Birgitta Hrund Kristinsdóttir: Aldrei tæpt!

9.7.2018

Við keyrum á kjörorðinu: Aldrei tæpt!

Birgitta Hrund Kristinsdóttir er liðstjóri Volvo Rally Team og heldur þar um þræðina þegar kemur að skipulaginu.  Þess á milli starfar hún hjá Neyðarlínunni, svarar þegar hringt er í 112.

Hún segir að hjá Volvo Rally Team sé gleðin í fyrirrúmi og liðið nái mjög vel saman.

Hver er Birgitta Hrund Kristinsdóttir?

Ég er fædd 12. febrúar 1988 og ólst upp undir Eyjafjöllum á búi foreldra minna sem þar bjuggu með kýr og gera reyndar enn. Fyrstu ár ævinnar stundaði ég landbúnaðarstörf, hugsaði um dýr, vann á dráttarvélum, við heyskap og allt þetta sem fylgir.  Svo færði ég mig um set. Útskrifaðist sem Tækniteiknari, en í dag starfa ég hjá Neyðarlínunni. Mitt verkefni er að svara í símann hjá 112 og veita þá aðstoð sem hægt er, leiðbeina og kalla til það sem þarf hverju sinni. Fyrir það starf fær maður markvissa þjálfun, bæði í að þekkja landið og aðstæður víðs vegar og auðvitað að bregðast við því sem upp kemur og leiðbeina fólki við þau viðfangsefni sem upp geta komið.  

Ég á kærasta og hef búið á Höfuðborgarsvæðinu síðastliðin ár.  Verð þó alltaf sveitastelpa inn við beinið.

 

Hvenær byrjaðir þú að taka þátt í akstursíþróttum?

Ég byrjaði sem liðstjóri með Volvo Rally Team í Rallý Reykjavík 2015, þegar Kela (Arnkel Arason), ökumann liðsins, vantaði frekari hjálp að koma liðinu af stað.  

 

Hvað varð til þess að þú fórst inn á þann vettvang og hvernig hefur gengið?

Ég er ofboðslega mikil pabbastelpa. Hann og bræður mínir eru þungt haldnir af bíladellu. Alltaf verið að gera við á þeim bænum og ætli hver þeirra eigi ekki a.m.k. þrjá bíla.  Svo alveg frá því að ég var pínulítil hef ég verið rosalega mikið í kringum allt bíla og aksturstengt. Ég fór t.d. alltaf með pabba á torfæruna og horfði á formúluna á sunnudagsmorgnum á RÚV.

Við erum fjögur systkinin, ég er eina stelpan.  Ég er ansi hrædd um að það hafi aldrei verið neitt sérlega miklar líkurnar á að ég yrði dömulegasta stelpan, ef svo má segja.

Liðinu hefur gengið þokkalega. Við erum fá en það er samt rosalega gaman hjá okkur. Gleðin er aðalatriðið og við náum mjög vel saman. Keli er potturinn og pannan í liðinu. Við Raggi erum hins vegar vinnufélagar hjá Neyðarlínunni og þekkjumst í gegn um þann vettvang.  Utan við keppnir höfum við töluverð samskipti, ferðumst saman og erum miklir vinir.

Við verðum betri með hverri keppni, en okkar helsti óvinur hefur verið blessaður bíllinn. Eins mikið og við elskum Vollann á hann til að bila eins og aðrir bílar. Yfirleitt er það hann sem er búinn á því og tilbúinn að gefast upp langt á undan okkur. Bara ef það væru fleiri hendur til að hjálpa honum blessuðum og fleiri mínútur í sólarhringnum til að koma öllu í verk.

 

Hvað gerir liðsstjóri?  Fyrir keppni? Á meðan á keppni stendur?  Eftir keppni?

