Bílanaustrallý 2017

5.6.2017

Mikil spenna var fyrir fyrstu umferð í íslandmótinu í ralli, Bílanaustrallið sem haldið var um helgina. Nokkrir fyrrum íslandsmeistarar voru meðal þátttakenda en augu manna beindust ekki síst að þeim sjö konum sem skráðar voru til leiks. Þar af var ein áhöfn eingöngu skipuð konum, þeim Hönnu Rún Ragnarsdóttur og Huldu Kolbeinsdóttur, en kvenáhöfn hefur ekki keppt í íslandsmótinu í ralli síðan árið 2013 þegar Ásta Sigurðardóttir og Tinna Viðarsdóttir tóku þátt.

Baráttan var hörð báða dagana, ekið var greitt og allt lagt undir. Mikið var um bilanir í bílum og fór svo að einungis ellefu áhafnir luku keppni. Af þeim voru þrjár skipaðar konum, Katrín María Andrésdóttir varð í 2. sæti ásamt Baldri Haraldssyni og nýliðinn Emilía Rut Hólmarsdóttir Olsen varð í 10. sæti ásamt Ragnari Bjarna Gröndal. Þær voru báðar aðstoðarökumenn. Sigurvegarar urðu þeir Baldur Arnar Hlöðversson og Hjalti Snær Kristjánsson en nánar má lesa um úrslit hér www.mmi.is/rallytimes/index.php

Þær Hanna Rún og Hulda luku síðan keppni í 11. sæti. Er það góður árangur þar sem Hanna Rún keppti hér í fyrsta sinn sem ökumaður en Hulda er nýliði í rallýkeppnum. Verður spennandi að fylgjast með þeim í næstu keppni.

Myndir úr keppninni má m.a. sjá hér www.flickr.com/photos/rallystelpa/albums