Fundir með keppendum um öryggisbúrareglur AKÍS

16.1.2020

Þann 14. janúar 2020 var haldinn í sal ÍSÍ fundur með keppendum og áhugamönnum um akstursíþróttir um nýþýddar öryggisbúrareglur í akstursíþróttum.

Fundinn sóttu um áttatíu manns og í framhaldi af framsögu formanns um málið spunnust fjörugar og málefnalegar umræður út frá þeim spurningum sem fram komu.

Kynninguna sem stjórn AKÍS var með er hægt að nálgast hér, en nauðsyn er að draga saman það helsta sem kom fram á fundinum.

Markmið með þýðingu reglnanna er að bæta öryggi keppenda. Í framhaldi af því þarf að taka upp nýtt vinnulag við úttekt öryggisbúra.

Í ljós kom að ekki eru til nákvæmar og öruggar heimildir um ástand öryggisbúra í keppnistækjum hérlendis og ákvað stjórn AKÍS því að ráðast í það að gera úttekt á öryggisbúrum í öllum keppnistækjum.  Tímaáætlun hefur verið sett fram þannig að skráningu allra öryggisbúra verði lokið fyrir upphaf eiginlegs keppnistímabils í ár.

AKÍS hefur nú opnað fyrir skráningu á skoðun öryggisbúra.

FIA hefur nýlega gefið akstursíþróttasamböndum heimild til að gefa út svokallaðar lands gerðarvottanir.  Þannig að þessi úttekt öryggisbúranna er liður í því að slíkt komist á hérlendis.

Meginniðurstöður

  • Öll öryggisbúr sem smíðuð verða hér eftir verða gerð í samræmi við Viðauka J kafla 253.8 í Reglubókinni. 
  • Þau keppnistæki sem hafa FIA gerðarvottuð öryggisbúr þurfa ekki að breyta neinu, enda séu festingar og uppsetning í keppnistækinu í samræmi við gerðarvottunina.
  • Öryggisbúr þurfa að hafa gluggastífur samanber grein 8.3.2.1.4 fyrir keppnistímabilið 2020
  • Öryggisbúr smíðuð hér á landi sem uppfylla ekki kröfur um
    • kross í aðalboga
    • kross/stífur í þak
    • Áfellur

fá frest til að laga það til 1. maí 2021. Tíma þennan mun AKÍS nota til þess að skoða hvað hefur verið gert í öðrum löndum í kringum okkur í þessum efnum og áskilur AKÍS sér rétt til að breyta undanþágum til samræmis við útkomu þeirrar skoðunar og framlengja frest ef ástæða þykir.

  • Stjórn AKÍS mun skoða kröfur um styrk og búnað öryggisbúra í samvinnu við fagaðila fyrir hverja keppnisgrein og út frá því hvort breyta megi kröfum í einstökum keppnisflokkum.

Þannig er ljóst að á þessu ári geta öll keppnistæki sem kepptu á síðasta ári áfram verið með í ár með lágmarks tilkostnaði.

Fundur er áætlaður hjá Bílaklúbbi Akureyrar sunnudaginn 19. janúar 2020 kl. 16:00 og vonumst við til að sjá sem flesta þar.