Kosning til Aksturíþróttafólks Íslands 2021

27.10.2021

Opnað hefur verið fyrir almenna netkosningu, sem er hér fyrir neðan, þar sem allir landsmenn geta greitt atkvæði einu sinni. Kosið er um þá keppendur sem keppnisráð hefur tilnefnt.

Netkosningu lýkur 13. Nóvember 2021.

Einnig viljum við minna á Lokahóf AKÍS sem er haldið Laugardaginn 20. Nóvember. Frekari upplýsingar um það má finna hér.

Aksturíþróttakona Íslands 2021

Erika Eva Arnarsdóttir - tilnefnd fyrir rally

Erika er 18 ára, en hóf að keppa sem aðstoðarökumaður í rally strax 15 ára gömul. Hefur hún náð góðum árangri og sigraði hún t.a.m. í fyrstu umferðinni 2021 með Daníel Sigurðarsyni og var það hennar þriðji sigur á ferlinum.

Dags daglega stundar Erika nám á listabraut og starfar sem þjónn með skólanum, ásamt því að æfa box og keppa í rally. Þrátt fyrir ungan aldur brennur bensín í æðum Eriku og eru akstursíþróttir aðal áhugamálið. Stefnan er sett hátt og hefur hún í hyggju að reyna fyrir sér sem ökumaður strax á næsta ári.

Hápunktur keppnisársins hjá Eriku, og á sama tíma lágpunktur, var líklega að velta í keppni og finna á eigin skinni hversu góður öryggisbúnaðurinn er í keppnisbílnum. Þó að keppnin um Íslandsmeistaratitilinn hafi farið út um gluggann þá jókst bara metnaður og áhugi á íþróttinni við þessa byltu.

 

Ingunn Valgerður Theodórsdóttir - tilnefnd fyrir hringakstur

Keppnisráð í hringakstri tilnefnir Ingunni Valgerði Theodórsdóttur til akstursíþróttakonu ársins 2021. 

Ingunn stundaði tímaat af elju, mætti vel á æfingar og sýndi framfarir og áhuga allt tímabilið. Þá tók hún þátt í keppnum og stóð sig með ágætum.

 

Sigurbjörg Björgvinsdóttir - tilnefnd fyrir rallycross

Sigurbjörg Björgvinsdóttir er 22 ára Reykjavíkurmær. Sigurbjörg eða Bogga eins og hún er jafnan kölluð hóf keppni í Rallýcrossi seinnipart sumars 2019.  Bogga hefur verið að keppa í 2000cc flokki.

Ævintýrið byrjað þannig að Victori unnusta Boggu var boðinn Honda Civic Rallycrossbíll í einhverjum skiptum og hann ýtti því að Boggu hvort þetta væri eh sem henni fyndist spennandi,sem varð til þess að Hondan var græjuð og gerð klár í fyrstu keppni og eftir það var ekki aftur snúið. Svo kom Mazdan til sögunar fyrir tímabilið 2020 þar sem hún keppti á henni bæði 2020 sem og 2021. 

Sigurbjörg og Victor eru a skoða breytingar fyrir næsta tímabil og er það til skoðunnar að smíða bíl í vetur og mun Bogga mæta fersk til keppni árið 2022 og stefnir líklegast á að mæta í 1400cc flokkinn. Bogga hefur sýnt stöðuga framför og hefur hún margsinnis endað á verðlaunapalli. 

Sigurbjörg er góð fyrirmynd og hefur prúða og jákvæða framkomu og verið til fyrirmyndar bæði inni á brautinni sem utan. Sigurbjörg er fyrirmynd margra ungra stúlkna sem hafa áhuga á sportinu og hefur hún verið dugleg við að gefa af sér og hvetja stelpur til þess að hika ekki og koma og vera með. Sigurbjörg var meðal annars í forsvari fyrir “Stelpu kvöldi” þar sem stelpum var boðið á kynningu og spjall um Rallýcrossið til að auðvelda þeim aðkomu að sportinu. 

Sigurbjörg á svo sannarlega heima í hópi tilnefndra til Akstursíþróttakonu Ársins 2021.

 

Telma Rut Hafþórsdóttir - tilnefnd fyrir drift

Keppnisráðið í Drifti tilnefnir Telmu Rut Hafþórsdóttir til Akstursíþróttakonur ársins 2021. Telma er 25 ára bifvélavirki sem hefur haft áhuga á mótorsporti frá ungum aldri. Telma hefur verið aðstoðarliði í akstursíþróttum undanfarin ár en ákvað í ár myndi hún setjast í ökumannssætið. 

Hún keypti sér keppnisbíl í október 2020 sem var sjálfskiptur og gerði breytingar á honum svo hún gæti keppt á honum. Telma keppti í Drifti  á Lexus í minni götubílaflokki. Hún tók þátt í öllum umferðum í Íslandsmeistaramótinu og endaði í sjötta sæti af fimmtán keppendum sem tóku þátt í ár í þessum keppnisflokki.

