Breytingar á skattlagningu ökutækja

30.8.2018

 

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sent frá sér drög að skýrslu starfshóps um endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis.

AKÍS fagnar hugmyndum og umræðu um skattlagningu ökutækja og eldsneytis og er jafnframt ljóst að vandi er að uppfylla öll meginmarkmiðin á sama tíma.

AKÍS hefur mikla trú á að rafmagnsbílar og tengitvinnbílar verði æ stærri hluti bílaflotans og tekur raunar virkan þátt í þeirri þróun með því að halda síðar á þessu ári eina umferð í eRally meistarakeppni FIA, sem er nákvæmnisakstur rafbíla.

Vörugjald á ökutæki - undanþágur

Í fjórða kafla skýrslunnar, Innlend skattlagning, grein 4.1.1 eru greindir þeir flokkar og þær undanþágur sem eru við lýði í dag.  Í undanþáguflokk A með 0% fast gjaldhlutfall falla keppnistæki í akstursíþróttum, en í lið l) segir:

l) Sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og keppnisbifhjól sem eru skráð sem slík og einungis notuð í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna, svo og til aksturs til og frá slíkum atburðum. Gert er ráð fyrir að skráningarmerki bifreiðanna og bifhjólanna séu auðkennd sérstaklega og ráðherra setji nánari reglur um gerð og útbúnað þeirra, svo og til hvaða atburða akstursheimildin taki. Sé brotið í bága við þær reglur skal vörugjald innheimt að fullu.

AKÍS vill minna á að akstursíþróttir eiga stöðugt undir högg að sækja, með aukinni samkeppni frá tölvuleikjum og öðrum afþreyingarmiðlum.

Keppnistæki eru almennt ekki að slíta íslenska vegakerfinu. Þau eru aðallega nýtt utan hins hefðbundna samgöngukerfisins, þar sem þær eru stundaðar á afmörkuðum svæðum. Kostnaður við innflutning á keppnisbílum og íhlutum er ærinn og erfitt að ímynda sér annað en hækkun þeirra gjalda skili sér í færri keppendum.

Í kaflanum 6.3 Skattlagning öflunar ökutækja, er rætt um hvaða sjónarmið ættu að ráða ferðinni við endurskoðun á skattlagningu öflunar ökutækja.  Þar stendur í tölulið f):

  1. f) Til einföldunar, með markmið um skilvirkni í huga og til að treysta hvata til samdráttar losunar koltvísýrings væri rétt að afnema undanþágur og ívilnanir sem eigendur ökutækja sem nýtt eru í þágu almannaheilla, í þágu fatlaðs fólks og til akstursíþrótta frá skattlagningu öflunar ökutækja. Í þeirra stað ætti að taka upp beinan fjárstyrk, annað hvort í gegnum almannatryggingakerfið eða með beinum fjárframlögum í ríkissjóði.

Á engan máta getur þessi tillaga talist skilvirkari en núverandi framkvæmd, hvorki fyrir þann sem vill stunda akstursíþróttir, né stjórnvöld.  Í heildina er flækjustig aukið og ekki vitað hver endurgreiðslan verður og því ráðast aðilar í innflutning á keppnistækjum sem allsendis er óvíst hvernig skattlagningu mun háttað.  Það stuðlaði ekki að bættri aðstöðu akstursíþrótta.

Þó svo að upphæðir þær sem um ræðir séu ekki stórar þegar litið er til heildarniðurstöðu fjárlaga fyrir hvert ár, þá telur AKÍS verulega hættu á því að dregið verði úr fjárveitingum til þessa er fram líða stundir.

Benda verður á að með þessari breytingu þá þurfa keppendur að greiða innflutningsgjöld og standa straum af kostnaði við það að “lána” ríkissjóði peningana áður en þeir fá (kannski) endurgreitt frá ríkissjóði.  Keppendur þurfa einnig að leggja út í þann kostnað að gera kröfu á endurgreiðslu á innflutningsgjöldum vegna keppnistækis og þá þarf ríkissjóður einnig að vera með starfsmenn sem taka þær kröfur til afgreiðslu.

Ekki er séð hvernig sú aukna vinna sem fellur á keppendur og ríkið geti verið talið skilvirkara en kerfi það sem er við lýði nú.

Það er einlæg skoðun AKÍS að ekki beri að hrófla við því að keppnisbifreiðar beri engin gjöld og leggur því eftirfarandi til:

Öflun ökutækja til hreinna akstursíþróttanota ber að undanþiggja skattlagningu.

Stjórn AKÍS hefur fullan hug á að vinna með björgunarsveitum og samtökum fatlaðra með það að markmiði að þessar breytingar á skattlagningu verði ekki að veruleika.