Netkosning: Akstursíþróttafólk ársins 2020!

28.10.2020

Opnað hefur verið fyrir almenna netkosningu þar sem allir landsmenn geta greitt atkvæði einu sinni. Kosið er um þá keppendur sem keppnisráð hefur tilnefnt.

Netkosningu lýkur 7. nóvember 2020, tveimur vikum fyrir Formannafund AKÍS.

Athugið að aðeins tvö keppnisráð tilnefndu konu og bæði tilnefndu Heiðu Karen Fylkisdóttur. Af þessum sökum er því ekki kosið um konu að þessu sinni.

GREIÐA ATKVÆÐI

Tilnefningar keppnisráða til akstursíþróttafólks ársins 2020

Heiða Karen Fylkisdóttir - Rallycross - Konur

Heiða Karen Fylkisdóttir er 18 ára keppandi frá Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar.  Heiða Karen er alin upp í kring um akstursíþróttir og á ekki langt að sækja áhugann þar sem móðurafi hennar var einn af stofnendum Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur (BÍKR) og faðir hennar Fylkir A. Jónsson er formaður Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar (AÍH) og fyrrum Íslandsmeistari í rallý og rallýcrossi.

Heiða Karen hóf keppni í unglingaflokki í rallýcrossi 15 ára gömul, árið 2018. Árið 2020 færði hún sig um set í 1000 cc flokkinn og lýkur Íslandsmeistaramótinu þar í 10. sæti eftir hressilegra baráttu í sumar við marga frábæra ökumenn.  Í sumar tók Heiða Karen einnig þátt í Íslandsmeistaramótinu í rallý sem aðstoðarökumaður föður síns og var það hennar fyrsta keppnisreynsla í rallý.  Skemmst er frá því að segja að þó faðir hennar hafi áður hampað Íslandsmeistaratitli tókst honum nú með Heiðu Karen sem aðstoðarökumann, að vinna fyrstu keppni sína, eftir glæsilegan árangur í síðustu keppni ársins, við einstaklega krefjandi og erfiðar aðstæður.  Eru þau þar með búin að skrá nöfn sín á blöð íslenskrar akstursíþróttasögu sem fyrstu feðgin til að landa sigri í rallýkeppni hérlendis.

Heiða Karen lauk keppni á Íslandsmeistaramótinu í fimmta sæti í heildina af 33 keppendum en hún gerir margt fleira en að sitja um borð. Hún er liðtæk við að vinna í keppnistækjunum milli keppna, m.a. sprautaði hún rallýcrossbílinn sinn sjálf.  Þá er hún öflugur talsmaður akstursíþrótta með þátttöku í kynningum, á samfélagsmiðlum, hlaðvarpi og víðar.  Heiða Karen þekkir íþróttalífið úr fleiri áttum eftir áralanga þátttöku í dansíþróttum, m.a. á vettvangi landsliðsins í samkvæmisdönsum.  Hún gerir ríkar kröfur til sín og hefur keppnisskap og metnað til að gera sífellt betur. Hún er glaðlynd, jákvæð og alltaf tilbúin að leggja gott til.  Heiða Karen er afar efnilegur keppandi, góð fyrirmynd og á svo sannarlega heima í hópi kvenna sem hljóta tilnefningu sem akstursíþróttakona ársins 2020.

 

Vikar Karl Sigurjónsson - Rallycross - Karlar

Vikar Karl Sigurjónsson keppir undir merkjum Akstursíþróttafélags Hafnafjarðar (AÍH) og tekur virkan þátt í starfsemi þess félags, sem og akstursíþróttastarfi á Suðurnesjum þar sem hann er búsettur.  Vikar landaði bikar- og Íslandsmeistaratitli í 2000 flokki í rallýcossi eftir harða keppni í sumar.  Hann tók einnig þátt í tveimur rallýkeppnum.  

Vikar er eigandi og framkvæmdastjóri heilsu- og líkamsræktarstöðvarinnar Lífsstíls í Reykjanesbæ og stundar líkamsrækt og íþróttir af kappi. Í akstursíþróttum sem annars staðar er árangur nátengdur líkamlegu og andlegu atgervi þar sem gott þrek og úthald gegna lykilhlutverki.

