Gunnar Viðarsson (3.8.1980 - 8.3.2015)

13.3.2015

Fallinn er frá, langt fyrir aldur fram, góður og gegn akstursíþróttamaður og Íslandsmeistari í rallycross, Gunnar “Rednek” Viðarsson.

Hann var þekktur hagleiksmaður sem kom fram í haganlega smíðuðum bifreiðum, bæði keppnisbifreiðum og öðrum farartækjum.  Það virtist leika í höndum hans þó svo að hugmyndir has væru stundum svolítið í jaðrinum, en þannig næst oftlega árangur.

gunnar-redneck

Margir keppendur, aðallega í rally og rallycross, hafa fengið að njóta leiðsagnar og hjálpar hans, sem sést best á umsögnum og sögum sem komið hafa fram undanfarna daga á facebook og samfélagsmiðlum.

Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar hefur misst góðan félaga, sem starfaði mikið, bæði í sjálfboðavinnu á akstursíþróttasvæði þeirra við Krýsuvíkurveg, sem og í stjórn félagsins.

Látunum var ekki fyrir að fara hjá Gunnari, tekist á við vandamálin af rósemi og festu.  Þegar hins vegar var komið í keppni, þá fór rósemin veg allrar veraldar - Sigur með stórum staf var það sem sóst var eftir, enda sést það á Íslandsmeistaratitlum hans.

Ég þykist viss um að Gunnar og hinn hæsti höfuðsmiður séu nú að ræða hvernig gera megi smíðina betri eða hönnunina skilvirkari.

Akstursíþróttasamband Íslands sendir fjölskyldu Gunnars og vinum sínar innilegustu samúðarkveðjur.  Megi minning hans lifa með okkur um ókomin ár.

Fyrir hönd Akstursíþróttasambands Íslands

Tryggvi M. Þórðarson, formaður