Emelía Rut Hólmarsdóttir Olsen - Akstursíþróttakona ársins 2017 - Viðtal

3.1.2018

Emelía Rut er á sínu fyrsta ári sem aðstoðarökumaður í AB varahlutaflokknum í Rally með Ragnari Bjarna Gröndal og tóku þau þátt í öllum keppnum ársins.  Í fyrstu keppni lentu þau í fimmta sæti en settu síðan í fluggírinn og sigruðu þrjár keppnir í röð. Mikill barátta var í þessum flokk í sumar og voru að meðaltali 10 bílar skráðir í flokkinn í hverju ralli.

Eftir að Íslandsmeistaratitill var í húsi var ákveðið að færa sig upp um flokk og keyptur öflugur túrbó 4x4 Lancer og lentu þau í öðru sæti í sinni fyrstu keppni í erfiðu og krefjandi næturally.

Emelía Rut er einnig öflug í keppnishaldi akstursíþrótta og hefur starfað við Rall, Rallycross og Torfæru. Emelía Rut er stjórnarmaður í AÍFS og í varastjórn ÍRB.

Öll framkoma og hegðun hennar er öðrum keppendum gott fordæmi.

Við erum því forvitin að vita meira um Emelíu og fengum hana til að segja okkur aðeins meira frá sjálfri sér og þátttöku í akstursíþróttum.

Segðu mér aðeins frá sjálfri þér og hvers vegna þú byrjaðir í akstursíþróttum?

Ég er tvítug, fædd og uppalin í keflavík. Ég starfa með sambýlismanni mínum hjá fyrirtæki sem heitir Vélar og Dekk sem starfrækir Nesdekk í Reykjanesbæ og Garðabæ. Áhuginn byrjaði snemma á bæði bílum og öðrum tækjum og þvældist ég mikið með pabba mínum í kringum það, bílasölu og skúrarúntar, fjórhjólaferðir og fleirra. Við pabbi töluðum oft um það að fara að keppa saman og fórum við oft saman að horfa á bryggjuna í suðurnesjarallinu og á krókinn.
Í byrjun árs ákváðum við Ragnar Bjarni að fara að keppa saman og tókum við þátt í öllum rallykeppnum sumarsins með mjög góðum árangri.

Hvað finnst þér sérstakt við rally?

Rally er einstök íþrótt og er ekki hægt að líkja henni við neina aðra, það sem heillar mig mest við rally myndi vera ferðalöginn, hraðinn, undirbúningurinn og félagsskapurinn.

Að ná tökum á hlutverki aðstoðarökumanns er ekki auðvelt. Hvernig undirbýrð þú þig fyrir keppni?

Undirbúningurinn byrjar oftast viku eftir síðustu keppni, er þá farið strax í að skoða bílinn og laga það sem laga þarf. Að því loknu förum við í það að skipuleggja næsta rall, skipuleggja service og undirbúa fyrir keppni. Þar sem þetta var okkar fyrsta ár saman í rally þá þurftum við að skrifa allar nótur frá grunni og fer talsverður tími í það. Það er góð æfing fyrir okkur til að stilla okkur saman og læra inná hvort annað í akstri. Ég tek svo nóturnar, fer yfir þær og hreinskrifa. Það er mikilvægt að vera vel sofinn og vel nærður því dagur í rally getur orðið ansi langur.

Segðu mér aðeins frá samvinnunni við ökumanninn. Hvað er mikilvægast og hvernig vinnið þið saman að sigri?

Ég myndi segja að traust sé allt þegar kemur að góðu samtarfi í keppni. Ragnar þarf að geta treyst því sem ég er að lesa í hann og ég þarf að treysta því að
hann hlusti á mig, þess vegna undirbúum við okkur vel. Skipulag er stór þáttur í velgengni í þessu sporti og leggjum við mikla vinnu í skipulag og undirbúning fyrir hverja keppni svo ekkert óvænt komi uppá inná leið né annarstaðar og á það við um bæði undirbúning á bíl og leiðarskoðun.

Getur þú gefið þeim sem eru að byrja einhver góð ráð?

Þegar að ég fékk tímabók í hendurnar í fyrsta skiptið þá flétti ég í gegnum hana og skildi ekkert hvernig hún virkaði, ég fékk aðstoð við allt sem ég skildi ekki. Ég held að besta ráðið sem að ég gæti gefið væri að reyna ekki að finna upp hjólið, það eru allir tilbúnir að hjálpa - eina sem þú þarft að gera er að spyrja.

Bestu þakkir fyrir spjallið. Það verður spennandi að fylgjast með þér á næstu árum!