Agamál á Bíladögum á Akureyri

23.6.2016

Dagana 15. til 18. júní síðastlinn voru Bíladagar á Akureyri. Bíladagar er viðburður þar sem áhugafólk um bifreiðar og akstursíþróttir koma saman og skemmta sér og sínum og hafa verið haldnir á Akureyri í rúm 20 ár.

sandur1

Á síðustu árum hefur borið á því að næturró Akureyringa sé raskað vegna þess að verið er að reykspóla með tilheyrandi hávaða og látum, sérstaklega á og í kringum hringtorg bæjarins. Bæði Bílaklúbbur Akureyrar (BA) og Akstursíþróttasamband Íslands (AKÍS) hafa reynt að stemma stigu við þessari hegðan og reynt að koma þessum akstri inná skipulögð akstursíþróttasvæði, þar sem fyllsta öryggis er gætt.

Komin er frábær aðstaða fyrir öruggar keppnir og æfingar í drifti og fleiri akstursíþróttum á svæði BA. Fengin var sérstök heimild til að hafa svæði BA opið lengur en venjulega til að keppendur geti reynt bíla sína.

AKÍS og BA harma að þrátt fyrir þessa viðleitni tóku fjölmargir einstaklingar sig til og sýndu vítaverða hegðun, með því að hringspóla á götum Akureyrar að næturlagi. Slíkur akstur er hættulegur vegfarendum og mikið ónæði fyrir íbúa í nærliggjandi húsum.

Það er ljóst að hegðan þessara einstaklinga hefur mikil áhrif á það hvort bæjar- og löggæsluyfirvöld á Akureyri muni heimila Bíladaga í framtíðinni.

AKÍS hefur ákveðið að vísa málum þeirra keppenda sem staðfest er að hafi tekið þátt í þessu framferði til Aganefndar AKÍS til úrskurðar, vegna þess skaða sem viðkomandi hafa ollið íþróttinni.

AKÍS, BA og í raun öll akstursíþróttafélög á landinu vilja fullvissa bæjar- og löggæsluyfirvöld landsins um að þau munu vinna með þeim að útrýma hraðakstri af götunum og koma inná sérstök svæði ætluðum til akstursíþrótta sem hafa leyfi lögreglu og eru undir eftirliti starfsmanna með þekkingu og reynslu. Öryggi allra er í húfi.