 


Akstursíþróttamaður Íslands 2021

 

Arnar Elí Gunnarsson - tilnefndur fyrir rallycross

Keppnisráðið í Rallycross tilnefnir Arnar Elí Gunnarsson til Akstursíþróttamann ársins 2021.

Arnar byrjaði að keppa í Rallycrossi í lok sumars 2019 þar sem hann keppti í 1000cc flokknum.  Arnar Elí er einn af þremur ökumönnum sem keppa undir Team Kraftflutningar í Rallycrossinu.

Arnar Elí hefur sýnt gríðarlega framför með hverri keppni  og er hann bæði Íslands-og Bikarmeistari 2021. Þess má geta að Arnar var á verðlaunapalli í öllum keppnum sumarsins. Arnar er góð fyrirmynd og hefur prúða og jákvæða framkomu og verið til fyrirmyndar bæði inn á brautinni sem utan. 

Nú er aygo ævintýrið á enda hjá Arnari og kveður hann þar með 1000cc flokkinn og er stefnan er sett á 4x4 flokkinn þar sem hann hefur fest kaup á Subaru sem verður smíðaður í vetur og verður gaman að sjá hann í öðrum flokki og sýna hvað í sér býr. 

Arnar Elí hefur verið lengi í kringum motorsport, þar á meðal service í torfæru í nokkur ár og eitthvað í kringum götuspyrnu og sandspyrnu, einnig tók hann þátt í sinni fyrstu torfærukeppni á Hellu árið 2017.

Arnar Elí á svo sannarlega heima í hópi tilnefndar til Akstursíþróttamanns Ársins 2021

 

Daníel Jökull Valdimarsson - tilnefndur fyrir rally og rallycross

Stjórn AKÍS tilnefnir Daníel Jökull Valdimarsson til Akstursíþróttamanns ársins 2021.

Daníel er ungur efnilegur ökumaður aðeins 15 ára gamall. Hann varð á sínu fyrsta ári Íslandsmeistari aðstoðarökumanna í AB varahlutaflokknum í Rally og því yngsti Íslandsmeistari í 53 ára sögu Rally á Íslandi. Hann sigraði Rally Reykjavík sem var alþjóðlegt rall og fékk verðlaunin maður rallsins. Daníel keppti í tveimur keppnisgreinum í ár Rally og RallycrossiHann varð í þriðja sæti til Íslandsmeistara í unglingaflokki Rallycrossi. Daníel hefur mikinn metnað fyrir sportinu nýtir tíman á milli keppna til þessa að æfa sig. 

Daníel er fyrirmynd fyrir unga krakka í dag og hefur farið í heimsókn í skóla til að kynna sportið og sagt frá sínum árgangi. Hann hefur sýnt framúrskarandi framkomu gagnvart keppendum, keppnishöldurum og öðru starfsfólki. Þakkar alltaf fyrir sig og er alltaf kurteis.

 

Fabian Dorozinski - tilnefndur fyrir drift

Keppnisráði í Drifti tilnefnir Fabian Dorozinski til Akstursíþróttamanns ársins 2021. 

Fabian hefur haft mikinn áhuga á Drift síðan hann var mjög lítill. Hann byrjaði að fylgjast með driftkeppnum frá 10 ára aldri.  Fabian fékk sinn fyrsta Drift bíl 16 ára gamal og hann var búin að ákvað að hann myndi taka þátt í Íslandsmeistaramótinu í Drifti þetta árið. Hann fékk bílprófið tveimur dögum áður en fyrsta umferðin átti að hefjast og ákvað um leið og það var komið í hús að mæta á sína fyrstu æfingu svo hann gæti tekið þátt daginn eftir. 

Fabian sigraði þrjár umferðir af fjórum og hans fyrsti sigur var akkurat með tveggja daga gamalt ökuskírteini. Fabian varð Íslandsmeistari í minni götubílaflokki í Drif og náði hæðsta skori af öllum keppendum í Drifti. Hann ákvað að prufa að taka þátt einnig í Burnout á Bíladögum á Akureyri  og náði þar öðru sæti.

 

Ingólfur Arnarsson - tilnefndur fyrir spyrnur

Spyrnuráð tilnefnir Ingólfur Arnarsson til Akstursíþróttamann ársins 2021. 

Ingólfur varð á árinu 2021 íslandsmeistari í OF flokki í spyrnu. Þá setti hann á árinu öll brautarmet á vélknúnu ökutæki á Kvartmílubrautinni í Hafnarfirði og nýrri spyrnubraut BA á Akureyri. Brautarmetin voru fyrir tíma og hraða, í áttungsmílu á báðum brautum og kvartmílu á Kvartmílubrautinni. Einnig rauf Ingólfur fyrstur á Íslandi 200 mílna múrinn í kvartmílu þegar hann náði 200,5 mílna (323km/klst) hraða í sumar.

