Breytingar á tollum á keppnistækjum

29.10.2025

Í minnisblaði Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dagsettu 17.10.2025 síðast liðin eru settar fram tillögur að breytingum á lögum, meðal annars lögum nr. 29/1993 um vörugjöld af ökutækjum. 

Skemmst er frá því að segja að í tillögunum er að finna afnám sérstakrar undanþágu á vörugjaldi fyrir keppnisbifreiðar til notkunar við æfingar og keppni í akstursíþróttum en undanþága þessi hefur verið í gildi frá árinu 1999. 

Hér eru uppi áform um að afnema heimild sem að hefur verið mikilvæg íslenskum akstursíþróttum á þriðja áratug. Við tilkomu þessara undanþágu auðveldaðist innflutningur keppnistækja og nauðsynleg endurnýjun átti sér stað á keppnistækjaflotanum. 

Verði þessi breyting að veruleika þá mun það hafa verulega slæm áhrif á akstursíþróttahreyfinguna og hamla mjög framþróun íþróttanna. Við innan hreyfingarinnar getum ekki stundað okkar íþrótt án þessara tækja og gjaldtaka sem þessi kemur því illa við okkar félagsmenn. 

AKÍS og ÍSÍ hafa sent inn umsagnir þar sem að þessum áformum er mótmælt kröftuglega. Að sama skapi hefur verið leitað eftir stuðningi aðildarfélaga, héraðssambanda og annarra hagsmunaaðila. 

Umsögn AKÍS

Umsögn ÍSÍ

Að þessu sögðu þykir Stjórn AKÍS rétt að útskýra nokkra hluti og leiðrétta ákveðinn misskilning sem að viðraður hefur verið á samfélagsmiðlum af fámennum hópi manna sem sett hafa fram fullyrðingar sem eiga ekki við nein rök að styðjast. Með von um að leiðrétta rangfærslur má nefna hér nokkrar staðreyndir í þessu samhengi.

AKÍS hefur það hlutverk að veita umsagnir um keppnistæki sem að flutt eru til landsins á grundvelli undanþágu í l.-lið, 4.gr. laga 29/1993. Sambandið hefur sinnt þessari skyldu sinni lögum samkvæmt eftir bestu vitund og með það að markmiði að fjölga keppnistækjum í íþróttinni. Keppnistæki geta verið af ýmsum gerðum og útbúnaður þeirra mismunandi eftir þeim fjölmörgu mismunandi keppnisgreinum sem að undir sambandið heyra. Í dag eru til dæmi um fjöldaframleiddar bifreiðar sem að sérstaklega eru útbúnar til keppni en uppfylla einnig öll þau viðmið og kröfur sem að gerðar eru til ökutækja í almennri umferð. Þannig geta slík ökutæki ýmist verði flutt inn og skráð í almenna notkun eða sem keppnistæki með þeim kvöðum sem að því fylgir. 

AKÍS hefur verið í samskiptum við Samgöngustofu og Skattinn en þess samskipti hafa eftir atvikum falist í útskýringum sambandsins við fyrirspurnum þessara stofnanna. Ekkert erindi hefur borist inn á borð sambandsins þar sem að stofnanir þessar lýsa óánægju sinni með vinnubrögð AKÍS. Formaður AKÍS ásamt lögmanni sambandsins sátu fund með tæknideild Samgöngustofu þann 12.9.2025 þar sem að fulltrúar stofnunarinnar fengu tækifæri til að koma því að framfæri væru þeir ósattir að einhverju leyti en svo var ekki. 

Ekki hafa verið gerðar athugasemdir af hálfu Skattsins við umsagnir AKÍS. Formaður AKÍS óskaði eftir fundi með fulltrúum Skattsins í lok ágúst síðastliðinn til þess að ræða innflutning keppnistækja almennt og ætlaði fulltrúi Skattsins að finna tíma fyrir fund en það hefur ekki tekist enn. Má því ætla að engin megn óánægja sé ríkjandi innan þeirrar ágætu stofnunar.

AKÍS er ekki kunnugt um að nokkurt keppnistæki hafi verið flutt til landsins með undanþágu á vörugjöldum, án þess að umsögn AKÍS hafi legið fyrir eins og lög gera ráð fyrir. Séu slík tilfelli hefur lögum ekki verið fylgt sem er í eðli sínu alvarlegt. 

AKÍS er ekki kunnugt um að eigandi og innflytjandi nokkurs keppnistækis hafi verið „þvingaður“ til þess að breyta skráningu keppnistækis í ökutækjaskrá í almenna notkun. AKÍS er hins vegar kunnugt um að eigandi keppnistækis hafi óskað eftir því að breyta skráningu keppnistækis í ökutækjaskrá í almenna notkun. Að loknu uppgjöri á vörugjöldum og afléttingu ákvílandi kvaðar vegna þeirra var breyting heimiluð. 

Hinn fámenni hópur manna er viðrar skoðanir sínar á samfélagsmiðlum hefur ekki sett sig í samband við AKÍS né formann AKÍS með formlegum hætti til að reifa mál sitt. Hið rétta er að formaður AKÍS setti sig í samband við einn mannanna og reyndi án árangurs að útskýra umsagnarferli í þessum málum, án tilætlaðs árangurs. 

Í skrifum áðurnefnds fámenna hóps á samfélagsmiðlum hefur AKÍS verið sakað um að taka þátt í svindli eins og það er nefnt en þarna eru í raun ásakanir um þátttöku í lögbroti. Situr stjórn AKÍS ásamt starfmanni sambandsins undir þessum órökstuddu, tilhæfulausu ásökunum ásamt nafngreindum félagsmönnum og stjórn akstursíþróttafélags en við það verður ekki unað.

Nú sem endranær þurfum við að standa saman sem sterk heild og verja hagsmuni akstursíþróttafólks. Niðurrifsstarfsemi í formi ósannra fullyrðinga eru engum til framdráttar, hvorki okkar góðu hreyfingu né þeim sem þær fram setja.