Team Spark er kappaksturslið Háskóla Íslands sem í vetur hefur hannað og smíðað rafknúinn kappakstursbíl fyrir stærstu alþjóðlegu verkfræðinemakeppni í heimi, Formula Student. Mun Team Spark keppa á hinni frægu Silverstone-braut í Bretlandi í sumar og svo í fyrsta sinn einnig á Ítalíu. Þetta er í fimmta sinn sem Team Spark heldur út með bíl á keppnina en liðinu hefur farið mikið fram á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan það hóf þátttöku í keppninni.
Myndir ©Kristinn Ingvarsson
Það er Akstursíþróttasambandi Íslands sönn ánægja að sjá lið frá íslenskum háskóla taka þátt í Formula Student keppninni. Keppnin á rætur að rekja aftur til ársins 1981 er Society of Automotive Engineers (SAE) í Bandaríkjunum hélt slíka keppni fyrst. Frá því 1998 hefur keppnin verið haldin í Englandi í sameiginlegri umsjón SAE og IMechE (Institution of Mechanical Engineers). Nú er svo að áætlanir gera ráð fyrir að árlega komi saman kringum 140 skólalið til keppni þar, en einnig eru haldnar minni keppnir um heiminn samkvæmt sömu reglum. Við umsjón á keppninni mætast svo almenni og keppnisbifreiðaiðnaðurinn ásamt akademíunni til að tryggja óvilhalla og heiðarlega keppni.
Þakkir eru færðar Háskóla Íslands fyrir það að gefa nemendum kost á því að vinna þetta sem verkefni innan skólans. Verkefnið er af þeim toga að það dregur allt saman í eitt, nýsköpun, hönnun, burðarþol, efnisöflun, framleiðslu, kynning, fjáröflun og verkefnastýring.
Bygging ökutækis sem þessa og innan tímamarkanna sem sett eru, krefst samheldni og allir rói í sömu átt í takt.
Akstursíþróttasamband Íslands ákváð að fá steinsmiðinn og listamanninn Þór Sigmundsson til liðs við sig og meitlaði hann úr íslensku hrauni hugmynd sína að þverskurði gegnum rafhlöðu. Tenging við rafhlöðuna er svo sem auðsæ, en það að nota hraunið á einnig að minna okkur á að við þurfum að huga að umhverfi og náttúru, vernda þó um leið nýta án eyðileggingar. Þá á hraunið einnig að minna á nauðsyn jarðtengingar er ráðist er til verka og að undirstaðan þurfi ávallt að vera rétt og sterk.
Eitt hornið á plattanum er slétt og glansandi og til þess þurfti iðni og þolinmæði. Það er þarna til að minna á að iðni er nauðsynleg til að ná framförum, ekki aðeins í skóla heldur og í lífinu öllu.
Um leið og Tryggvi M Þórðarson, formaður AKÍS afhenti viðurkenninguna óskaði hann keppniliði TEAM SPARK alls hins besta í komandi Formula Student keppni á Silverstone brautinni um miðbik júlí næstkomandi.