Sjálfboðaliðar og embættismenn í akstursíþróttum heiðraðir af FIA

2.10.2025

Sjálfboðaliðar og embættismenn sem gera mögulegt að halda akstursíþróttaviðburði á Íslandi verða heiðraðir í októbermánuði sem hluti af alþjóðlegu átaki FIA, Volunteers and Officials Month. Fédération Internationale de l'Automobile (FIA), alþjóðlegt stjórnvald akstursíþrótta um allan heim, hefur tileinkað október sjálfboðaliðum og embættismönnum í þakklætisskyni fyrir ómetanlegt framlag þeirra við framkvæmd akstursíþróttaviðburða á heimsvísu.

 

Akstursíþróttasamband Íslands, AKÍS, tekur þátt í framtakinu og heiðrar þá sjálfboðaliða og embættismenn sem leggja sitt af mörkum til viðburða víðs vegar um landið. Sjálfboðaliðar og embættismenn gegna lykilhlutverki í framkvæmd keppna og sinna fjölbreyttum og ábyrgðarmiklum verkefnum, meðal annars sem keppnisstjórar, í eftirliti og öryggisgæslu og með stuðningi við áhorfendur og keppendur.

Í tilefni mánaðarins mun AKÍS veita sérstakar viðurkenningar til þeirra sem hafa unnið framúrskarandi starf, hvert í sínu hlutverki. Meðal þeirra er Guðni Sigurðsson, sjúkrafulltrúi, sem hefur verið ómetanlegur meðlimur í heilbrigðisteymi sambandsins og meðal annars veitt mikilvægt fyrsta viðbragð við óhöppum á rallycross-keppnum. Þá verða einnig haldnir fjölmargir viðburðir til að undirstrika mikilvægi framlags sjálfboðaliða og embættismanna, og hápunkturinn verður þegar viðurkenningar verða veittar sjálfboðaliðum á verðlaunaafhendingu Íslandsmeistaramótsins, Lokahófi AKÍS 2025.

 

Þúsundir sjálfboðaliða um allan heim sinna lykilhlutverkum í akstursíþróttum. Með stofnun Volunteers and Officials Month vill FIA heiðra starf þeirra og ástríðu og hvetja fleiri til þátttöku. Markmiðið er að hvetja einstaklinga með fjölbreytta hæfileika og reynslu til að taka þátt í sjálfboðastörfum innan akstursíþrótta.

Mohammed Ben Sulayem, forseti FIA, segir:
„Sjálfboðaliðar eru lífæð íþróttarinnar. Ástríða þeirra, hollusta og skuldbinding er sannarlega innblástur og gerir það mögulegt að halda akstursíþróttaviðburði um allan heim, sem færa milljónum aðdáenda gleði og einstaka upplifun. Með því að tileinka októbermánuð sjálfboðaliðum erum við að lýsa innilegu þakklæti og skuldbindingu okkar gagnvart þeim. Ég hvet alla sem hafa áhuga á að

starfa við akstursíþróttaviðburði til að taka þátt og upplifa hversu gefandi það er að vera hluti af þessu starfi."

 

Jón Þór Jónsson, formaður AKÍS, bætir við:
„Embættismenn okkar og sjálfboðaliðar eru burðarásinn í starfsemi okkar. Án þeirra væri ekki unnt að halda akstursíþróttaviðburði á Íslandi. Þetta átak FIA er kærkomið okkar fólki og verður virkilega skemmtilegt nú við lok keppnistímabilsins að beina sviðsljósinu að fólkinu að baki keppnishaldinu. Það verður seint metið að fullu allt það óeigingjarna starf sem fólkið okkar vinnur á bak við tjöldin en þannig hefur það verið í rúmlega 60 ára sögu íslenskra akstursíþrótta."

Þeir sem hafa áhuga á að starfa sem sjálfboðaliðar við akstursíþróttaviðburði í gegnum AKÍS eru hvattir til að hafa samband við akstursíþróttafélög í sínu heimahéraði. Einnig er hægt að senda fyrirspurn á Akstursíþróttasamband Íslands á: akis@akis.is

 


Jón Þór Jónsson
Formaður, Akstursíþróttasamband Íslands