Dómaranámskeið í torfæru

3.9.2018

Þann 9. ágúst síðastliðinn hélt BA fjögra tíma dómaranámskeið í torfæru með ellefu þátttakendum. Leiðbeinandi var Jóhann Björgvinsson sem er einhver reyndasti torfærudómari landsins og kennari að atvinnu.

 

Á námskeiðinu var byrjað á að fara yfir helstu keppnisreglur í torfæru, stigareglur og refsingar. Ljóst er að áhugi viðstaddra var mikill og allir tóku virkan þátt í umræðunum. Þá var einnig farið yfir helstu matskenndu reglur og mikilvægi þess að setja sér nokkuð samræmdar reglur um hvernig skuli meðhöndla þær og dæma eftir þeim, til dæmis hversu lengi þarf að stoppa til að refsað sé fyrir það.

Í lokin þreyttu nemendur lokaverkefni. Fyrst var spurt út í reglur og dóma og að lokum horfðu þau á tvö myndskeið (sami bíll í tveimur mismunandi brautum í Stapafelli) og átti hver og einn að dæma refsingar eftir þeim myndskeiðum.

Útkoma úr verkefnum kom mjög vel út og allir leystir út með skírteinum til staðfestingar þess að hafa lokið dómaranámskeiði i torfæru.