Sem liðsstjóri sé ég um mikið af skipulaginu í kringum keppnirnar. Ég reyni að kortleggja hvað við þurfum að hafa með okkur, hverjir þurfa að vera á staðnum, hvar allir þurfa að vera og hver gerir hvað. Einnig fylgist ég með tímunum og reyni að hjálpa með bílinn ef tækifæri gefst. Það fer þó ekkert á milli mála að skipulagið er mín sterkari hlið, ekki bifvélavirkjunin.  Það hefur gerst að ég fari með í leiðaskoðun og aðstoði við að vinna nótur, oftast sér samt áhöfnin um það. Á keppnisdögum þeysi ég yfirleitt um með verkfæri til að taka á móti áhöfninni út af sérleiðum. Gott og vel, ég þekki þessi verkfæri ekki endilega öll í sundur en það er sem betur fer ekki alltaf nauðsynlegt. Það eru aðrir í því.

 

Hvernig skiptið þið verkum í rallýliðinu ykkar?  Hver gerir hvað?

Auðvitað hjálpast allir að.  Það þurfa allir að vera tilbúnir að hjálpa áhöfninni að laga það sem getur skemmst eða bilað í keppni og ég reyni að fylgjast með hvað þarf að gera. Reyni líka að halda utan um samskipti á milli áhafnar og bifvélavirkja svo að allt geti verið tilbúið og allar nauðsynlegar lagfæringar klárist á sem skemmstum tíma.  Ég reyni að hafa yfirsýnina svo öll púslin endi á réttum stað.

 

Hvernig undirbýrðu þig fyrir keppnir?  Ertu hjátrúarfull, áttu lukkugripi eða þess háttar?  

Ég get nú ekki sagt að ég sé hjátrúafull.  Fyrir utan undirbúninginn hvað varðar skipulagið og fyrr er lýst, hef ég líka  titlað mig sem nestisstjóra. Ég reyni að sjá til þess að allir séu vel nærðir og tilbúnir að takast á við áskoranir dagsins.

 

Hverjir eru þínir helstu styrkleikar sem akstursíþróttamaður?  Í hverju ertu best?

Skipulagið er minn styrkleiki númer eitt, tvö og þrjú. Endalaus Excelskjöl og allt á sínum stað.

 

Hvað finnst þér erfiðast?  Í hverju felast mestu áskoranirnar fyrir þig persónulega?

Helsti skellurinn er að þurfa alltaf að vakna svona eldsnemma. Svo er ég ennþá að læra á þetta hvernig keppnin virkar, reglur og svoleiðis.

 

Hvað finnst þér skemmtilegast / leiðilegast að gera sem snýr að sportinu?

Helsta fjörið er að fá að horfa á kappaksturinn, ég hugsa að flestir séu sammála mér hvað það varðar. Leiðilegast er auðvitað að detta út.

 

Hefurðu einhvern tímann orðið hrædd í tengslum við mótorsportið?

Já, smá. Var erlendis í fríi þegar ein keppnin stóð yfir, en fékk ég þá skilaboð með myndbandi af bílnum að fara í svakalega veltu í einni beygjunni. Fyrsta skipti sem ég komst ekki með á keppnisstað og þá gerist eitthvað svona, það gefur augaleið að það er engin tilviljun...

 

Ertu bílhrædd?

Ekki svona hversdagslega, en það er samt alveg ástæða fyrir því að ég hef ekki fengist til að prufa að taka við sæti aðstoðarökumanns.  Er t.d. ekki mikið fyrir tívolítæki og þess háttar. Ég held líka að það sé ekki sérlega mikið gagn af coara sem heldur sér í með lokuð augun.

 

Hefur eitthvað komið þér á óvart í sportinu eftir að þú fórst að taka þátt?

Mér finnst skemmtilegt að sjá hvað allir eru tilbúnir að hjálpast að þótt þeir séu að keppa á móti hvort öðrum.

 

Hvernig finnst þér viðhorfið almennt vera hjá fólki til mótorsports og til þeirra sem það stunda?

Mér finnst fólk almennt hafa gott viðhorf gagnvart mótorsporti og þeim sem stunda það og verð ekki vör við neina fordóma í þeim efnum.  Ég vona bara að liðum og áhorfendum fari fjölgandi á komandi árum.

