Úrslit 4. Umferðar Íslandsmótsins í Torfæru – Stig til Íslandsmeistara.

11.8.2025

Úrslit 4. Umferðar Íslandsmótsins í Torfæru – Stig til Íslandsmeistara.

Við útgáfu úrslita í 4.umferð Íslandsmótsins í Torfæru sem að fram fór á Blönduósi voru keppendur saman í 4-5 sæti og 9-10 sæti. Bráðabirgðaúrslit voru birt með fyrrgreindum hætti og voru ekki gerðar athugasemdir við þau innan gefins kærufrests. Grein 4.7 í keppnisgreinareglum Torfæru sem skera á úr um endanleg sæti keppenda í lokaúrslitum sem eru jafnir að stigum var ekki beitt og voru bráðabirgðaúrslit staðfest af dómnefnd og birt á upplýsingatöflu keppninnar.

Heimild til þess að leiðrétta mistök við birtingu úrslita er ekki fyrir hendi og var því grein 8.8 í Reglubókinni notuð við að reikna stig til Íslandsmeistara í þessu tilfelli en þar segir:

Komi upp jafntefli skulu keppendur annað hvort deila þeim verðlaunum sem tilgreind eru fyrir þeirra sæti í úrslitum og öðrum verðlaunum sem um ræðir eða, ef allir keppendur veita samþykki sitt, má dómnefnd heimila aðra keppni takmarkaða við þá keppendur sem jafnir voru og setja skilyrði fyrir henni, en upphaflega keppnin skal ekki endurtekin undir neinum kringumstæðum.

Leiðir þetta af sér að keppendur í 4-5 sæti skipta með sér samanlögðum stigum fyrir þau sæti og fá hvor um sig 11 stig til Íslandsmeistara. Keppendur í 9-10 sæti skipta með sér samanlögðum stigum þeirra sæta og fá hvor um sig 1,5 stig til Íslandsmeistara.