Ingólfur byrjaði að keppa árið 1981 og hefur verið virkur bæði sem keppandi og stjórnandi síðan. Hann keppti í nánast öllum keppnum í kvartmílu og sandspyrnu á árunum 1981 til 1992. Á þeim tíma keppti hann á kraftmilkum götubílum og varð hann margoft íslandsmeistari í báðum greinum auk þess sem hann setti nokkur íslandsmet. Eftir hlé á keppni hóf Ingólfur að keppa á ný í upphafi nýrrar aldar. Þá tók við dragster tímabil sem enn stendur en hann keppti einnig á kraftmiklum götubílum. Fyrst keppti hann á Konunni sem nú er seld og s.l. ár hefur hann keppt á Batman.  Á hverju ári hefur verið sett ný og stærri vél í Batman. Næsta ár verður engin undantekning og því er ljóst að Ingólfur er ekki að setjast í helgan stein. 

Ingólfur hefur verið virkur í félagsstarfi KK frá þeim tíma sem hann byrjaði að keppa. Þegar Ingólfur bjó fyrir norðan var hann virkur í starfi BA og sat þar í stjórn. Á þeim tíma var hafinn undirbúningur að því að finna framtíðar akstursíþróttasvæði á Akureyri auk þess sem að klúbburinn byrjaði að halda keppni í götuspyrnu á Tryggvabraut.
Ingólfur hefur verið formaður Kvartmíluklúbbsins lengur en nokkur annar, fyrst á árunum 2003 til 2006 og síðan samfellt frá árinu 2010. Kvartmíluklúbburinn hefur tekið miklum breytingum s.l. ár undir stjórn Ingólfs og er nú keppnishaldari í öllum keppnisgreinum akstursíþrótta á Íslandi. Þá hefur akstursíþróttasvæði klúbbsins tekið miklum stakkaskiptum og grunnur lagður að fjölbreyttu starfi á næstu árum. 

Það er ekki sjálfgefið í íþróttum að eiga eitt besta keppnistímabil sitt eftir 40 ára feril. Það er einmitt það sem Ingólfur er að upplifa og uppskera á árinu 2021. Fjölskylda Ingólfs hefur staðið þétt við bakið á honum og synir hans hafa fengið bakteríuna með móðurmjólkinni – sannkölluð spyrnufjölskylda.

 

Ísak Guðjónsson - tilnefndur fyrir Rally

Ísak Guðjónsson er Íslandsmeistari í rally árið 2021 sem aðstoðarökumaður. Saman með ökumanninum Gunnari Karli Jóhannessyni var Ísak búinn að tryggja sér titilinn fyrir síðustu umferð af fimm, með því að sigra þrisvar og verða einu sinni í öðru sæti. Þetta er annað árið í röð sem þeir félagar verða Íslandsmeistarar, nokkuð sem er verulegt afrek útaf fyrir sig, og má segja að þeir hafi verið í algerum sérflokki á þessu ári. Ísak hefur keppt í rally frá árinu 1993 og er því einn allra reyndasti keppandi í rally á Íslandi. Á þessum tíma hefur hann tekið þátt í 120 keppnum, hérlendis og erlendis, og eru Íslandsmeistaratitlarnir samtals átta. Þessum árangri hefur hann náð með mikilli fagmennsku og metnaði fyrir sínu hlutverki sem aðstoðarökumaður. Hefur þetta m.a. skilað sigri í 7 skipti í Rally Reykjavík, lengstu og erfiðustu rallykeppni ár hvert hér á landi. Þeir félagar Ísak og Gunnar Karl munu keppa í tveimur síðustu umferðunum í Bresku meistararkeppninni í rally sem fór fram á Englandi í lok október.

 

Jóhann Egilsson - tilnefndur fyrir hringakstur

Keppnisráð í hringakstri tilnefnir Jóhann Egilsson til akstursíþróttakarls ársins 2021. Hann stundaði kappakstur af fullum krafti allt tímabilið, mætti mjög vel á æfingar og tók þátt í öllum keppnum bæði í kappakstri og tímaati. Jóhann er Íslandsmeistari í kappakstri annað árið í röð í F1000 flokki. Hann er alltaf viljugur til að miðla af reynslu sinni, lánar nýliðum keppnistæki til prufu og ýtir með áhuga sínum og framferði undir uppgang bæði kappaksturs og tímaats.

 

Skúli Kristjánsson - tilnefndur fyrir torfæru

Keppnisráð í Torfæru tilnefnir til akstursíþróttamanns ársins ökumanninn Skúla Kristjánsson. 

Skúli er á sínu þriðja keppnisári og ekur bílnum Simba í Sérútbúna flokknum. Skúli hefur verið í kringum torfæru frá því að hann krakki. Hann náði NEZ meistaratitlinum á sínu fyrsta ári sem ökumaður árið 2019 og hefur verið í toppbaráttunni um Íslandsmeistaratitilinn sem hann náði loks núna í ár. Skúli tók þátt í öllum umferðunum og sigraði þrjár af sex keppnum ásamt nældi hann sér í nokkur tilþrifaverðlaun. 

Skúli hefur verið duglegur að aðstoða aðra ökumenn við smíði á bílum og er alltaf tilbúinn að rétta fram hjálparhönd. Skúli ásamt liðinu sínu Simba hefur verið áberandi á keppnum og hefur verið duglegur að sinna áhugamönnum sem koma á keppnir að fylgjast með honum.