Skilyrði fyrir rallykeppnum

SKILYRÐI FYRIR RALLYKEPPNUM

Eftirtöldum almennum skilyrðum skal fullnægt við framkvæmd og stjórnun rallkeppna á vegum Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA. Þau skulu ávallt höfð til hliðsjónar þegar keppni er skipulögð. Skilyrði þessi gilda fyrir allar rallkeppnir haldnar 1994 og síðar.

Eftirtaldir yfirmenn skulu vera til staðar:

 • Keppnisstjóri hefur alla yfirstjórn keppninnar og skulu allir að lúta valdi hans.
 • Ritari sér um alla útreikninga og tímatöku varðandi framgang keppninnar og úrslit.
 • Brautarstjóri hefur yfirumsjón með vali og undirbúningi sérleiða.
 • Tengiliður keppenda, sér um öll samskipti við keppendur.
 • Blaðafulltrúi sér um öll samskipti við fjölmiðla í tengslum við keppnina.
 • Starfsmannastjóri sér um þjálfun og stjórn starfsmanna.
 • Skoðunarmenn skipaðir af Akstursíþróttanefnd ÍSÍ/LÍA. Þeir sjá um skoðun skv. reglum.
 • Dómnefnd þriggja manna skal skipuð í öllum keppnum. Aðilar dómnefndar skulu vera frá Akstursíþróttanefnd ÍSÍ/LÍA, keppnishaldara og öðrum klúbb.

Allir starfsmenn keppninnar skulu vera merktir.

Í hverri keppni skulu vera amk. tveir undanfarar og einn eftirfari.

Aðrir starfsmenn keppninnar eru:

Undanfari 00:

 • Er ca. 30 til 60 mínútur á undan keppninni og lokar leiðinni, setur upp lokunarskilti og/eða innakstur bannaður skilti
 • Athuga öll merki og hættur.
 • Athuga lokanir leiða sem skera sérleiðina.
 • Athuga tímavarðsstöðvar og að bremsukaflar séu nægilega langir.
 • Afhendir gögn til tímavarða og prufar tímatöku.

Undanfari 0:

 • Gengur úr skugga um að leiðin sé örugglega lokuð, og að enginn sé á hættulegum stöðum við leiðirnar.
 • Athugar merki og hættur og lokanir leiða sem skera sér leiðina.
 • Yfirfer lengd bremsukafla.
 • Prufar tímatöku.

Eftirfari E:

 • Athugar hvort keppnisbílar hafi stöðvað á leiðinni.
 • Safnar tímakortum/tímablöðum á tímavarðstöðvum.
 • Telur tímakortin og ber þau saman við fjölda keppenda og gætir þess vel að enga keppendur vanti.
 • Tilkynnir aksturstíma til stjórnstöðvar.

Eftirfari á ekki að safna saman merkingum af leiðum, flytja keppendur, tefji það störf hans.

Læknir er staðsettur í eftirfarabifreið og sinnir þeim slysum og/eða sjúkdómum er upp kunna að koma, jafnframt stjórnar hann aðgerðum á slysstað.

Tímaverðir:

 • Sjá um allar tímtökur og skráningu tíma.
 • Geta úrskurðað um vafaatriði skv. beiðni keppnisstjóra og/eða dómnefndar, t.d. ef einhver keppenda styttir sér leið eða þess háttar.

Starfsfólk stjórnstöðvar sér um útreikning og skráningu tíma.

Umsóknir og leyfi:

Umsóknir um keppnir skulu hafa borist Akstursíþróttanefnd ÍSÍ/LÍA amk. 3 vikum fyrir keppni. Umsókn skal fylgja leiðalýsing, tímaáætlun, leyfi veghaldara og dagskrá. Í dagskrá skulu koma fram allar tímaáætlanir svo sem þátttökufrestir, skoðun, ræsing, hlé og áætluð lok og lengd keppninnar. Einnig skal tilgreina í dagskrá keppninnar nöfn forsvarsmanna samkvæmt reglum auk dómnefndar.

Keppnishaldari sækir einnig um leyfi fyrir keppninni svo og undanþágur frá hámarkshraða hjá sýslumönnum, bæjarfógetum og lögreglustjórum eftir því sem við á.

Tryggja skal, að samband sé haft við alla hlutaðeigandi aðila við val sérleiða. Afla skal skriflegs leyfis frá Vegagerðinni eða veghaldara sé um einkaveg að ræða. Einnig skal haft samband við ábúendur við sérleiðir, hópferðaskrifstofur, náttúruverndarráð og aðra þá er hagsmuna hafa að gæta, eftir því sem við á í hvert skipti.

Endanlegt rásleyfi er gefið út af sýslumanni eða fógeta þess staðar þar sem keppnin hefst, eftir að gengið hefur verið úr skugga um að öll skilyrði séu uppfyllt. Öll leyfi skulu vera fyrirliggjandi amk. viku fyrir keppni. Fulltrúi Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA í dómnefnd gefur út endanlegt keppnisleyfi. Sé þessum skilyrðum ekki fullnægt innan tilskilins tíma verður keppnisleyfi ekki gefið út. Gengið skal frá tryggingu vegna keppni með amk. viku fyrirvara. Ógreiddar tryggingar frá fyrri keppnum leiða til sviptingar á keppnisleyfi.