 

Hvað er það skrautlegasta sem þú hefur lent í, í tengslum við sportið, í keppni og þ.h.?

Við fórum af stað í eina keppnina með bílinn ógangfæran. Minnir að það hafi verið í Suðurnesjarallinu í fyrra, 2017.   

Bíllinn var bara dreginn á keppnisstað í von um að það væri hægt að koma honum í gang fyrir ræsingu. Heppilega rauk hann í gang, bókstaflega nokkrum sekúndum áður en keppnin var ræst!

Við eigum það alveg til í Volvo Rally Team að vera á síðustu stundu. Keyrum samt aðeins á kjöroðinu ,,Aldrei tæpt“  sem er smá grín, en ókey – það getur stundum verið vafamál.

 

FIA – Alþjóðaaksturssambandið er nú með sérstakt verkefni í gangi sem miðar að því að kynna og auka hlut kvenna í akstursíþróttum.  Hvernig hefur þín upplifun verið í akstursíþróttum á Íslandi? Finnst þér konur eiga með einhverjum hætti erfiðara uppdráttar í sportinu? Eru einhverjar sérstakar hindranir og ef svo er hvernig mætti vinna á þeim?

Upplifun mín af ralli hefur verið góð í alla staði. Það kemur fólki yfirleitt skemmtilega á óvart að frétta að ég sé hluti af rall liði. Mér finnst það skipta litlu máli hvort maður er strákur eða stelpa í þessu, en kynjahlutfallið fer ekkert á milli mála. Stelpum í sportinu hefur þó verið að fjölga síðustu ár, svo þetta er allt á réttri leið. Hvað varðar hindranir að þá held ég að þær séu nú ekki eitthvað sérlega kynjabundnar, frekar bara þær að þetta getur verið dýrt sport.  Það getur kannski verið erfitt að byrja ef maður þekkir ekki fólk til að taka þátt í þessu með manni. Kannski þarf líka að kynna betur fyrir fólki að það er hægt að taka þátt á marga vegu. Maður þarf ekki endilega að eiga bíl og búa undir húddinu á honum allar helgar, svartur á höndunum. Það er svo margt sem þarf að gera í kring um sportið. Verkefni fyrir alla sem vilja vera með.

 

Áttu einhver ráð fyrir fólk sem hefur áhuga á mótorsporti en hefur ekki enn slegist í hópinn, og þá ekki síst verðandi akstursíþróttakonur?

Eins og ég nefndi fyrir ofan að þá er helsta hindrunin kannski sú að maður þekkir ekki fólk til að taka þátt. Það er hægt að finna flest öll Rallý liðin á samfélagsmiðlum og þætti mér afskaplega ósennilegt að einhver þeirra segðu nei ef nýtt fólk vildi rétta hjálparhönd.

 

Sturluð staðreynd - Hvað er það sem íslenska rallýfjölskyldan vildi vita en veit ekki um Birgittu Hrund?

Ha, ha, hvernig á ég að svara þessu?  Hmm… ég hef unnið við sauma og hef mjög gaman af. Ætli ég sé bara ekki mögulega færasta saumakona landsins!

 

Áttu önnur áhugamál en mótorsport?  Hver þá? Hefur þú keppt í fleiri íþróttagreinum?

Ég er mikill lestrarhestur og hef mjög gaman að gömlum íslenskum sögum. Sögur sem sýna hvernig lífið var í landinu fyrir löngu síðan.  Kannski býr í mér smá sagnfræðingur sem á eftir að hleypa út – hver veit?

Sem barn tók ég þátt í frjálsum íþróttum en hef nú ekki beint viðhaldið því, stunda bara líkamsrækt og hef haft þokkalega gaman að því.

 

Hvað er framundan hjá þér og þínum?

Ég er að koma til starfa eftir sumarleyfi. Veit ekki alveg hvað er framundan, pottþétt eitthvað spennandi. Það kemur í ljós.

 

Eitthvað að lokum?

Mæli með að fólk prófi að vera með, það er mjög gaman að fá að vera partur af þessu. Næsta rall er á Sauðárkróki nú í lok júlí.