Sem keppandi og félagi hefur Vikar vakið sérstaka athygli fyrir jákvæða framkomu og gott viðmót. Hann er gleðigjafi, hugmyndaríkur og málefnalegur í umræðum. Þegar hann kom að fræðslu á unglinganámskeiði í akstursíþróttum sl. vetur lagði hann m.a. ríka áherslu á vináttu og liðsheild sem lýsir viðhorfum hans vel.

Vikar hefur haldið úti, ásamt liðsfélögum sínum, fjörlegri umfjöllun á samfélagsmiðlum í því skyni að vekja áhuga og athygli á liði sínu og akstursíþróttum í heild.

Með jákvæðri framgöngu, glaðværð og hreysti er Vikar Sigurjónsson öðru íþróttafólki góð hvatning og fyrirmynd og vel að því kominn að hljóta tilnefningu sem akstursíþróttamaður ársins 2020.

 

Jón Þór Hermannsson - Drift - Karlar

Jón Þór er 27 ára, ólærður (sjálflærður) bifvélafiktari, flest hans áhugamál snúast um bíla og/eða vélknúin tæki. Hann keppir í drifti og er í liðinu ADHD Racing.

Jón Þór byrjaði að keppa í drifti 2018 eftir að hafa fylgst mikið með drifti, bæði innan og utanlands. Hann hoppaði beint í djúpu laugina og keypti sér fullbúin driftbíl fyrir götubíla flokk.

Á fyrsta ári lenti hann í öðru sæti til Íslandsmeistara og hlaut titilinn nýliði ársins. Það ár endaði með því að hann sprengdi 6L LS mótorinn með tilheyrandi látum og eldhafi. hann keypti sér annan 6L LS mótor, samtímis var byggt veltibúr í bílinn.

2019 fór hann upp í opna flokkinn, þar sem keppendur keyra saman í braut, svokallað tandem drift. Þá hafði Jón ekki prufað tandem drift áður.

Fór það ekki á milli mála að hann vantaði örlítið uppá aflið til að halda í við aðra í þessum flokk.

2020 byrjaði hressilega, eins og gengur og gerist fór Jón með hjálpa liðsmanna í vélarbreytingar rétt fyrir fyrstu keppni ársins. Það hafði mikið að segja fyrir komandi keppnir þar sem hann gat loksins haldið í við fremri bíl þegar hann var að elta.

Með hjálp, æfingu og aðstoð frá liðsmönnum og vinum, stóð Jón uppi sem Íslandsmeistari í opnum flokk.

 

Jóhann Egilsson - Hringakstur - Karlar

Jóhann hefur tekið þátt í hringakstri í nokkur ár, fyrst í tímaati og nú í kappakstri. Tók hann þátt í öllum þremur Formula 1000 kappaksturskeppnum sumarsins og sigraði fjórar af sex kappaksturslotum tímabilsins og lenti í öðru sæti í tveimur. Jóhann tryggði sér með þessu Íslandsmeistaratitilinn í Formula 1000 árið 2020. Hann stundaði sportið af krafti og sýndi og sannaði að hann er verðugur fulltrúi íþróttarinnar. Hann talar máli akstursíþrótta víða og hefur dregið að áhorfendur og starfsfólk með kraftmikilli kynningu á þeirri grósku sem nú er í kappakstri á Íslandi.

Þá tók hann einnig þátt í Ísorka eRally Iceland, heimsmeistarakeppni FIA í nákvæmnisakstri rafbíla, og tókst þar að næla sér í annan Íslandsmeistaratitil. Hann náði fjórða sæti í heildar keppninni og stimplaði sig rækilega inn sem keppandi í þessari grein.

 

Ingólfur Guðvarðarson - Torfæra - Karlar

Ingólfur sýndi yfirburðar flottan og öruggan akstur í sumar.  Endaði hann allar keppnir á verðlaunapalli og náði Íslandsmeistaratitlinum.  Hann hefur náð miklum framförum og er farinn að þekkja bílinn hjá sér vel sem að skilaði sér augljóslega í sumar.

Ingólfur á einnig hrós skilið fyrir hjálpsemi sína og hvað hann er alltaf boðinn og búinn til að hjálpa mótherjum sínum þegar eitthvað vantar.

 

Valur Jóhann Vífilsson - Spyrna - Karlar

Valur Jóhann Vífilsson er fæddur 1956 og er búinn að vera félagi í Kvartmíluklúbbnum síðan 1980.