Keppnisstjóri skal sjá til þess að öll gögn keppninnar þe., leyfi fyrir keppni, öryggisáætlun, símanúmer keppnisstjórnar, lögreglu og sjúkraliðs auk annarra nauðsynlegra upplýsinga, séu í höndum eftirtalinna aðila: Tímavarða, gæslu og lokunarfólks, undanfara, eftirfara, lögreglu, hjálparsveita, slysadeilda, Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA og dómnefnda.

Allar rallkeppnir skulu haldnar skv. reglum Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA og FIA. Allar breytingar á reglum eru háðar samþykki Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA.

Áður en keppni hefst skal dómnefnd og eftirlitsaðili Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA ganga úr skugga um að öllum skilyrðum hafi verið fullnægt og að allar öryggiskröfur uppfylltar.

Dómnefnd og/eða lögregla geta stöðvað keppni hvenær sem er, telji þeir einhverju ábótavant.

Tímasett heildarúrslit skulu hengd upp á upplýsingatöflu keppnisstjórnar og tilkynnt keppendum strax og þau liggja fyrir, þau skulu birt yfir stöðu keppenda yfir heildina og í öllum flokkum. Lokaúrslit skulu undirrituð af keppnisstjóra og afhent fulltrúa Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA í dómnefnd. Keppnisstjóri, öryggisfulltrúi og dómnefnd skulu skila skriflegri skýrlslu um keppnina til Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA. Alvarleg og ítrekuð vanhöld og brot við stjórnun og framkvæmd keppna af hálfu keppnishaldara geta leitt til viðurlaga svo sem áminninga, fjársekta og sviptingar á leyfi til að halda keppni til lengri eða skemmri tíma. Dómnefnd hverrar keppni skal tilkynna stjórn Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA ef um slæm og ítrekuð brot er að ræða.

Fyrirkomulag keppna:

Tillhögun leiða og leiðavali skal ávallt hagað þannið að keppnin valdi almenningi sem minnstri röskun og töfum. Hér er átt við tímasetningar td. gegnum þéttbýli að næturlagi, lokanir á almennum vegum á annatíma osfrv.

Sérleiðir skal velja þannig að þær séu ekki hættulegar keppendum. Sérstaklega skal varast að velja leiðir þar sem er; hengiflug, djúpir vatnsbakkar og/eða aðrar hættur sem erfitt er að varast. Hámarks meðalhraði sérleiða ætti ekki að vera meiri en 110 km/klst. Sérleiðir sem eru lengri en 20 km. skulu hafa fjarskiptastöð á miðri leið. Þessi stöð skal sérstaklega merkt og tilkynnt keppendum fyrir keppni og á tímakorti. Sérleiðir skulu valdar þannig, að sem fæstir vegir, afleggjarar eða heimreiðar skeri leiðirnar, eða ástæða er til að ætla að óviðkomandi komist inn á leiðina á meðan keppni stendur yfir.

Allir vegir er skera sérleiðir skulu lokaðir á meðan keppni stendur, með merki (innakstur bannaður), skýringum og starfsmanni.

Bremsukaflar á sérleiðum skulu vera svo til beinir og ekki á blindhæð. Ef aðkoma að flaggara og bremsukafla er mjög bein og löng og ætla má að keppnisbifreiðar komi á mikilli ferð, skal bremsukaflin amk. 400 - 500 metrar.

Flaggari skal staðsettur innan í beygjum, sem lengst frá veginum og helst hærra en vegurinn. Tímavarðarbíllinn eða tímavörðurinn sjálfur skal staðsettur í lok bremsukaflans og ef mögulegt er, utan við veginn. Engir mega vera staðsettir frá tímaverðinum að parc fermé merkinu. Leiðin af tímavarðastöðinni skal greiðfær. Allar merkingar tímavarðstöðva skulu vera skv. reglum Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA/FIA, sem og aðrar merkingar keppninnar.

Séu sérleiðir valdar með það í huga að áhorfendum sé bent á leiðina eða ástæða er til að ætla að fjöldi áhorfenda verði á staðnum skal tryggja að fólk standi ekki utan í beygjum og ekki alveg við veginn. Bent skal á að girða áhorfendasvæði með böndum og/eða borðum, sérstaklega þar sem ekki er um hæðarmismun frá veginum að ræða. Áhorfendum skal vikið frá tímavarðstöðvum og bremsuköflum.

Sérleiðir með miklum fjölda áhorfenda skal jafnframt manna í öllum beygjum og stöðum þar sem fólk safnast saman og æskilegt er að hafa hátalarakerfi og kynnir. Á þessum leiðum skal vera samband milli rás og endamarks. Einnig skal staðsetja menn með talstöðvar eða annan búnað við leiðina, sem eru í sambandi við ofantalda aðila. Á þessum leiðum skal sjá um að fyrsta hjálp sé til staðar. Sérstaklega skal árétta að hafa gott samstarf við viðkomandi lögregluembætti í þessu sambandi.

Öryggisáætlun:

Símanúmer keppnisstjórnar, undanfara, eftirfara og sjúkraliðs skulu vera í leiðabók og í höndum allra aðila auk upplýsinga um sjúkrahús, þyrluþjónustu, slysavarnafélags og lögreglu.

Sjá skal um að góð fjarskipti séu milli stjórnstöðvar, undan- og eftirfara og við sjúkrabíl keppninnar. Baksíða leiðabókar skal vera hvít með rauðum/svörtum krossi sem skal nota ef slys ber að höndum og aðstoðar er óskað.

Reglubók 1997. Yfirfarið 2007. Yfirfarið 2012.