnir AKÍS og MSÍ það sem svo, að tillaga BA nái ekki markmiði um bætt öryggi keppenda.  Í framhaldinu var BA send breyting á sameiginlegri umsögn AKÍS og MSÍ um keppnisbrautina þar sem kemur fram að spyrna væri ekki heimil á brautinni.  Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra ásamt Sýslumanninum á Norðurlandi eystra var sent afrit af breytingunni.

Þann 15. júní 2017 kl. 13:52 barst loksins tillaga frá formanni BA um að lengd brautar í spyrnukeppnum á spyrnusvæði klúbbsins verði stytt í 170 metra. Væri það gert “til að ná fram ásættanlegum hraða spyrnutækja í endamarki”. Tillagan kom fram sem hugmynd að málamiðlun frá aðilum sem voru á staðnum og staðfestu að með þessu væru áhrif dældarinnar takmörkuð og öryggi keppenda aukið.

Stjórnir AKÍS og MSÍ töldu að með tillögu að aka aðeins 170m og að hafa hraðasellur í endamarki virkar þá væri komið til móts við markmið það sem upphafleg brautarúttekt sagði, að takmarka hraðann í endamarki. Þá var einnig ákveðið að lengd brauta í götuspyrnu yrði alls staðar 170m í sumar.

Í framhaldinu var formanni BA send endurskoðuð umsögn AKÍS og MSÍ um keppnisbrautina þar sem þetta er staðfest.  Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra ásamt Sýslumanninum á Norðurlandi eystra sent afrit af breytingunni. Keppni á Bíladögum fór því fram en með umræddum takmörkunum.

Í kjölfarið er hinsvegar ljóst að BA og formaður BA bera enn litla sem enga virðingu fyrir umsögn sambandanna og gera sitt besta til að kasta rýrð á alla sem að málinu koma og gera lítið úr stjórnarmönnum og formönnum sambandanna og slá sjálfa sig til riddara með eigin greinaskrifum og innleggjum félagsmanna sem hoppa sjálfviljugir á formælingavagninn. Þetta er ámælisvert og hvorki klúbbnum, viðkomandi einstaklingum til sóma né sportinu til framdráttar.

Því um hvað snýst þetta mál? Er það um keppnishald út á landi eins og sumir vilja meina eða meintan vilja stjórnarmanna til hætta öllu keppnishaldi á landsbyggðinni eða er þetta kannski bara af því að formenn sambandanna koma ekki úr spyrnugreinum. Eða eru þessar ástæður kannski bara runnar frá hagsmunaaðilum sem hafa ekki eða vilja ekki horfast í augu við alvarleika málsins.

Frá sjónarhóli AKÍS og MSÍ snýst þetta mál bara um eitt og það er öryggi keppenda í keppnisbraut sem fær keppnisleyfi frá MSÍ og AKÍS. Það er á ábyrgð AKÍS og MSÍ samkvæmt reglugerð um akstursíþróttir að skoða og taka út þær brautir sem keppt er á hérlendis. Að þessari umsögn og ákvörðun komu, auk formanna, stjórnarmenn í báðum samböndum sem hafa samanlagt áratuga reynslu úr öllum tegundum keppnisgreina sambandsins, spyrnugreina og annarra greina.

Frá sjónarhóli BA virðist þetta mál því miður snúast um allt annað, sem er að viðhalda keppni á braut sem stenst enga alþjóðlega staðla um spyrnubrautir, hvorki með tilliti til ástands brautarinnar (það er dældina sem enn er til staðar), halla á brautinni sem ekki má fara yfir 1% eða lengd bremsukafla miðað við þann endahraða sem keppendur geta náð í viðkomandi greinum. Erindi barst frá BA nýlega, að stjórnir AKÍS og MSÍ hlutist til að fá aðra matsmenn, jafnvel frá alþjóðasamtökunum (FIM/FIA) til að gera úttekt á brautum BA og KK.  Vinna er hafin að því að fá matsmenn frá alþjóðasamtökunum hingað í haust til úttektar, svo gera megi viðeigandi ráðstafanir sem fyrst.

BA virðist því miður hafa meiri áhuga á að gera lítið úr þeim sem að umsögninni komu heldur en að bæta öryggi keppenda með því að fara í lagfæringar á brautinni. Hvort sem um er að kenna tíma- eða peningaleysi félagsins er ekki gott að segja en ef svo væri þá er kannski ein leiðin að brjóta odd af oflæti sínu og viðurkenna það einfaldlega og leita leiða til að vinna úr þeirri stöðu.

MSÍ hefur styrkt aðildarfélög sín dyggilega á undanförnum árum til framkvæmda. Bílaklúbbur Akureyrar fékk styrk frá MSÍ árið 2016 fyrir keppnishald á Íslandsmóti, en hefur aldrei sótt um styrk vegna framkvæmda. Slíkri beiðni frá BA væri tekið á sama hátt og öllum öðrum beiðnum og með jákvæðum hug ef til kæmi.  AKÍS er að vinna að brautarverkefni með FIA sem miðar að því að auka öryggi fastra akstursíþróttasvæða hérlendis.  Keppnisbrautir eru teiknaðar upp samkvæmt FIA stöðlum, þar sem metnar eru beygjur, öryggissvæði, vegrið og fleira. Auk þess sem útbúnar verðar öryggisáætlanir fyrir hvert svæði. Stóð til að hafa keppnissvæði BA á Akureyri með frá byrjun en umbeðin gögn hafa ekki borist, en sú beiðni mun ítrekuð á næstunni.

Samskipti vegna úttektar á keppnissvæði BA er félaginu og félagsmönnum þess ekki til sóma.  Óskandi er að menn sjái að sér og horfi á aðalatriði málsins, sem er ástand brautarinnar og öryggi keppenda.

Við viljum hvetja alla til að róa sig aðeins og rýna í kjarna málsins og hvað hægt er að gera til að koma sportinu á hærra stig og gleyma um leið fyrri ávirðingum.

 

Með vinsemd og virðingu,

Hrafnkell Sigtryggsson

formaður Mótorhjóla- og
snjósleðaíþróttasambands Íslands

 - o -

Tryggvi M. Þórðarson

formaður
Akstursíþróttasambands Íslands