Valur hefur komið að starfsemi Kvartmíluklúbbsins frá þeim tíma sem hann hóf að keppa og komið að mörgum verkefnum í gegn um árin. Meðal annars hefur hann verið í stjórn klúbbsins.

Valur er ávallt tilbúinn aðstoða í starfi Kvartmíluklúbbsins þegar til hans er leitað.

Valur var sá fyrsti sem smíðaði og keppti á dragster á Íslandi. 

Á þessum 40 árum hefur Valur sett mörg met og unnið marga titla.

  • 1981 Street eliminator
  • 1992 Comp flokk
  • 1997 OF flokk
  • 1998 OF í sandi
  • 2000 OF flokkur
  • 2018-2020 OF sandur
  • 2020 OF flokkur.

Valur hefur ávallt verið til fyrimyndar sem keppandi og það eru ekki margir sem geta státað af svona færsælum og löngum ferli.

Í kvartmílu er nauðsynlegt að vera góður vélamaður og þar er Valur með fremstu mönnum. Valur er ávallt tilbúinn að aðstoða aðra keppendur ef þeir leita til hans og þar með að miðla af sinni reynslu. Það má segja að undanfarin ár hafi Valur verið í fremstu víglínu hvað árangur varðar og landað Íslandmeistaratitlum. 2020 toppar þó fyrri ár þar sem hann er bæði Íslandsmeistari í kvartmílu og sandspyrnu. Auk þess bætti hann Íslandsmetið í sandspyrnu og setti einnig hraðamet.

World Sand Drag News tilkynnti að Valur setti heimsmet í hraða þegar hann náði 3:04 í sandspyrnukeppni á Akureyri 2020.

 

Heiða Karen Fylkisdóttir - Rally - Konur

Heiða Karen Fylkisdóttir er 18 ára og keppti bæði í rallý og rallýcrossi á nýliðnu keppnistímabili. Hún var aðstoðarökumaður hjá föður sínum í fjórum af fimm rallýkeppnum ársins og enduðu þau í 5. sæti Íslandsmótsins.

Hæst bar sigur þeirra feðgina í Haustrallý BÍKR sem ekið var við mjög erfiðar og krefjandi aðstæður.

Eru þau þar með búin að skrá nöfn sín á blöð íslenskrar akstursíþróttasögu sem fyrstu feðgin til að landa sigri í rallýkeppni hérlendis.

Heiða Karen er mjög metnaðarfull og gerir ríkar kröfur til sín að gera sífellt betur, enda með mikið keppnisskap. Hún er liðtæk þegar kemur að viðhaldi keppnistækja milli móta og er auk þess öflugur talsmaður akstursíþrótta með þátttöku í kynningum, á samfélagsmiðlum, hlaðvarpi og víðar.

Hún er glaðlynd, jákvæð og alltaf tilbúin að leggja gott til. Heiða Karen er afar efnilegur keppandi, góð fyrirmynd og á svo sannarlega heima í hópi þeirra kvenna sem hljóta tilnefningu sem Akstursíþróttakona ársins 2020.

 

Ívar Örn Smárason - Rally - Karlar

Ívar Örn varð Íslandsmeistari ökumanna í AB-varahluta flokknum á nýloknu keppnistímabili.

Hann settist fyrst upp í rallýbíl sem aðstöðarökumaður í haustrallý 2011 og árið eftir var hann áfram í sæti aðstoðarökumanns. Næstu árin keppti hann ekki en var gjarnan í þjónustuliði annarra. Frá 2017 hefur Ívar tekið þátt í all nokkrum keppnum sem ökumaður og jók hraðann jafnt og þétt. Árið 2020 hefur Ívar blómstrað. Mætti hann í fjórar fyrstu keppnirnar og vann AB-varahluta flokkinn í þeim öllum nokkuð örugglega, enda dylst fáum að þar fer frábær ökumaður. Ívar Örn á einnig að baki 12 ára feril í rallýcrossi sem keppandi og aðstoðarmaður við keppnishald.

Ívar hefur vakið sérstaka athygli fyrir íþróttamannslega framkomu. Hann er hjálpsamur, duglegur og hvetjandi í garð keppenda og starfsfólks, og er þannig öðrum íþróttamönnum góð og jákvæð fyrirmynd.